Spurt og svarað um sjúkraliðanám

Sjúkraliðanám. Hver er munurinn á sjúkraliðabraut og sjúkraliðabrú ?

Sjúkraliðabraut er 206 feininga nám sem tekur að jafnaði 3 ár eða 6 annir. Leyfilegt er að taka námið á lengri tíma. Sækja þarf um sjúkraliðabraut eins og hefðbundnar brautir í framhaldsskóla. Nám í kjarnagreinum íslensku, ensku og stærðfræði ásamt námi í öðrum almennum greinum hefst á 1. önn. Gert er ráð fyrir í námskrá að nám í kjarnagreinum hefjist á 2. þrepi. Á annarri og þriðju önn bætast við framhaldsáfangar kjarnagreina og nám í heilbrigðisgreinum sem eru nauðsynlegir undanfarar náms í sérgreinum brautar og starfsnáms. Sjá nánar um uppbyggingu sjúkraliðabrautar hér: https://www.fa.is/namid/heilbrigdisskolinn/sjukralidabraut/

Sjúkraliðabrú er 146 feininga nám sem tekur að jafnaði 2 ár eða 4 annir. Brautin er ætluð fólki með langan starfsaldur í umönnun. Sækja þarf um pláss á sjúkraliðabrú beint til kennslustjóra sjúkraliðabrautar. Skilyrði eru að hafa náð a.m.k. 23 ára aldri og hafa starfað að lágmarki 3 ár við umönnunarstörf, í að lágmarki 60% starfi. Flestir á sjúkraliðabrú eru starfandi á meðan á námi stendur og taka námið á lengri tíma en 2 árum. Með umsókn um sjúkraliðabrú þarf að skila meðmælum frá vinnuveitanda sem og staðfestingu frá stofnun um starfstíma og starfshlutfall. Skilgreining hér á reynslu í umönnun er starf með öldruðum eða fötluðum á hjúkrunarheimilum eða sambærilegum stofnunum.

Umsækjandi um sjúkraliðabrú pantar viðtal hjá kennslustjóra sjúkraliðabrautar skólans, sækir um og skilar inn umbeðnum gögnum til kennslustjóra. Sjá nánar uppbyggingu sjúkraliðabrúar hér: https://www.fa.is/namid/heilbrigdisskolinn/sjukralidabraut/sjukralidabru/

Aldurstakmark 23 ár og starfsaldur lágmark 3 ár þarf að vera náð þegar nám hefst á sjúkraliðabrú.

Allir nemendur hvort sem er á sjúkraliðabraut eða sjúkraliðabrú fá einstaklingsmiðaðar ráðleggingar um námið.

Hvað er vinnustaðanám í sjúkraliðanámi ?

Vinnustaðanám í sjúkraliðanámi, hvort sem er á sjúkraliðabraut eða sjúkraliðabrú er það sama. Nemandi þarf að ljúka þrisvar sinnum 3 vikna vinnustaðanámi á námstímanum. Á hverju þriggja vikna tímabili þarf nemandinn að mæta á 12 vaktir á stofnun þar sem skólinn hefur útvegað honum námspláss. Þessi viðvera ( 4 vaktir á viku ) samsvarar tæplega 80% starfi og því er nemendum, sérstaklega vinnandi fólki á sjúkraliðabrú bent á að gera ráðstafanir í tíma, varðandi vinnu, enda ekki hægt að sinna eigin starfi nema að litlu leyti á meðan á vinnustaðanámi stendur. Nemendum er þá bent á vinnuveitendur sem stundum veita námsleyfi að hluta, á stéttarfélög þar sem einhver réttindi kunna að vera til staðar sem dæmi. Vinnustaðanám er ólaunað.

