Foreldrafélag

Foreldrafélag FÁ

Foreldrafélag Fjölbrautaskólans við Ármúla var stofnað haustið 2008. Stjórn félagsins skipa fimm foreldrar/forráðamenn.

Samkvæmt lögum félagsins er boðað til Aðalfundar í september ár hvert og félagsmönnum ætlað að funda reglulega yfir skólaárið. Störf foreldrafélagsins lögðust niður í heimsfaraldrinum 2020 og hafa enn sem komið er ekki náð dampi aftur.

Foreldrafélög innan skóla sinna mikilvægu verkefni í að tengja heimili og skóla og rannsóknir sína að gott foreldrastarf hefur jákvæð áhrif á námsárangur nemenda.

Lög félagsins:

1. gr. Félagið heitir Foreldraráð Fjölbrautaskólans við Ármúla. Aðsetur þess er í Ármúla 12 108 Reykjavík.

2. gr. Tilgangur félagsins er að stuðla að auknum gæðum skólans og leitast við að bæta jafnframt almenn skilyrði og aðstæður einstakra nemenda til menntunar og almenns þroska. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því meðal annars að:

  • Stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
  • Vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna sem starfar í fullu samráði við stjórn Nemendafélags skólans.

  • Auka sýnileika og nánd foreldra/forráðamanna sem veiti yfirvöldum, skólastjórnendum, kennurum og nemendum stuðning í skólastarfinu.
  • Koma á, efla og tryggja gott samstarf foreldra/forráðamanna og starfsfólks skólans.
  • Hvetja til aukins stuðnings og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra.
  • Vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.
  • Standa vörð um réttindi nemenda til menntunar og farsæls þroska.

3. gr. Félagsmenn eru allir foreldrar og aðrir forráðamenn nemenda skólans.

4. gr. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda árlega á tímabilinu frá 1. til 30. september. Til fundarins skal boðað bréflega með a.m.k. 7 daga fyrirvara með dagskrá. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu.

  1. Dagskrá aðalfundar skal vera:
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla stjórnar um störf hennar og starfsemi félagsins.
  4. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða ársreikninga.
  5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning og afgreiðsla þeirra.
  6. Kosning í stjórn félagsins.
  7. Kosning endurskoðenda og varaendurskoðenda.
  8. Önnur mál.

Stjórn félagsins skipa fimm foreldrar/forráðamenn nemenda, sem kosnir eru til tveggja ára í senn, þrír stjórnarmenn annað hvert ár og tveir hitt árið. Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi og skipta þeir með sér öðrum verkum. Stjórn félagsins stýrir því í umboði aðalfundar í samræmi við samþykktir þess. Stjórnin skal halda gerðarbók þar sem bókuð eru öll mál sem tekin eru fyrir og allar ákvarðanir stjórnar. Einfaldur meirihluti stjórnarmanna ræður úrslitum. Stjórninni er heimilt að kalla til fulltrúa nemenda og starfsmanna skólans á fundi sína.

5. gr. Tekjur félagsins eru styrkir sem stjórn félagsins er heimilt að taka við frá opinberum aðilum og öðrum er styðja vilja félagið og starfsemi þess, svo og önnur fjáröflun. Reikningstímabil og fjárhagsár félagsins er frá 1. ágúst til 31. júlí ár hvert.

6. gr. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins.

Ákvæði til bráðabirgða:

Á stofnfundi félagsins sem samþykkir þessi lög, skal kosið til stjórnar samkvæmt þeim. Þá skulu kosnir þrír stjórnarmenn til tveggja ára og tveir til eins árs.

Síðast uppfært: 25. september 2024