14.12.2024
Í dag var hátíð í FÁ þegar skólinn útskrifaði 72 nemendur og þar af 7 af tveimur brautum. Hátíðleikinn var allt umlykjandi og gleðin skein úr andlitum nýstúdenta og gesta en útskriftin fór fram í hátíðarsal skólans.
59 nemendur útskrifuðust sem stúdentar og frá nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust 4 nemendur. 12 útskrifuðust af félagsfræðibraut, 1 af íþrótta og heilbrigðisbraut og 6 af náttúrufræðibraut. Af opinni braut útskrifuðust 25 og loks 15 með viðbótarnám til stúdentsprófs.
Af heilbrigðissviði útskrifuðust 16 nemendur, 1 útskrifast af heilbrigðisritarabraut, 1 af lyfjatæknabraut, 5 af heilsunuddbraut og loks 9 af sjúkraliðabraut.
12.12.2024
Nemendur í Leikjahönnun (TÖHÖ2LH05) þróuðu sína eigin leikjahugmyndir og bjuggu til frumgerðir út frá þeim. Útkoman var skemmtilega fjölbreytt, þar má meðal annars nefna zombíleik sem gerist á Íslandi, kósíleik þar sem markmiðið er að finna týnda ketti og geimskotleik sem endar með bardaga við vígalegan endakall.
10.12.2024
Nemendur á sérnámsbraut eru komnir í jólafrí eins og aðrir nemendur FÁ. Þar er jólaandinn búin að svífa yfir undanfarið. Þau eru búin að skreyta piparkökur, fara í bingó og svo var jólagleði síðasta dag fyrir jólafrí þar sem jólasveinninn kíkti í heimsókn við mikið fögnuð viðstaddra.
02.12.2024
Litlu jól framhaldsskólanna fóru fram í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fimmtudaginn 28. nóvember en viðburðurinn var haldinn af FÁ, Tækniskólanum og MS. Fjölmargir framhaldsskólanemar mættu á Litlu jólin og sló loftslagsvæna kakóið algjörlega í gegn hjá nemendum. Tilgangur viðburðarins var að fræða nemendur um loftslagsmál með skemmtilegum hætti. Hringrásarhagkerfið var allsráðandi á viðburðinum og hver einasta smiðja úthugsuð frá umhverfissjónarmiði. Viðburðurinn gekk afskaplega vel og söfnuðust 37 þúsund krónur til styrktar Barnaheilla.
27.11.2024
Lýðræðisvika var haldin í skólanum vikuna, 19. - 21. nóvember og fóru þá fram Skuggakosningar. Skuggakosningar eru kosningar þar sem framhaldsskólanemar kjósa sína fulltrúa á Alþingi og munu endurspegla vilja nemenda um allt land. Frambjóðendur 11 stjórnmálaflokka komu í heimsókn í skólann, kynntu málefni sín og sátu fyrir svörum. Nemendur í heimspeki og félagsfræði kenninga sáu um skipulag og stjórnun fundarins og fór hann mjög vel fram. Nemendur komu með frábærar spurningar og voru vel undirbúin. Skuggakosningarnar sjálfar fóru svo fram á Steypunni, fimmtudaginn 21. nóvember, en nemendur sem voru fæddir 26. september 2003 og síðar voru á kjörskrá. Alls kusu 195 nemendur í kosningunum, en það er um 29% þeirra sem voru á kjörskrá. Vonandi verður kosningaþátttaka ungs fólks heldur meiri í Alþingiskosningunum núna um helgina og við óskum nýjum kjósendum til hamingju með kosningaréttinn.
26.11.2024
Kennararnir Edda Ýr Þórsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir fóru með 5 frábæra sjúkraliðanemendur til Portúgal í október.
Ferðin hófst í Lissabon þar sem gist var á afar heimilislegu gistiheimili með villiköttum og páfagaukum. Eftir tvo daga í Lissabon var ferðinni heitið til Portó þar sem þær hittu sjúkraliðanemendur frá Portúgal og Tékklandi.
Fengu þær mjög góðar móttökur frá kennurum og nemendum í Portúgal. Heimsóttu skólann þeirra í Penacova og fengu að sjá þeirra aðstæður við nám, meðal annars verklega hjúkrun. Nemendur voru með sýnikennslu í hvernig gott er að flytja sjúklinga úr rúmi í stól. Einnig var sýnd fjötranotkun hjá sjúklingum með órólega eða ógnandi hegðun.
