Fyrirkomulag náms og kennslu

Námsfyrirkomulag

  • Á upphafsdegi annar fá nemendur send aðgangsorð að námsumhverfi Moodle í tölvupósti frá þjónustuveri skólans.
  • Inn í hverjum áfanga eru upplýsingar um markmið áfanga og áætlaða yfirferð í kennsluáætlun. Einnig eru upplýsingar um námsefni, ítarefni og námsmat.
  • Námsmat í áfanga er fjölbreytt og er mismunandi eftir áföngum sem og vægi þess. Í lok annar eru skrifleg lokapróf, í húsnæði FÁ. Nemendur geta óskað eftir að taka próf utan FÁ.  Nemandi þarf að ná lágmarkseinkunn 4,5 í lokaprófi til að standast áfanga. Ef nemandi fellur á lokaprófi eru próf og verkefni annarinnar ekki reiknuð til lokaeinkunnar.
  • Fjarnám FÁ er sjálfsnám í kennsluumhverfinu Moodle. Það eru ekki kennslustundir í rauntíma en nemandi hefur aðgang að kennara áfangans í Moodle. Það er mikilvægt fyrir nemanda að fylgja yfirferð námsefnis, lesa og skrá hjá sér allar upplýsingar sem kennari setur fram, fylgja tímaramma kennslunnar, leysa/skila inn verkefnum og þreyta hlutapróf á önninni. Hvert einkunnarstig skiptir máli í lokaeinkunn.
  • Sveigjanleiki er einkunnarorð fjarnáms FÁ. Námið er að öllu jöfnu sett upp með föstum skiladagsetningum verkefna og prófa. Þar af leiðandi er sveigjanleikinn ekki sjálfgefinn og nemanda ber að óska fyrirfram eftir sveigjanleika ef hann getur ekki staðið við tímasetningar sem kennari setur fram.
  • Ef nemandi þarf að fá svör við spurningum er hægt að senda fyrirspurn til kennara inn í Moodle og ber kennara að svara innan tveggja sólarhringa. Moodle er lokað námsumhverfi og eiga samskipti á milli nemenda og kennara fjarnámsins að fara fram innan þess. Vinsamlega athugið: netfang sem nemandi fær frá skólanum í upphafi annar er netfang sem verður virkt alla fjarnámsönnina. Allar uppýsingar tengt náminu eru sendar á það netfang.
  • Í lok annar er einkunn í lokaprófi birt í Moodle sem og lokaeinkunn í áfanga. Lokaeinkunn í áfanga er síðan uppfærð í INNU á miðnætti síðasta prófdags. Inna geymir alla námsferla nemenda á framhaldsskólastigi. Athugið: nemendur grunnskóla fá ekki upplýsingar um nám á framhaldsskólastigi inn í infoMentor sem geymir námsferla nemenda á grunnskólastigi. Þeir hafa aðgang að INNU meðan námsönnin er virk.
  • Sjálfsagi er mikilvægur í fjarnámi enda er fjarnám FÁ sjálfsnám. Skipulag og virkni skiptir miklu máli. Hér eru góðir punktar frá námsráðgjöfum skólans til að styðjast almennt við í námi og hér er viðtal á RUV við Sigrúnu, námsráðgjafa skólans, sem veitir góð ráð.
  • Fjarnám FÁ er með starfandi náms- og starfsráðgjafa, sjá upplýsingar hér: Upplýsingar um náms- og starfsráðgjöf fjarnámsins

Námsefni

  • Bókalista má nálgast á heimasíðunni t.d. með því að skoða áfangalýsingar fjarnámsins. Í sumum tilvikum er námsefni inn í Moodle sem og ítarefni.
  • Helstu bókaverslanir í Reykjavík selja þær bækur sem notaðar eru í kennslunni og er hægt að panta þær hjá þeim ef nemendur búa úti á landi. Reynt er að tryggja nægilegt magn bóka. Hafðu samband við kennara ef þú lendir í vandæðum með að útvega námsgögn.

Námsmat í áfanga

    • Námsmat í áfanga er fjölbreytt og er mismunandi eftir áföngum sem og vægi þess.
    • Nemandi þarf að ná lágmarkseinkunn 4,5 á lokaprófi, áður en einkunnir fyrir próf og/eða verkefni sem unnin eru á önninni eru reiknaðar inn í lokaeinkunn.
    • Þetta þýðir að einkunnir í prófum og verkefnum sem unnin eru á önninni geta hækkað lokaeinkunn upp í lágmark í áfanganum hafi nemandi náð 4,5 á lokaprófi. Þetta getur einnig þýtt að ef einkunnir fyrir próf og verkefni sem unnin eru á önninni eru slakar getur það orðið til þess að nemandi stenst ekki áfanga, jafnvel þó einkunn í lokaprófi hafi verið hærri en 4,5. Hér þarf að huga að vægi námsþátta í áfanga, þ.e.a.s. vægi lokaprófs annars vegar og vægi prófa/verkefna sem unnin eru á önninni hins vegar.
Síðast uppfært: 01. janúar 2025