Áfangar í vinnustaðanámi eru þessir:

VINN3ÖH08 (vinnustaðanám á öldrunarstofnun), VINN2LS08 (vinnustaðanám á sjúkrahúsi, handlæknis- eða lyflæknisdeild) og VINN3GH08 (vinnustaðanám á sérdeild, getur verið líknardeild, heimahjúkrun, geðdeild, barnadeild osfrv. )

Áður en nemandi fer í sitt fyrsta vinnustaðanám þarf hann að hafa lokið eftirfarandi hjúkrunaráföngum: HJÚK1AG05, HJVG1VG05, HJÚK2HM05 og HJÚK2TV05. Þá fer hann í VINN3ÖH08, sem er alltaf fyrsti vinnustaðanámsáfanginn. Á sjúkraliðabraut byrjar nemandi oftast í vinnustaðanámi í lok 4. annar. Þetta er í flestum tilvikum í lok vorannar, eða um miðjan maí. Á sjúkraliðabrú er líklegt að það sé fyrr, jafnvel í lok 2.annar, oft á 3.önn. Hvenær nemandi á sjúkraliðabrú fer í vinnustaðanám getur verið sveigjanlegt og er í samráði við kennslustjóra.

100% mætingarskylda er í vinnustaðanám. Því þarf nemandi að vinna upp ef vaktir falla niður vegna veikinda. Sjúkraliði á deild leiðbeinir nemandanum í vinnustaðanámi og hjúkrunarkennari fylgir nemandanum eftir. Verkefni eru unnin í hverju vinnustaðanámi.

Nemandi getur ekki farið í vinnustaðnám á deild sem hann er á vinna á eða hefur unnið á. Enginn afsláttur er á vinnustaðanámi. Undantekning er ef nemandi á sjúkraliðabrú hefur fengið VINN3ÖH08 metið í gegnum raunfærnimat. Sjá nánar um raunfærnimat hér að neðan.

Nemandi þarf að vera orðinn 18 ára til að fá að hefja vinnustaðanám, miðast það við fæðingardag.

Hvað er starfsþjálfun í sjúkraliðanámi ?

Áfanginn STAF3ÞJ27 er 27 eininga áfangi. Þetta er það sem kallað er starfsþjálfun. Bæði á sjúkraliðabraut og sjúkraliðabrú þarf nemandi að skila 80 vöktum í starfsþjálfun. Nemandi á sjúkraliðabrú getur sótt um að fá metnar allt að 20 vaktir ef hann skilar inn til kennslustjóra staðfestingu frá stofnun og meðmælum (sama og þegar sótt er um pláss á sjúkraliðabrú). Ef nemandi fær 20 vaktir metnar þá þarf hann að skila 60 vöktum í starfsþjálfun, getur aldrei verið minna en það.

Nemendur þurfa að skipta starfsþjálfun á tvær deildir/stofnanir. Nemandi getur hafið starfsþjálfun eftir fyrsta vinnustaðanámið, þá einungis á öldrunarstofnun. Hann má starfa allt að 40 vaktir eða helming starfsþjálfunar. Nemandi klárar svo hinn helminginn þegar hann hefur lokið öllu vinnustaðanámi. Nemandi sækir sjálfur um pláss í starfsþjálfun til stofnunar eins og hann væri að sækja um vinnu, hann fær vottorð frá kennslustjóra um að hann hafi lokið tilskildum áföngum og skilar því með umsókn. Starfsþjálfun þarf að vera að lágmarki 60% starf og er launuð skv. kjarasamningi Sjúkraliðafélagsins. Nemandi þarf að skila staðfestingu á fjölda vakta og umsögn frá deildarstjóra í lok starfsþjálfunartímabils til kennslustjóra sjúkraliðabrautar. Áður en starfsþjálfun hefst þá þarf nemandi að fá þetta skjal frá kennslustjóra. Tekið skal fram að nemandi ber sjálfur ábyrgð á því að skipuleggja sína starfsþjálfun þannig að henni sé lokið að fullu fyrir útskrift, ekki er hægt að útskrifast sem sjúkraliði fyrr en allir starfsþjálfun er lokið. Engar undantekningar eru gerðar á þessu skilyrði.

Nemandi getur ekki tekið starfsþjálfun á deild sem hann er á vinna á eða hefur unnið á. Enginn afsláttur er á starfsþjálfun nema að nemandi á sjúkraliðbrú hafi sótt um að fá 20 vaktir metnar eins og fyrr segir.