Nemendur Portúgal á veitinga og matreiðslusviði skólans matreiddu svo fyrir hópinn fínasta mat 😊
Einnig var endurhæfingarsjúkrahús upp í sveit 30 mín frá Portó heimsótt en ekki var hægt að sjá starfsemina í fullu fjöri þar sem sólarhringana á undan höfðu verið miklar rigningar sem ollu leka og vanda í húsnæði sjúkrahúsins þannig fáir skjólstæðingar gátu mætt þann daginn. Þó fengu þær að sjá aðstöðu sjúkraþjálfara og hápunktur þessarar heimsóknar var þátttaka og kennsla í hjólastólahandbolta undir handleiðslu sjúkraþjálfara og landliðsmanni í hjólastólahandbolta sem Portúgalir eru framarlega í.
Heimsókn á eitt stærsta sjúkrahús Evrópu var svo síðasta daginn þar sem heimsóttar voru tvær geðdeildir sem var afar áhugavert.
Nemendur okkar ásamt nemendum frá Tékklandi og Portúgal voru svo með kynningar á hlutverki sjúkraliða í lyfjagjöfum og vökvagjöf sjúklinga.
Frábær ferð í alla staði!
25.11.2024
Umhverfisráð FÁ fékk á önninni 500 þúsund króna styrk til að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda umhverfisviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar FÁ í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund.
Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja viðburðinn saman og hafa tekið ákvörðun um að halda jólaviðburð þar sem umhverfismálin eru í brennidepli í öllu skipulaginu. Viðburðurinn verður haldinn þann 28. nóvember næstkomandi í FÁ og er opinn öllum framhaldsskólanemum, þvert á skóla.
Frábært að mæta og komast í gott jólaskap, gæða sér á kakói, hlusta á jólatónlist, styrkja góðgerðamál, föndra, næla sér í jólafötin á fataskiptimarkaði og eiga góða samverustund með vinum!
Öllum nemendum og ungmennum á framhaldsskólaaldri er boðið að koma í Fjölbrautaskólann við Ármúla á milli 14-16 þann 28. nóvember og eiga frábæra stund á Litlu jólum framhaldsskólanna!
Hægt verður að koma ókeypis með Hopp hlaupahjóli á staðinn, en sérstakur lendingarpuntkur verður settur fyrir framan skólann.
Láttu sjá þig á litlu - en risastóru jólum framhaldsskólanna! 🙂
19.11.2024
Í þessari viku er lýðræðisvika og þá fara fram Skuggakosningar í framhaldsskólum landsins og að sjálfsögðu tökum við í FÁ þátt.
Á morgun miðvikudaginn 20. nóvember verða umræður í fyrirlestrarsal með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til alþingiskosninga 30. nóv. Umræðurnar byrja kl. 11:30 og standa til kl. 12:30. Markmiðið er að skapa stemningu og fylla salinn. Spurningar frá nemendum velkomnar.
Fimmtudaginn 21. nóvember verða Skuggakosningarnar sjálfar á Steypunni frá kl. 9:00 - 14:10.
Á kjörskrá eru: „nemendur (í dagskóla) sem fæddir eru 26. september 2003 og síðar (þeir sem ekki höfðu náð kosningaaldri í alþingiskosningunum 25. september 2021).“ Með öðrum orðum elsti kjósandi á kjörskrá varð 21 árs 26. september sl. Hann og ALLIR yngri hafa kosningarétt. Öll eru hvött til að kjósa!
18.11.2024
Hér kemur nýjasta fréttabréf FÁ fyrir nóvember og desember. Fjölbreytt efni að vanda, farið er yfir það helsta sem er á döfinni og hvað við erum búin að gera í skólanum undanfarnar vikur. Næsta fréttabréf kemur út í byrjun næstu annar.
12.11.2024
Starfsfólk CCP tók vel á móti nemendum Fjölbrautaskólans við Ármúla í áfanganum Leikjahönnun (TÖHÖ2LH05). Nemendur fengu kynningu á fyrirtækinu, tölvuleikjum þess og starfsmöguleikum innan tölvuleikjageirans. CCP er stærsta tölvuleikjafyrirtækið á Íslandi með yfir 400 starfsmenn í fjölbreyttum störfum á Íslandi, Bretlandi og í Kína. Fjölspilunarleikurinn EVE Online er stærsti leikurinn þeirra en nýverið gaf fyrirtækið út símaleikinn EVE Galaxy Conquest og er með fleiri leiki í bígerð.