Heilbrigðisritarabraut

Um nám á heilbrigðisritarabraut

Nám heilbrigðisritara er 120 einingar með námslok á 2. hæfniþrepi. Brautin samanstendur af almennum greinum, heilbrigðisgreinum, sérgreinum brautar og vinnustaðanámi. Til að geta stundað nám á brautinni þarf að hafa lokið grunnskóla með tilskildum lágmarksárangri. Nemendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja vinnustaðanám heilbrigðisritara.

Inntökuskilyrði

Skilyrði til innritunar í nám á heilbrigðisritarabraut er grunnskólapróf. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum (íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku), þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þessum greinum.

Til þess að ná góðum árangri í starfi þarf viðkomandi að hafa gott vald á íslensku og eiga auðvelt með mannleg samskipti, búa yfir umtalsverðri tölvukunnáttu, sérstaklega í ritvinnslu og sérhæfðum forritum um sjúklinga- og starfsmannabókhald hvers konar, auk þekkingar á hagnýtri notkun upplýsingatækninnar. Jafnframt er nauðsynlegt að þekkja til algengustu hugtaka sem lækningar og hjúkrun byggjast á og hafa innsýn í hugmyndafræði og skipulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þá þarf að hafa innsýn í siðfræðileg málefni er varða gagnaöflun, meðferð persónuupplýsinga og faglegan metnað.

Nemendur skulu hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja vinnustaðanám.

Vinnustaðanám

Vinnustaðanám á heilbrigðisstofnun eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu tekur við að loknu bóknámi í skóla. Það skiptist í 6 vikna skipulagt vinnustaðanám á heilsugæslu undir leiðsögn starfandi heilbrigðisritara og 6 vikna vinnustaðanám á sjúkrahúsi undir leiðsögn starfandi heilbrigðisritara.

Vinnustaðanámið fer fram á vinnustað sem viðkomandi skóli viðurkennir. Kennslustjóri brautar sækir um nemapláss í samráði við nemanda og skólinn gerir námssamning við vinnustaðinn fyrir hönd nemandans. Í samningnum er tilgreind lengd vinnutíma, gildistími samnings og skyldur nemanda, skóla og stofnunar. Í samningi skal einnig koma fram hvernig fara skuli með ágreining sem upp kann að koma. Hverjum nemanda skal fenginn leiðbeinandi sem skal vera reyndur heilbrigðisritari á viðkomandi vinnustað.

Ferilbók sem fylgir hverjum nemanda í vinnustaðanámi er á ábyrgð nemanda og leiðbeinanda og er hún hluti af námsmati.

Markmið að loknu námi:

  • búa yfir alhliða þekkingu og færni til að gegna þeim störfum sem tilheyra starfssviði heilbrigðisritara samkvæmt starfslýsingu, þekkja réttindi og skyldur heilbrigðisritara
  • hafa öðlast færni til að sinna skjólstæðingum í samræmi við hugmyndafræði og stefnu vinnustaðar og unnið í samstarfi við aðra af fagmennsku
  • vera meðvitaður um vinnuvernd og öryggi á vinnustað og mikilvægi hreinlætis, smitvarna, trúnaðar, þagmælsku og góðra samskipta
  • kunna að skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og markmið stofnunar og fyrirtækis, geta raðað verkefnum í forgangsröð
  • geta aflað fræðilegra upplýsinga eftir fjölbreyttum leiðum og búa yfir nægilegri þekkingu til að meta upplýsingagildi og áreiðanleika þeirra
  • hafa þekkingu á skipulagi íslenska heilbrigðiskerfisins og hlutverki helstu þjónustuþátta þess og geta nýtt sér þá þekkingu í starfi
  • búa yfir áhuga og frumkvæði til að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

Spurt og svarað 

Hér má finna algengar spurningar og svör um heilbrigðisritaranám:

Spurt og svarað

Prentvæn útgáfa

Endurskoðuð námsbraut heilbrigðisritara tók gildi í janúar 2023, nemendur sem langt eru komnir í námi samkvæmt fyrri útgáfu er heimilt að ljúka samkvæmt henni. Allir nýir nemendur hefja nám samkvæmt endurskoðaðri námsbraut. Nánari upplýsingar hjá kennslustjóra brautar.

Heilbrigðisritarabraut (pdf)

Heilbrigðisritarabraut (excel)

Kjarni 1. þrep 2. þrep 3. þrep Einingar 
Bókfærsla BÓKF1IB05     5
Enska

  ENSK2EH05
ENSK2LO05
ENSK2BO05
ENSK3SA05 20

Gæðastjórnun   GÆST2VE04   4
Gæði, öryggi og rekjanleiki   GÆÖR2RE05   5
Heilbrigðisfræði HBFR1HH05     5
Íslenska   ÍSLE2HM05
ÍSLE2MR05
  10
Íþróttir ÍÞRÓ1AA01
ÍÞRÓAB01
    2
Líkamsbeiting LÍBE1HB01     1
Lyfjafræði fyrir ritara   LYFR2SF04   4
Samskipti   SASK2SS05   5
Sálfræði SÁLF1SD05 SÁLF2FÖ05   10
Siðfræði   SIÐF2SF05   5
Skjalavarsla SKJA1SV02     2
Skráning     SKRÁ3HL05 5
Skyndihjálp   SKYN2EÁ01   1
Starfsumhverfi heilbrigðisstofnana STHE1HÞ05     5
Stærðfræði   STÆR2HS05   5
Upplýsingalæsi á tölvur og sjúkraskrár UPPÆ1SR05     5
Vinnan og vinnumarkaðurinn VIMA1RS01     1
Vinnustaðanám   VIHB2HG10
VIHB2SJ10
  20
Samtals       120 einingar
Síðast uppfært: 12. desember 2024