Nám og skóli

Þegar þú veist hvaða starf eða starfssvið þú vilt stefna á er auðveldara að hefja leit að réttri námsbraut og skóla. Í upphafi skyldi endinn skoða er máltæki sem á vel við hér. Ef starfið krefst háskólamenntunnar er rétt að byrja á að kynna sér námið í háskólanum og inntökuskilyrði þar. Þá kemstu að því hvort ákveðinnar námsbrautar er krafist úr framhaldsskóla eða ákveðins fjölda eininga í stærðfræði, raungreinum, félagsgreinum, tungumálum, listum eða öðru. Ef starfið krefst náms á framhaldsskólastigi getur verið að fyrst þurfi að ljúka ákveðnum fjölda eininga í almennum greinum. Þær einingar er hægt að taka í flestum framhaldsskólum og þá t.d. hægt að byrja í skóla nálægt heimilinu.

Þegar ljóst er hvaða námsbraut í framhaldsskóla hentar fyrir starfið eða framhaldsnámið geturðu skoðað í hvaða skólum sú braut er í boði og valið um skóla.

Skoðaðu síðuna "Næsta skref".

Menntagátt er annar upplýsingabrunnur um skóla og nám en þar er að finna yfirlit yfir alla skóla landsins á öllum skólastigum. Vissir þú að námsbrautir í framhaldsskólum á Íslandi eru um eða yfir 100 talsins?