Fréttir & tilkynningar

Tanntækninemar með fræðslu í FVA

01.11.2024
Tanntækninemar í verknámi eru í áfanga sem heitir FOSA2FO04 sem gengur út á forvarnir og samskipti. Nemendur fjalla m.a. um hvernig skal huga að munnhirðu mismunandi hópa og kenna handbragð. Í þessum áfanga er mikið um þverfaglegt samstarf við sjúkraliðabrautir í okkar skóla ásamt öðrum skólum eins og FVA og FB, einnig er samstarf við öldrunarstofnanir, leikskóla og fleiri. Um daginn fóru tanntækninemarnir í heimsókn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og voru með fræðslu og kennslu fyrir nemendur þar.

Heimsókn til Tékklands

31.10.2024
Í byrjun árs 2022 fengum við í FÁ þrjá góða gesti frá Tékklandi. Þau komu frá skóla sem heitir því þjála nafni: Vyšší oborná škola zdravotnická, Střední zdravotnická škola a Obchodní akademie, Trutnov. Eftir heimsókn þeirra var ákveðið að sækja um Erasmus+ verkefni, sem var samþykkt. Verkefnið heitir Comparing Differences in Healthcare in Europe. Nýlega fóru tveir kennarar og fimm nemendur í heimsókn til Portúgal vegna verkefnisins. Núna í október fóru Kristrún aðstoðarskólameistari ásamt Eddu Láru umsjónarmanni erlendra samskipta að heimsækja tékkneska skólann, með langa nafninu. Það var tekið vel á móti þeim og íslenski fáninn blakti fyrir ofan aðalinnganginn. Í skólanum er stór heilbrigðisbraut alveg eins og hér í FÁ. Nýjasti partur skólans er aðeins tveggja ára gamall og sáu kennarar sjálfir um að hanna og standsetja allar skólastofurnar og þar sem hjúkrun er kennd eru þrjár skólastofur, hver þeirra er með sitt litaþema, bleikt, grátt og blágrænn. Í skólanum er líka nuddbraut og þar voru þau búin að útbúa mjög fínar kennslustofur fyrir nuddkennslu, ásamt æfingarnuddstofu þar sem tekið var á móti ‚viðskiptavinum‘. Skólameistarinn er áhugasamur um býflugur og eru fjögur býflugnabú í garði skólans sem framleiða hunang sem við fengum að smakka. Virkilega skemmtileg og áhugaverð heimsókn.

Nemar í fjölmiðlafræði í heimsókn á RÚV

30.10.2024
Nemendur í fjölmiðlafræði í FÁ kíktu í skemmtilega heimsókn á RÚV um daginn. Þar fræddust þau um starfsemina og fengu að skoða húsnæðið og meðal annars búningageymsluna. Þar fundu þau fullt af skrautlegum jökkum getur Magnús skólameistari getur sent jakkana sína þangað ef að hann þarf að létta á skápunum sínum. Takk fyrir okkur RÚV.

Fræddi nemendur um tölvuleikjagerð

24.10.2024
Magnús Friðrik Guðrúnarson frá tölvuleikjafyrirtækinu Myrkur Games kom í heimsókn í Fjölbrautaskólann við Ármúla á dögunum og hitti nemendur í tölvuleikjaáföngum skólans. Undanfarin ár hefur Myrkur Games unnið að gerð Echoes of the End, sem er nýr hasar-ævintýraleikur sem gerist í nýjum fantasíuheimi. Hátækni hreyfirakningar- og ljósmyndaskönnunartækni er notuð við gerð leiksins þar sem hreyfingar leikara eru yfirfærðar á persónur í tölvuleiknum. Magnús fór um víðan völl í erindi sínu, kynnti fyrirtækið, ræddi um mikilvægi nýsköpunar og hugvits fyrir atvinnulífið og íslenskt samfélag, benti á fjölbreytta atvinnumöguleika innan tölvuleikjageirans ásamt því að svara fjölmörgum spurningum frá nemendum. Þess má geta að þá er Magnús Friðrik fyrrum nemandi FÁ. Árið 2017 flutti hann kveðjuávarp fyrir hönd nýstúdenta og hafði margt jákvætt að segja um skólann: „Ég er í FÁ í skóla þar sem mín saga er bara eitt dæmi af mörgum, skóla sem hvetur mig og sýnir mér það sem ég leitaði að fyrir mörgum árum, skilningi. FÁ gaf mér tækifæri til að vera ég sjálfur, tækifæri til að njóta námsins á mínum eigin forsendum.“ er meðal þess sem Magnús sagði í sinni góðu og uppörvandi ræðu. Hægt er að lesa nánar um Myrkur Games og Echoes of the End á Myrkur.is. Nemendur sem hafa áhuga á tölvuleikjum er bent á að kynna sér úrval tölvuleikjaáfanga sem í boði eru, meðal annars má nefna áfangana leikjahönnun, yndisspilun og rafíþróttir.