Fréttir & tilkynningar

Vel heppnað fótboltamót FÁ á móti FB

08.11.2024
Nemendur í FÁ tóku þátt í stórskemmtilegu fótboltamóti sem skipulagt var af nemendaráðum FB og FÁ. Skólarnir tveir kepptu í flokkunum strákar, stelpur og stjórnir nemendafélaga. FÁ sigraði einn af þremur leikjum og þykir afar líklegt að nemendaráðin endurtaki leika á næsta ári. Um 170 nemendur mættu frá skólanum upp í íþróttahús Fjölbrautaskólans í Breiðholti og hvöttu liðið sitt áfram. FB hlaut farandbikarinn að þessu sinni en markmið nemenda í FÁ er að sjálfsögðu að ná honum til sín að ári liðnu. Við skólann eru fjölmargir sem bera af í fótbolta og nemendur eru strax farnir að æfa sig fyrir næsta mót. Stjórnir nemendafélagana eiga sannarlega hrós skilið fyrir þetta frábæra framtak!

Tanntækninemar með fræðslu í FVA

01.11.2024
Tanntækninemar í verknámi eru í áfanga sem heitir FOSA2FO04 sem gengur út á forvarnir og samskipti. Nemendur fjalla m.a. um hvernig skal huga að munnhirðu mismunandi hópa og kenna handbragð. Í þessum áfanga er mikið um þverfaglegt samstarf við sjúkraliðabrautir í okkar skóla ásamt öðrum skólum eins og FVA og FB, einnig er samstarf við öldrunarstofnanir, leikskóla og fleiri. Um daginn fóru tanntækninemarnir í heimsókn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og voru með fræðslu og kennslu fyrir nemendur þar.

Heimsókn til Tékklands

31.10.2024
Í byrjun árs 2022 fengum við í FÁ þrjá góða gesti frá Tékklandi. Þau komu frá skóla sem heitir því þjála nafni: Vyšší oborná škola zdravotnická, Střední zdravotnická škola a Obchodní akademie, Trutnov. Eftir heimsókn þeirra var ákveðið að sækja um Erasmus+ verkefni, sem var samþykkt. Verkefnið heitir Comparing Differences in Healthcare in Europe. Nýlega fóru tveir kennarar og fimm nemendur í heimsókn til Portúgal vegna verkefnisins. Núna í október fóru Kristrún aðstoðarskólameistari ásamt Eddu Láru umsjónarmanni erlendra samskipta að heimsækja tékkneska skólann, með langa nafninu. Það var tekið vel á móti þeim og íslenski fáninn blakti fyrir ofan aðalinnganginn. Í skólanum er stór heilbrigðisbraut alveg eins og hér í FÁ. Nýjasti partur skólans er aðeins tveggja ára gamall og sáu kennarar sjálfir um að hanna og standsetja allar skólastofurnar og þar sem hjúkrun er kennd eru þrjár skólastofur, hver þeirra er með sitt litaþema, bleikt, grátt og blágrænn. Í skólanum er líka nuddbraut og þar voru þau búin að útbúa mjög fínar kennslustofur fyrir nuddkennslu, ásamt æfingarnuddstofu þar sem tekið var á móti ‚viðskiptavinum‘. Skólameistarinn er áhugasamur um býflugur og eru fjögur býflugnabú í garði skólans sem framleiða hunang sem við fengum að smakka. Virkilega skemmtileg og áhugaverð heimsókn.

Nemar í fjölmiðlafræði í heimsókn á RÚV

30.10.2024
Nemendur í fjölmiðlafræði í FÁ kíktu í skemmtilega heimsókn á RÚV um daginn. Þar fræddust þau um starfsemina og fengu að skoða húsnæðið og meðal annars búningageymsluna. Þar fundu þau fullt af skrautlegum jökkum getur Magnús skólameistari getur sent jakkana sína þangað ef að hann þarf að létta á skápunum sínum. Takk fyrir okkur RÚV.