Fjölbrautaskólinn við Ármúla er sameiginlegur vinnustaður okkar allra. Við erum ólík að mörgu leyti en eigum það þó sameiginlegt að vilja að öllum líði vel í skólanum þar sem við verjum stórum hluta sólarhringsins. Við erum öll fyrirmyndir og berum þannig ábyrgð á að skapa gott umhverfi fyrir menntun og vellíðan. Skólabragurinn sem hér ríkir og ímynd skólans veltur því á athöfnum og viðhorfum okkar sjálfra. Markmið skólareglna er að standa vörð um hin sameiginlegu gildi okkar.
Málsmeðferðareglur vegna brota á skólareglum
Viðurlög við brotum á skólareglum eru háð ákvörðunum skólayfirvalda/kennara í hverju tilviki og geta varðað allt að brottvísun úr skóla.
Áður en ákvörðun er tekin um brottvísun er nemanda/foreldri/forráðamanni gefin kostur á að kynna sér gögn sem liggja til grundvallar fyrirhugaðari ákvörðun og koma á framfæri athugasemdum og andmælum, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.
Hegðun og umgengni
Ástundun og hegðun í kennslustundum
- Nemendum og kennurum ber að mæta stundvíslega í kennslustundir.
- Kennari er verkstjóri í kennslustundum og ber nemendum að fylgja fyrirmælum hans í hvívetna.
- Í kennslustundum skal ríkja vinnufriður.
- Neysla matar og drykkja er almennt óheimil í kennslustundum.
- Notkun raftækja (t.d. snjallsíma, spjaldtölva, eða annarra tækja) í kennslustundum er óheimil nema í tengslum við úrvinnslu verkefna í samráði við kennara.
- Allar upptökur (með snjallsíma, spjaldtölvu, eða öðrum tækjum) af kennurum eða samnemendum eru stranglega bannaðar nema með leyfi viðkomandi.
- Að loknum kennslustundum skal skilja við kennslustofur á skipulegan og snyrtilegan hátt.
Viðurlög við brotum á þessum reglum eru háð ákvörðunum skólayfirvalda/kennara í hverju tilviki og geta varðað allt að brottvísun úr skóla.
Áður en ákvörðun er tekin um brottvísun er nemanda/foreldri/forráðamanni gefin kostur á að kynna sér gögn sem liggja til grundvallar fyrirhugaðri ákvörðun og koma á framfæri athugasemdum og andmælum, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.
Siðareglur
Nemendur, kennarar og starfsfólk
- standa vörð um heiður og orðspor skólans
- sýna öllu samferðafólki virðingu í hvívetna.
- Hafa réttlæti, heiðarleika og umburðarlyndi að leiðarljósi.
- leitast við að skapa aðstæður sem stuðla að öryggi og vellíðan.
- leitast við að skapa umhverfi þar sem allir fá tækifæri til að tjá skoðanir sínar og þroska hæfileika sína.
- leggja jafnrétti til grundvallar í öllum samskiptum.
- gæta þagmælsku um málefni nemenda og forráðamanna.
Kennarar hafa enn fremur að leiðarljósi siðareglur kennara sem Kennarasamband Íslands hefur gefið út. Smelltu hér til að skoða siðareglur kennara.
Skólinn fer með persónulegar upplýsingar um nemendur í samræmi við ákvæði laga nr.121/189 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og ákvæði upplýsingalaga nr.59/1996.
Skemmtanir og ferðalög
Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla er rekið öflugt félagslíf og lögð er mikil áhersla á að nemendur séu skólanum til sóma í hvívetna.
Um ferðalög
- Öll ferðalög á vegum skólans með nemendur eru á ábyrgð skólameistara.
- Fararstjórn skal skipuð og í henni eru starfsmenn sem fara í ferðina og fulltrúar nemenda. Farastjórnin fer yfir dagskrá ferðarinnar og samþykkir hana. Reikna skal með einum starfsmanni fyrir hverja tuttugu nemendur eða byrjaða tuttugu.
- Í ferðalögum á vegum skólans gilda sömu umgengnis- og hegðunarreglur og í skólanum sjálfum. Einnig sömu viðurlög og við brotum á reglum skólans.
