Prófareglur

  • Nemendur skulu koma stundvíslega til prófs og athuga á auglýsingatöflu skólans hverju sinni hvar þeim er ætlaður staður í prófinu. Nemanda ber að hafa meðferðis persónuskilríki. Nemandi sem kemur meira en 30 mínútum of seint í próf, fær ekki að taka prófið.
  • Nemendur mega ekki yfirgefa prófstofu fyrr en hálf klukkustund er liðin af próftíma. Nemandi skilar prófi til yfirsetumanns sem skráir móttöku þess.
  • Veikindi ber að tilkynna skrifstofu skólans fyrir hádegi viðkomandi prófdag. Greiða þarf fyrir skráningu í sjúkrapróf (sjá verðskrá). Einnig geta nemendur flutt próf á sjúkraprófsdag af öðrum ástæðum gegn sömu greiðslu. Nemandi sem mætir í sjúkrapróf án kvittunar, fær ekki að taka próf.
  • Ef tvö próf lenda á sama tíma getur nemandi snúið sér til skrifstofunnar sem skráir viðkomandi í sjúkrapróf í öðrum áfanganum, honum að kostnaðarlausu.
  • Nemanda sem verður uppvís að svindli (notar óheimil hjálpargögn, veitir eða þiggur hjálp frá öðrum nemanda), er vísað til skólastjórnenda. Nemandinn fær áminningu og falleinkunn í viðkomandi áfanga og getur prófsvindl varðað brottrekstri úr skóla.
  • Slökkt skal á farsímum í prófi og þeir mega ekki vera á prófborði. Próftaka er ekki heimilt að taka síma með á salerni á meðan próf er þreytt.
  • Notkun hvers konar tækja er óheimil nema með samþykki prófstjóra og á prófborði skulu einungis vera nauðsynleg ritföng og leyfileg hjálpargögn.
  • Nemendur geta haft með sér hressingu, en mælt er með ílátum í gegnsæjum umbúðum sem ekki skrjáfar í.
  • Kennurum er óheimilt er að gefa nemendum upp árangur þeirra á prófi áður en einkunnir eru birtar í INNU.

 

Frávik

Nemendur með fötlun, langtímasjúkdóma eða staðfesta námsörðugleika geta sótt um frávik frá hefðbundnu námsmati áfanga. Frávik getur falið í sérstök hjálpartæki á prófi (t.d. tölvur), sérhönnuð próf (leturgerðir og litir), aðstoð við skrift, munnleg próf í stað skriflegra, o.fl. Náms- og starfsráðgjafar meta umsóknir nemenda út frá umsögn sérfræðinga og ákveða hvaða leið er best til þess fallin að mæta þörfum nemenda. Hægt er að sækja um frávik á auglýstum tíma sem kemur fram á upplýsingaskjám skólans.

Endurtektarpróf

Útskriftarnemendur sem falla í einum áfanga eiga rétt á að endurtaka próf í viðkomandi áfanga. Nemandinn öðlast ekki endurtökuprófrétt fyrr en námsárangur liggur fyrir í öðrum áföngum og að árangur hafi verið fullnægjandi.

Í símatsáföngum/verklegum áföngum þar sem kemur fram í kennsluáætlun í upphafi annar að nemendur þurfa að skila ákveðinni raunmætingu og framlagi í kennslustundum er endurtökupróf ekki í boði.

Prófsýning

Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga. Prófasýningardagur er auglýstur í skólaalmanaki. Sé nemandi ósáttur við falleinkunn í tilteknum áfanga, getur hann farið fram á endurmat innan 5 virkra daga frá birtingu einkunna. Beiðni um endurmat með rökstuðningi skal skilað til aðstoðarskólameistara eða skólameistara í tölvupósti. Skólameistari kveður til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausn. Úrskurður prófdómara er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds. Í áföngum (t.d. í verk- eða munnlegum prófum) þar sem prófdómari og kennari gefa sameiginlega einkunn er ekki hægt að óska eftir endurmati. Þegar kærufrestur er liðinn og allri yfirferð prófúrlausna lokið eru þær settar í skjalageymslu til varðveislu.

Málsmeðferð og kæruleiðir

Við ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur nemenda skal eftir því sem við á gæta meginreglna stjórnsýsluréttar og góðra stjórnsýsluhátta.

Síðast uppfært: 06. september 2024