Námsmat

Námsmatsreglur

Þessar námsmatsreglur eru núverandi reglur skólans og í endurskoðun.

Námsmat - kennsluáætlun

Í upphafi hverrar annar skal nemendum kynnt í kennsluáætlun tilhögun námsmats í hverjum áfanga. Þar skal tilgreina öll verkefni sem vægi hafa til námsmats og nemanda er skylt að skila á önninni. Námsmat getur byggt á skriflegu eða munnlegu prófi, verkefnavinnu, jafningjamati, sjálfsmati eða öðrum þeim leiðum sem kennari kýs og fram koma í kennsluáætlun.

Að loknu prófi eiga nemendur þess kost að skoða prófúrlausnir sínar á valdegi. Komi fram skekkja í mati eða einkunnagjöf skal hún leiðrétt. Nemendur eiga rétt á því að ágreiningi um prófniðurstöðu sé vísað til úrskurðar annars en viðkomandi kennara.

Einkunnagjöf

Við lok hvers áfanga er gefin einkunn í heilum tölum á bilinu 1-10. Einkunnir geta byggst á frammistöðu í kennslustundum, skilum og mati á verkefnum og lokaprófi, allt eftir ákvörðun deildarfundar. Í sumum áföngum er eingöngu beitt símati og þar er ekki lokapróf. Lágmarkseinkunn í hverjum áfanga er 5, þó með þeirri undantekningu að nemandi getur útskrifast með einkunnina 4 ef um lokaáfanga er að ræða. Slíkur árangur gefur ekki einingar. Nái nemandi ekki lágmarkseinkunn verður hann að endurtaka áfangann, þó er þeim nemendum sem eru að ljúka námi gefinn kostur á að endurtaka próf í einum áfanga.

Endurtekning prófs

Nemanda er heimilt að þreyta próf þrívegis í sama áfanga.

Einkunnaskali

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10 og skal hafa eftirfarandi til hliðsjónar um merkingu þeirra.

Einkunn:

10 u.þ.b. 95-100% markmiða náð

9 - 85-94% -

8 - 75-84% -

7 - 65-74% -

6 - 55-64% -

5 - 45-54% -

4 - 35-44% -

3 - 25-34% -

2 - 15-24% -

1 - 0-14% -

Ágreiningur um námsmat

Að loknu prófi skulu nemendur eiga þess kost að skoða prófúrlausnir sínar innan þriggja daga frá afhendingu einkunna. Komi fram skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt. Verði ágreiningur milli nemenda og kennara um mat úrlausna skal skólameistari kveðja til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina að höfðu samráði við verkstjóra. Úrskurður prófdómara skal gilda. Skriflegar prófúrlausnir eru varðveittar í eitt ár, en þá er þeim tryggilega eytt.

Skólameistari getur óskað eftir því að ráðuneytið skipi prófdómara við lokapróf eða til aðstoðar við úrlausn alvarlegra ágreiningsefna sem upp kunna að koma á milli nemenda og kennara.

Prófsvindl

Nemenda, sem staðinn er að misferli í prófi eða öðrum þáttum námsmats, skal vísa frá prófi og getur hann búist við brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots.

Varðveisla prófvottorða og einkunna að námi loknu

Allar upplýsingar er varða námsferil nemenda í skólanum og mat á námi úr öðrum skólum eru varðveittar í gagnagrunni. Að jafnaði er hægt að fá útskrift af námsferli eða afrit af skírteini með stuttum fyrirvara. Beiðni þar að lútandi þarf að berast skrifstofu skólans. Ef þess er óskað er hægt að prenta þessi gögn í enskri eða danskri þýðingu.

Mat á námi úr öðrum skólum

Matsreglur og framkvæmd þeirra

Við námsmat er stuðst við nokkrar grundvallarreglur er varða matshæfni náms, innihald og stundafjölda.

Hvað matshæfni varðar er aðalforsendan að hægt sé að finna hliðstæðu í námsframboði FÁ eða að námið megi flokka innan þeirrar brautar sem sótt er um. Ef um vafaatriði er að ræða er það borið undir stjórnendur. Nám sem ekki fellur innan þessa ramma er metið til valeininga að því marki sem valgreinakvóti brautar segir til um.

Hvað stundafjölda varðar er nám matshæft til eininga ef það er skilgreint á hæfnirþrep framhaldsskóla og ef fram kemur kennslustundafjöldi eða klukkustundafjöldi. Að baki hverrar einingar liggur 18 - 24 klukkustunda vinna.

Áfangastjóri sér um mat á fyrra námi nemenda í dagskólanum og fjarnámstjóri fyrir nemendur fjarnámsins. Þeir kalla stjórnendur sér til fulltingis ef um vafaatriði er að ræða. Skólameistari ber ábyrgð þegar meta skal nám úr skóla sem ekki starfar samkvæmt námskrá. Nemendur í slíkri stöðu skulu njóta vafans ef um slíkt er að ræða.

Síðast uppfært: 17. maí 2024