- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Skrifstofa
- Stoðþjónusta
- Þjónusta við nemendur
- Heilbrigðisskólinn
- Fjarnám
- Inna
- Moodle
- Teams
- Office 365
Verkefnið Námskraftur er á vegum Fjölbrautaskólans við Ármúla. Námskraftur er einna til tveggja anna námsúrræði á framhaldsskólastigi. Námið hentar þeim nemendum sem treysta sér ekki beint inn í stóran framhaldsskóla og þurfa aukinn stuðning í byrjun eða hafa ekki náð að fóta sig í framhaldsskóla.
Markmiðið með Námskrafti er að styrkja nemendur með stuðningi og eftirfylgni til aukinnar ábyrgðar á námi sínu, með það að leiðarljósi það þau geti nýtt sér nám í framhaldsskólum og standist þær körfur sem slíkt nám gerir til þeirra.
Verkefnið er nú á vegum FÁ en verkefnið var áður samstarfsverkefni, FÁ, Námsflokka Reykjavíkur og Mennta- og barnamálaráðuneytisins. Kennsla fer fram á Suðurlandsbraut 32, 2. hæð, 108 Reykjavík, í björtu og rúmgóðu húsnæði.
Í Námskrafti eru kenndar bæði bóklegar og verklegar greinar. Lögð er áhersla á sjálfseflingu í öllum greinum. Boðið er upp á sex grunngreinar: félagsvísindi (FÉLV1IF05), listir (MYNL1MG05, MYNL1ÞV05), hópráðgjöf (RÁÐG1RG01), lífsleikni (LÍFS1ÉG03, LÍFS1BS02), sálfræði (SÁLF1SD05) og stærðfræði (STÆR1UN05, STÆR1GR05 og/eða STÆR2AM05). Þá er verkefnatími í töflu, þar sem nemendum býðst stuðningur við verkefnavinnu í því fagi sem þau vilja fá auka aðstoð við. Nemendur geta einnig skráð sig í áfanga í FÁ ef áhugi er fyrir hendi, en í boði eru áfangar á borð við tónlistaráfanga, íþróttaáfanga eða fjallgönguáfanga.
Stundaskrá er samfleytt frá morgni fram yfir hádegi. Tímar hefjast fjóra morgna kl. 8:30 (á mánudögum kl. 9:20) og kennt er flesta daga til 13:30. Alla jafna er hringt í nemendur að morgni ef þeir eru ekki mættir, og ef ekki næst í nemendur sem eru undir 18 ára er hringt í forráðamann.
Námsráðgjafar aðstoða nemendur við að sækja um framhaldsskóla áður en náminu lýkur og er umsóknum þeirra fylgt eftir.
Nánari upplýsingar fást hjá Jódísi Káradóttur náms- og starfsráðgjafa Námskrafts og Elínu Guðbjörgu Bergsdóttur náms- og starfsráðgjafa og kennslustjóra Námskrafts í gegnum netfangið namskraftur@fa.is.
Umsóknir um Námskraft fara í gegnum Miðstöð menntunar og skólaþjónustu https://innritun.is/.
Skrifstofa Námskrafts er á Suðurlandsbraut 32, 2. hæð og er opin frá kl. 8-12 alla daga. Síminn er 5258890.
Umsögn nemanda: ,,Þetta var geggjað. Takk fyrir mig."