Þarf nemandi bólusetningar í sjúkraliðanámi ?

Já. Nemendur sem fara í vinnustaðanám á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri þurfa að fara í ákveðnar bólusetningar og eru berklaprófaðir áður en vinnustaðanám þeirra hefst. Allar upplýsingar og tímasetningar varðandi bólusetningar og berklapróf veitir kennslustjóri uþb. 3 mánuðum áður en fyrsta vinnustaðanám hefst.

Mikilvægt: Hafi nemandi legið á spítala eða starfað á spítala eða sambærilegri stofnun erlendis, innan við sex mánuðum fyrir vinnustaðanám eða starfsþjálfun þá þarf hann að fara í sýnatöku fyrir MÓSA (Meticillín ónæmur Staphylococcus aureus). Leita skal til kennslustjóra með leiðbeiningar.

Þarf nemandi að skrifa undir þagnarskyldu í sjúkraliðanámi ?

Já. Allir nemendur á sjúkraliðabraut og sjúkraliðabrú skrifa undir þagnarskyldu á þar til gert eyðublað eða rafrænt, hjá kennslustjóra áður en farið er í fyrsta vinnustaðanám. Þagnarskyldan nær yfir Landspítala og allar aðrar heilbrigðisstofnanir sem nemandinn mun fara inn á. Ef nemandinn er starfandi á Landspítala þá hefur hann líklega skrifað undir þagnarskyldu, hann þarf þá ekki að gera það aftur. Nóg er að skrifa einu sinni undir þagnarskyldu enda nær hún yfir allar heilbrigðisstofnanir og helst þó svo að nemandinn hætti námi, ljúki námi eða hætti störfum.

Þarf nemandi auðkenniskort í sjúkraliðanámi ?

Í flestum tilvikum þegar vinnustaðanám hefst. Margar heilbrigðisstofnanir láta búa til auðkenniskort fyrir nemendur í vinnustaðanámi og starfsþjálfun. Ferlið á Landspítala er í þeim farvegi að nemandi sem hefur fengið úthlutað plássi í vinnustaðanámi á deild Landspítala þarf að sækja sjálfur um auðkenniskortið. Þegar hann hefur fengið úthlutað deild og tímabili hjá kennslustjóra þá getur hann sótt um auðkenniskort. Þetta er oftast nokkrum vikum (3-4 vikum) áður en tímabilið hefst.

Nemandi sækir um auðkenniskort hér (https://audkenniskort.landspitali.is/ ) og sendir mynd/passamynd með umsókninni. Myndin á helst að vera með einlitum bakgrunni og í stærð 3,5x4,5 cm. Einnig er hægt að fara í myndatöku í móttökumiðstöð Landspítala í Skaftahlíð 24, virka daga kl. 10-12 og kl. 13-15. Tilbúið auðkenniskort er sent á þá deild sem nemandinn er að fara á í vinnustaðanám og auðkenniskortið gildir fram að útskrift. Frekari upplýsingar: audkort@landspitali.is eða í s. 543-1880.

Þarf nemandi að læra skyndihjálp í sjúkraliðanámi ?

Bæði á sjúkraliðabraut og sjúkraliðabrú er skyndihjálp einn af skylduáföngum. Margir hafa tekið skyndihjálp áður. Ef innan við 2 ár eru frá því að nemandi lauk skyndihjálp þá getur hann sótt um að fá áfangann metinn, en skila þarf staðfestingu, ef meira en 5 ár hafa liðið þá þarf alltaf að taka áfangann að nýju. Ef 2-5 ár hafa liðið þá getur verið nægjanlegt að nemandinn taki upprifjunarnámskeið hjá Rauða Krossinum (4 klst.) bent er á að það er alfarið á kostnað nemandans. Skyndihjálparnámskeiðið í skólanum er innifalið í náminu og er alltaf 12 klst. Þar sem mælt er með að sjúkraliðanemendur taki skyndihjálp á síðustu eða næstsíðustu önninni þá er í flestum tilvikum skynsamlegt að taka 12 klst. námskeið á vegum skólans.

