Störf og atvinnulífið

Hér er gott að byrja könnunarleiðangurinn. Ef þú veist ekki um tilvist margra starfa þá komast þau ekki á listann þinn um áhugaverð störf. Þó við tölum oft um starfsheiti þá er mikilvægt að íhuga hvaða viðfangsefni er fengist við innan starfa því störf breytast. Nóg verður um viðfangsefni og verkefni í framtíðinni þó að störf muni breytast, hætta eða snjallvæðast. Við mannfólkið getum þá bara nýtt tímann í ný, öðruvísi og/eða áhugaverðari störf og viðfangsefni.

Gott er að kanna starfssviðin til að byrja með. Starfssvið eru flokkar skyldra eða tengdra starfa. Hvaða starfssvið höfða til þín? Skoðaðu listann hér fyrir neðan. Flokka má störf á ýmsa vegu. Mismunandi getur verið hvað starfssviðin kallast og hvar störf eru flokkuð. Sum störf tengjast fleiru en einu starfssviði eins og t.d. arkitekt sem gæti bæði verið innan bygginga- og mannvirkjagreina en líka list- og hönnunargreina.

Hér er dæmi um flokkun starfa:

  • Bygginga- og mannvirkjastörf
  • Farartækja-, flutnings- og samgöngustörf
  • Heilbrigðisstörf
  • Hótel- og ferðamálastörf
  • Hönnun, lista- og handverksstörf
  • Löggæsla og öryggisstörf
  • Matvæla- og veitingastörf
  • Málm- og véltæknistörf
  • Náttúrunýting og landbúnaðarstörf
  • Snyrti- og útlitsstörf
  • Rafmagns- og tæknistörf
  • Sjávarútvegsstörf
  • Stjórnmála- og stjórnunarstörf
  • Uppeldis-, kennslu og tómstundastörf
  • Upplýsinga-, fjölmiðla- og tölvustörf
  • Viðskipta-, verslunar- og markaðsstörf

Störfin innan hvers starfssviðs eru mismunandi hvað varðar lengd náms sem krafist er. Fyrir sum störf þarf enga formlega menntun eða nám úr grunnskóla nægir. Fyrir önnur þarf nám í framhaldsskóla, háskóla eða ákveðin námskeið. Þegar þú veist hvaða starfssvið höfða til þín getur þú kannað nánar hvaða störf innan þeirra þér líst vel á. Til að kynna þér betur hvað felst í störfunum getur þú skoðað starfslýsingar á vefsíðum sem náms- og starfsráðgjafar benda á undir liðnum „Gagnlegar slóðir“, t.d. nýja vefinn Næsta skref, spurt náms- og starfsráðgjafa, foreldra þína, ættingja, kennara og talað við fólk sem vinnur þannig störf.

Síðast uppfært: 16. maí 2024