Um námsbraut fyrir sótthreinsitækna

Inntökuskilyrði

Skilyrði til innritunar í nám á braut fyrir sótthreinsitækna er að nemendur hafi lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla og náð tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla, ásamt því er gerð krafa um góða íslenskukunnáttu. Enn fremur er miðað við að nemendur hafi náð 18 ára aldri þegar þeir hefja vinnustaðanám á heilbrigðisstofnunum og hjá fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu.

Skipulag náms

Námið er 120 einingar samtals, þar af eru 33 einingar í almennum greinum, 27 einingar í almennum heilbrigðisgreinum, 35 einingar í sérgreinum sótthreinsitækna og 25 einingar í vinnustaðanámi.

Meðalnámstími er tvö ár, það er að segja 3 annir í skóla auk 15 vikna vinnustaðanáms á heilbrigðisstofnun eða hjá fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Vinnustaðanám tekur við að loknu námi í skóla. Námslok eru á 2. hæfniþrepi.Vinnustaðanám skiptist í 5 mismunandi staðsetningar þar sem unnið er með mismunandi verkfæri og tæki eftir sérgreinum, undir leiðsögn starfandi sótthreinsitæknis.

Unnið er eftir grundvallarreglum smitgátar, handþvotti og klæðnaði. Með þekkingu um að dauðhreinsaðar vörur notast við sjúklinga og er hluti af öryggi sjúklinga.

  1. Móttaka, í móttöku koma verkfæri og tæki í vögnum frá mismundandi stofnunum, deildum og fyrirtækjum. Ber ábyrgð á að vagnar séu þrifnir og tilbúnir til afgreiðslu
  2. Þvottur, s.s. verkfæri tekin í sundur og flokkuð, handþvottur, vélarþvottur, höggbylgjuþvottur, þurrkun og flokkun eftir sótthreinsunaraðferðum
  3. Eftirlit, smurning, samsetning, röðun, pökkun í foley, pappír, verkfæratínur eða viðeigandi dauðhreinsunarílát. Viðeigandi merkingar eftir dauðhreinsunaraðferðum. Val á réttri dauðhreinsunaraðferð
  4. Dauðhreinsun í háhita- eða lághitaofnum. Rétt áfylling, gæða- og öryggiseftirlit, skráning í logbækur dauðhreinsunarofna, þrif og annað eftirlit með ofnunum. Þekking á gæðum vatns og gufu, affalli og förgun frá dauðhreinsunarofnum
  5. Afgreiðsla, gæðaeftirlit með dauðhreinsuninni. Flokkun eftir stofnunum, deildum og fyrirtækjum, skráning einstakra hluta og færsla til bókhalds. Tryggir öryggi á flutningi dauðhreinsaðrar vara milli stofnana, deilda og fyrirtækja

Vinnustaðanámið fer fram á vinnustað sem viðkomandi skóli viðurkennir. Kennslustjóri brautar sækir um nemapláss í samráði við nemanda og skólinn gerir námssamning við vinnustaðinn fyrir hönd nemandans. Í samningnum er tilgreind lengd vinnutíma, gildistími samnings og skyldur nemanda, skóla og stofnunar. Í samningi skal einnig koma fram hvernig fara skuli með ágreining sem upp kann að koma. Hverjum nemanda skal fenginn leiðbeinandi sem skal vera reyndur sótthreinsitæknir á viðkomandi heilbrigðisstofnun eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.

Ferilbók fylgir hverjum nemanda í verknámi og er á ábyrgð nemanda og leiðbeinanda, hún er hluti af námsmati á brautinni.

Síðast uppfært: 04. september 2024