Fréttir & tilkynningar

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

25.03.2025
Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna var haldin dagana 15.-16. mars í Bíó paradís. Að venju var skipulagning hátíðarinnar í höndum nemenda FÁ en þau Ana, Arngrímur, Auðunn, Hafþór, Iðunn, Klara og Steinn Torfi sem og kvikmyndakennarinn þeirra Atli, eiga hrós skilið fyrir flotta skipulagningu og glæsilega hátíð.

Kynnisferð til Belgíu

20.03.2025
ÍSAN kennararnir Sigrún Eiríks, Kristjana og Sigrún Gunnars fóru í mjög fræðandi og skemmtilega ferð til Belgíu í gegnum Erasmus+ þann 10.-14.mars sl. Megin tilgangur ferðarinnar var að kynna sér móttöku á innflytjendum í framhaldsskólum. Farið var í sérstakan móttökuskóla sem heitir OKAN þar sem nemendur dvelja í 1-2 ár og læra hollensku í bland við nokkur önnur fög eins og stærðfræði og frönsku en franska er annað opinbert mál Belgíu. Að honum loknum er þeim fylgt eftir í eitt ár en þá fara nemendur gjarnan í systurskóla OKAN sem er hefðbundinn framhaldsskóli. Mikið er lagt upp úr félagslega þættinum og reynt að finna íþróttir og tómstundir fyrir alla. Fundað var með ýmsum kennurum og námsráðgjöfum og ÍSAN kennarar fræddir um allt milli himins og jarðar. Þær sátu líka í ólíkum kennslustundum, fóru í göngu um Antwerpen þar sem OKAN nemendur sáu um leiðsögn og fræddu þær um borgina. Einnig fóru þær í súkkulaði verksmiðju sem er auðvitað stolt þeirra Belga og ómissandi þáttur í menningu þeirra. Vonast þær til að ferðin geti nýst til að miðla fróðleik og þekkingu Belgíu til okkar á Íslandi.

Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina?

19.03.2025
Í FÁ er starfandi frábært umhverfisráð sem vinnur að umhverfismálum í skólanum. Þau Matthildur Þóra og Guðmundur Ingi sem eru í umhverfisráði skrifuðu smá frétt sem birtist á visir.is í vikunni: Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina. Við hvetjum ykkur til að lesa þessa flottu frétt.

Takk fyrir komuna á opið hús

19.03.2025
Í gær var opið hús í FÁ fyrir 9. og 10.bekkinga, forráðamenn og aðra áhugasama. Það var mjög góð mæting og frábær stemning. Við þökkum öllum fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta á næstu önn.