Erlent samstarf - fréttir

17.01.2025

Skólaheimsókn til Lycée Félix Le Dantec í Frakklandi

Dagana 6.-11. nóvember tók Fjölbrautarskólanum við Ármúla tók þátt í Erasmus verkefninu Second life í Lannion Frakklandi. Verkefnið er samstarfsverkefni, fjögurra skóla, en auk kennara og nemenda frá FÁ tóku þátt nemendur og kennarar frá Frakklandi, Þýskalandi og Portúgal. Þátttakendur frá FÁ voru kennararnir Þórhallur Halldórsson og Ásdís Þórðardóttir auk fimm úrvalsnemenda af Nýsköpunar- og Listabraut. Nemendur útbjuggu í sameiningu kynningu um sjálfbærni, skólann okkar og Reykjavík og útbjuggu hlut sem þau gáfu nýtt líf og kynntu. Gestgjafinn, franski skólinn Lycée Félix Le Dantec, er staðsettur í bænum Lannion er tilheyrir héraðinu Bretagne, skaga sem teygir sig út í Atlandshafið. Strandlengja Bretagne er 1200 kílómetralöng og um hana fara gríðarlega miklar siglingar og mikið náttúrulíf sem er mikilvægt fyrir vistkerfi heimsins og er viðkvæmt fyrir umhverfisslysum og loftslagsbreytingum. Farið var í vettvangsferðir um fallegar strandlengjur og skilningur nemenda dýpkaður á viðkvæmni hringrásar vistkerfisins. Auk vettvangsferða og margvíslegra vinnusmiðja þar sem unnið var þvert á þjóðerni heimsóttum við öfluga endurvinnslu sem sinnir rúmlega 200.0000 manna samfélagi. Dagskráin var almennt mjög þétt alla daga. Vinnusmiðjur, málstofur og kynningar og nemendur settu upp stutta leikþætti fyrir hvern annan. Auk alls þessa gistu nemendur á heimilum franskra nemenda og kynntust í leiðinni fjölbreyttri franskri heimilismenningu. Nemendur voru á allan hátt til sóma í framkomu og þátttöku í verkefninu.
26.11.2024

Sjúkraliðanemar í heimsókn til Portúgal

Kennararnir Edda Ýr Þórsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir fóru með 5 frábæra sjúkraliðanemendur til Portúgal í október. Ferðin hófst í Lissabon þar sem gist var á afar heimilislegu gistiheimili með villiköttum og páfagaukum. Eftir tvo daga í Lissabon var ferðinni heitið til Portó þar sem þær hittu sjúkraliðanemendur frá Portúgal og Tékklandi. Fengu þær mjög góðar móttökur frá kennurum og nemendum í Portúgal. Heimsóttu skólann þeirra í Penacova og fengu að sjá þeirra aðstæður við nám, meðal annars verklega hjúkrun. Nemendur voru með sýnikennslu í hvernig gott er að flytja sjúklinga úr rúmi í stól. Einnig var sýnd fjötranotkun hjá sjúklingum með órólega eða ógnandi hegðun. Nemendur Portúgal á veitinga og matreiðslusviði skólans matreiddu svo fyrir hópinn fínasta mat 😊 Einnig var endurhæfingarsjúkrahús upp í sveit 30 mín frá Portó heimsótt en ekki var hægt að sjá starfsemina í fullu fjöri þar sem sólarhringana á undan höfðu verið miklar rigningar sem ollu leka og vanda í húsnæði sjúkrahúsins þannig fáir skjólstæðingar gátu mætt þann daginn. Þó fengu þær að sjá aðstöðu sjúkraþjálfara og hápunktur þessarar heimsóknar var þátttaka og kennsla í hjólastólahandbolta undir handleiðslu sjúkraþjálfara og landliðsmanni í hjólastólahandbolta sem Portúgalir eru framarlega í. Heimsókn á eitt stærsta sjúkrahús Evrópu var svo síðasta daginn þar sem heimsóttar voru tvær geðdeildir sem var afar áhugavert. Nemendur okkar ásamt nemendum frá Tékklandi og Portúgal voru svo með kynningar á hlutverki sjúkraliða í lyfjagjöfum og vökvagjöf sjúklinga. Frábær ferð í alla staði!
31.10.2024

Heimsókn til Tékklands

Í byrjun árs 2022 fengum við í FÁ þrjá góða gesti frá Tékklandi. Þau komu frá skóla sem heitir því þjála nafni: Vyšší oborná škola zdravotnická, Střední zdravotnická škola a Obchodní akademie, Trutnov. Eftir heimsókn þeirra var ákveðið að sækja um Erasmus+ verkefni, sem var samþykkt. Verkefnið heitir Comparing Differences in Healthcare in Europe. Nýlega fóru tveir kennarar og fimm nemendur í heimsókn til Portúgal vegna verkefnisins. Núna í október fóru Kristrún aðstoðarskólameistari ásamt Eddu Láru umsjónarmanni erlendra samskipta að heimsækja tékkneska skólann, með langa nafninu. Það var tekið vel á móti þeim og íslenski fáninn blakti fyrir ofan aðalinnganginn. Í skólanum er stór heilbrigðisbraut alveg eins og hér í FÁ. Nýjasti partur skólans er aðeins tveggja ára gamall og sáu kennarar sjálfir um að hanna og standsetja allar skólastofurnar og þar sem hjúkrun er kennd eru þrjár skólastofur, hver þeirra er með sitt litaþema, bleikt, grátt og blágrænn. Í skólanum er líka nuddbraut og þar voru þau búin að útbúa mjög fínar kennslustofur fyrir nuddkennslu, ásamt æfingarnuddstofu þar sem tekið var á móti ‚viðskiptavinum‘. Skólameistarinn er áhugasamur um býflugur og eru fjögur býflugnabú í garði skólans sem framleiða hunang sem við fengum að smakka. Virkilega skemmtileg og áhugaverð heimsókn.
15.10.2024

Franskir gestir í heimsókn í FÁ

Í september fengum við góða gesti frá Frakklandi í heimsókn í FÁ. Þau Katell Perrot og Colette Masson-Gauthier, kennarar í ensku, landafræði og jarðfræði, komu ásamt 18 nemendum frá Fougères, Frakklandi. Þau fengu að heimsækja kennslustundir, fræðast um FÁ og um náttúru Íslands. Þau gerðu skemmtilegt myndband um ferðina sem má sjá með þessari frétt.
05.06.2024

Skólaheimsókn til Portúgal

 Þann 26. maí hélt 60 manna hópur kennara og starfsmanna í FÁ til Portúgal. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér starfið í tveim skólum í borginni Braga, Oficina og Agrupamento de escolas Sá De Miranda. Tveir ólíkir en flottir skólar sem gaman var að heimsækja. Sérstaka athygli vakti að portúgalskir nemendur eru alla jafna í skólanum frá átta á morgnana og til sex á kvöldin og fara þá í tómstundastarf. Ekki mikill tími sem fjölskyldurnar fá saman þarna í Portúgal. Seinni hlutann af ferðinni hélt hópurinn svo til Portó. Þar var margt skemmtilegt að skoða, falleg borg með mikla sögu. Hér má sjá heimasíður skólanna: Oficina   Agrupamento de escolas Sá De Miranda  

Eldri verkefni

29. 4. 2024 - A Green Day verkefnið

25.4. 2023 - GAIA - Erasmus+ verkefni

25.4.2023 - Heimsókn til Frakklands

 13.9.2022 - Heimsókn frá Frakklandi

2.6.2002 - Skólaheimsókn til Toronto 

Síðast uppfært: 15. janúar 2025