Fréttir & tilkynningar

Nemendur í umhverfisfræði á Þingvöllum

26.09.2024
Nemendur í umhverfisfræði fóru í heimsókn í þjóðgarðinn á Þingvöllum í gær í dásemdar haustveðri. Þar tók Torfi Stefán Jónsson, fyrrum sögukennari í FÁ og núverandi fræðslufulltrúi á Þingvöllum, á móti nemendum og fengu þau fræðandi og skemmtilega leiðsögn um svæðið. Alltaf jafn skemmtileg ferð hjá umhverfisfræðinni á Þingvelli.

Evrópski tungumáladagurinn 26. september

26.09.2024
Evrópski tungumáladagurinn er haldinn í tuttugasta og þriðja sinn í dag, 26. september. Þemað í ár er „Languages for peace“. Markmið Evrópska tungumáladagsins, sem haldinn er 26. september um alla Evrópu, er að vekja athygli á ríkulegum tungumála- og menningarlegum fjölbreytileika álfunnar og hvetja til að bæta úrval tungumála sem fólk lærir á lífsleiðinni. Aukin tungumálakunnátta veitir okkur betri innsýn inn í ólíka menningarheima og bætir samfélagslega færni okkar. Evrópski tungumáladagurinn er tækifæri til að fagna öllum tungumálum Evrópu, bæði stórum og smáum. Í tilefni dagsins þá verður ýmislegt gert í FÁ. Við erum búin að skreyta skólann með fánum og veggspjöldum um tungumál Evrópu. Spiluð verða lög á ýmsum tungumálum í frímínútum og svo verður tússtafla á Steypunni þar sem að nemendur og starfsfólk eiga að skrifa 3 orð / orðasamsetningar á hinum ýmsu tungumálum. Þess má geta að í FÁ eru töluð 37 tungumál frá öllum heimshornum. Hér má sjá meiri upplýsingar um Evrópska tungumáladaginn: https://edl.ecml.at/Home/tabid/1455/language/is-IS/Default.aspx Au revoir, Adios, Auf Wiedersehen, Arrivederci, Adeus, Tot ziens, Hej da, Farvel, Do widzenia, Αντίο, Довиждане, Näkemiin, Viszontlátásra, До свидания

Fánadagur heimsmarkmiðanna í dag!

25.09.2024
Árið 2024 eru níu ár liðin frá því að 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, settu sér sameiginleg markmið, alls 17 heimsmarkmið um betri heim. Stefnt er á að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt. Í dag tekur Fjölbrautaskólinn við Ármúla þátt í fánadegi heimsmarkmiðanna ásamt hundruðum fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga á heimsvísu. Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að sýna stuðning í verki. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030. Það er raunsætt að það náist árangur ef allar þjóðir setja sér framsækin markmið og standa við þau. Því er mikilvægt að við munum öll eftir heimsmarkmiðunum, þekkjum þau og hjálpum til við að framfylgja þeim eftir bestu getu 😊

Nýr skólasálfræðingur í FÁ

25.09.2024
Nýr skólasálfræðingur FÁ er Bryndís Lóa Jóhannsdóttir. Hún er við alla virka daga fyrir hádegi. Hægt er að senda póst á hana til að panta tíma (bryndisloa@fa.is) eða koma við hjá henni á skrifstofu stoðþjónustu á N gangi. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.