Þarf nemandi að kunna íslensku til að byrja í sjúkraliðanámi ?

Já. Nemandi þarf að skilja vel íslensku og geta talað og skrifað á íslensku. Ekki er gerð krafa um fullkomna íslensku. Kennt er á íslensku og námsefni og verkefni er á íslensku. Verklegur áfangi í skólastofu þar sem tveir og tveir nemendur vinna saman að verkefnum gerir kröfu um að nemandinn sé nokkuð fær í íslensku. Einnig verklegt próf. Heilbrigðisstofnanir sem taka á móti sjúkraliðanemum í vinnustaðanám gera kröfu um íslenskukunnáttu þar sem gert er ráð fyrir að nemandinn getir tjáð sig við annað starfsfólk og skjólstæðinga.

Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla er boðið upp á mjög marga íslenskuáfanga fyrir nemendur með annað móðurmál og eru allir nemendur með annað móðurmál eindregið hvattir til að nýta sér þá áfanga.

Er hægt að vera í sjúkraliðanámi í fjarnámi ?

Já. Þó ekki eingöngu. Flestir áfangar á sjúkraliðabraut eru einnig í boði í fjarnámi. Nemandi þarf þó að kynna sér fjarnámið vel því ekki eru allir áfangar kenndir á hverri önn. Sérstaklega á þetta við hjúkrunaráfangana. Þeir eru kenndir uþb. aðra hverja önn. Sumir aðeins á haustönn og aðrir aðeins á vorönn. Einn af fyrstu hjúkrunaráföngunum sem heitir HJVG1VG05 er verklegur áfangi í skólanum og því er hann aldrei kenndur í fjarnámi. Hann er kenndur að hausti og þá er nemandinn alltaf á sama tíma í HJÚK1AG05 sem er fyrsti bóklegi hjúkrunaráfanginn. Taka skal þó fram að hann er ekki kenndur á hverri haustönn í fjarnámi.

Allt vinnustaðanám og starfsþjálfun er auðvitað eins og í dagskólanum. Nemendur sem velja að vera að mestu í fjarnámi þurfa að vera skráðir í dagskóla þegar þeir taka verklega áfanga, en allt verklegt, HJVG1VG05, allt vinnustaðanám og starfsþjálfun er skráð sem dagskólaáfangar. Kennslustjóri útskýrir nánar fyrir nemendum þegar að vinnustaðanámi kemur.

Getur nemandi á sjúkraliðabraut fengið fyrra nám metið ?

Já, allt sem við á. Margir koma í sjúkraliðanám með aðra menntun að baki, stundum er menntunin á heilbrigðissviði eða tengdu sviði, en stundum á allt öðru sviði. Kennslustjóri og áfangastjóri fara vel yfir allt fyrra nám og meta allt sem hægt er að meta. Það er þó alltaf þannig að ekki er hægt að meta áfanga nema að þeir hafi sannarlega verið teknir áður eða eru mjög sambærilegir áföngum á sjúkraliðabraut/brú. Allir sitja við sama borð.

Hvað er raunfærnimat í sjúkraliðanámi ?

Hjá Framvegis, miðstöð símenntunar og hjá fleiri símenntunarstöðvum um landið, getur umsækjandi/nemandi sótt um raunfærnimat, það er mat á fyrri starfsreynslu. Sjá hér https://www.framvegis.is/is/raunfaernimat-1/raunfaernimat-a-sjukralidabraut

Raunfærnimat eða Framvegis tengist ekki skólanum beint, og því þarf að snúa sér til Framvegis með allar spurningar um raunfærnimat. Fólk sem uppfyllir skilyrði inn á sjúkraliðabrú er hvatt til þess að kynna sér raunfærnimat. Þeir áfangar sem Fjölbrautaskólinn við Ármúla viðurkennir og metur úr raunfærnimati inn í sjúkraliðanám eru eftirfarandi: HJVG1VG05, HJÚK1AG05, NÆRI2NN05, HBFR1HH05, SASK2SS05, VINN3ÖH08.

Síðast uppfært: 16. september 2024