- Ferðir með nemendur eru einungis auglýstar í skólanum og eru aðeins fyrir nemendur hans.
- Meðferð áfengis og annarra vímuefna er bönnuð í ferðum á vegum skólans. Um tóbak gilda reglur skólans, landslög og reglur á hverjum stað.
- Brjóti nemandi reglur í ferðalagi á vegum skólans skal foreldri/forráðamanni boðið að sækja hann eða farastjórn sendir hann heim á kostnað foreldra/forráðamanna. Ef nemandi veldur skemmdum er hann bótaskyldur.
Um skemmtanir
- Allar skemmtanir á vegum skólans eru á ábyrgð skólameistara.
- Á skemmtunum gilda sömu umgengnis- og hegðunarreglur og í skólanum sjálfum. Einnig sömu viðurlög við brotum á reglum skólans.Ef nemandi veldur skemmdum er hann bótaskyldur.
- Meðferð áfengis, tóbaks og annarra vímuefna eru bönnuð.
- Sé nemandi grunaður um ölvun getur hann afsannað það með því að blása í áfengismæli. Ef ölvun mælist eða nemandinn neitar að blása er honum meinaður aðgangur og foreldrar/forráðamenn beðnir um að sækja viðkomandi sé hann undir 18 ára aldri.
Skólasókn og námsárangur
Skólinn lítur á nám sem hverja aðra vinnu. Reglur um skólasókn eru skýrar og eftir þeim ber nemendum að fara. Skólinn víkur ekki nemanda úr námi vegna fjarvista fyrr en í lengstu lög og hlýðir á málsbætur ef einhverjar eru. Reglur víkja nemendum aldrei úr námi með sjálfvirkum hætti en taki brotlegur nemandi ekki tiltali skulu skólasóknarreglur gilda til hlítar.
Nemendur í dagskóla þurfa að ná að lágmarki 15 einingum á önn. Nemendur sem uppfylla ekki kröfur um námsárangur og skólasókn er vísað úr skóla. Nemendur fá tækifæri að nýta sér andmælarétt áður en lokaákvörðun er tekin um hvort nemandi fái skólavist. Fái nemandi skólavist er hann settur á biðlista en þar eru nemendur sem fá annað tækifæri til að sanna sig í námi.
Notkunar- og siðareglur um meðferð upplýsingatæknibúnaðar
Reglur eiga ekki að vera til trafala eða hindrunar við eðlilega notkun búnaðar. Reglur eru aðgengilegar á áberandi stað og fylgst er með því að þær séu í heiðri hafðar. Leitast er við að framfylgja ýtrustu kröfum um öryggi í tölvuvinnslu á hverjum tíma.
Virða ber eftirtaldar almennar reglur:
- Tölvu- og tæknibúnað ber að nota á heiðarlegan, siðferðilega réttan og löglegan hátt.
- Virða ber friðhelgi notenda. Óheimilt er að reyna að tengjast tölvubúnaði með því að gefa upp notendanafn/aðgangsorð sem viðkomandi hefur ekki rétt til að nota. Bannað er að gera tilraunir til að komast yfir aðgangsorð hjá öðrum notendum. Notanda er óheimilt að veita öðrum aðgang að notendanafni.
- Fara ber í einu og öllu eftir einkaréttarákvæðum sem gilda um forrit, hugbúnað og gögn sem notuð eru.
- Virða ber reglur einstakra neta og upplýsingaveitna.
- Óheimilt er að reyna að komast yfir gögn eða hugbúnað í eigu annarra nema skýrt leyfi rétthafa sé fyrir hendi. Bannað er að breyta eða reyna að breyta hugbúnaði eða gögnum hjá öðrum notendum eða hafa á annan hátt áhrif á notkunarmöguleika annarra notenda.
- Óheimilt er að breyta, afrita eða fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða gögn sem eru í eigu annarra nema með skýru leyfi eigenda.
- Óheimilt er að dreifa efni sem talist getur ærumeiðandi eða ósiðlegt.
- Óheimilt er að taka upp og/eða birta upptökur eða ljósmyndir úr kennslustund án leyfis nemenda og kennara.
- Verði vart við brot á reglum skal máli viðkomandi vísað til skólastjórnenda.