24.10.2024
Magnús Friðrik Guðrúnarson frá tölvuleikjafyrirtækinu Myrkur Games kom í heimsókn í Fjölbrautaskólann við Ármúla á dögunum og hitti nemendur í tölvuleikjaáföngum skólans. Undanfarin ár hefur Myrkur Games unnið að gerð Echoes of the End, sem er nýr hasar-ævintýraleikur sem gerist í nýjum fantasíuheimi. Hátækni hreyfirakningar- og ljósmyndaskönnunartækni er notuð við gerð leiksins þar sem hreyfingar leikara eru yfirfærðar á persónur í tölvuleiknum. Magnús fór um víðan völl í erindi sínu, kynnti fyrirtækið, ræddi um mikilvægi nýsköpunar og hugvits fyrir atvinnulífið og íslenskt samfélag, benti á fjölbreytta atvinnumöguleika innan tölvuleikjageirans ásamt því að svara fjölmörgum spurningum frá nemendum.
Þess má geta að þá er Magnús Friðrik fyrrum nemandi FÁ. Árið 2017 flutti hann kveðjuávarp fyrir hönd nýstúdenta og hafði margt jákvætt að segja um skólann: „Ég er í FÁ í skóla þar sem mín saga er bara eitt dæmi af mörgum, skóla sem hvetur mig og sýnir mér það sem ég leitaði að fyrir mörgum árum, skilningi. FÁ gaf mér tækifæri til að vera ég sjálfur, tækifæri til að njóta námsins á mínum eigin forsendum.“ er meðal þess sem Magnús sagði í sinni góðu og uppörvandi ræðu.
Hægt er að lesa nánar um Myrkur Games og Echoes of the End á Myrkur.is.
Nemendur sem hafa áhuga á tölvuleikjum er bent á að kynna sér úrval tölvuleikjaáfanga sem í boði eru, meðal annars má nefna áfangana leikjahönnun, yndisspilun og rafíþróttir.