11.03.2025
Nemendur í umhverfisráði skólans fóru í heimsókn í Mannréttindahúsið og kynntust þeirri starfsemi sem þar er. Mannréttindahúsið sameinar fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum. Þar er að finna t.d. KVAN, ÖBÍ réttindasamtök, UN Women á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna.
Með í ferðinni voru nemendur frá nágrannaskólanum okkar, Menntaskólanum við Sund. Mikið og gott samstarf hefur verið á milli skólanna tveggja í starfi umhverfisráðanna.
Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um Mannréttindahúsið og eiga gott samtal við Pétur Hjörvar, tengilið UNESCO skólanna á Íslandi á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna. Hópurinn ræddi um mikilvægi jökla á Íslandi og sótti um styrk á vegum loftslagssjóðs Reykjavíkurborgar sem styður við vitundavakningu á loftslagsbreytingum meðal ungs fólks. Styrkumsóknin ber heitið „Draumurinn um jökul“ og ef styrkurinn fæst verður farið í jöklaferð með það fyrir augum að taka upp og miðla fræðslumyndbandi um jökla meðal ungmenna á Íslandi.
07.03.2025
FÁ tók þátt í æsispennandi undanúrslitum í spurningakeppninni Gettu betur í gærkvöldi. Liðið stóð sig mjög vel en varð því miður að sætta sig við tap gegn liði MA, 28-16. Við óskum MA-ingum hjartanlega til hamingju og góðs gengis í úrslitunum.
Þrátt fyrir tap erum við óendanlega stolt af frammistöðu Iðunnar, Halldórs og Dags, þið voruð frábær - takk takk :)
06.03.2025
Rafíþróttalið FÁ sigraði Fjölbrautaskóla Snæfellinga með sannfærandi 3-0 sigri í FRÍS í gær. FÁ vann alla þrjá leikina sem keppt var í (Rocket League, Counter-Strike 2 og Fortnite) og skólinn er þar með kominn áfram í undanúrslit. Næsti leikur FÁ verður gegn Tækniskólanum eða Fjölbrautaskóla Suðurlands miðvikudaginn 2. apríl kl. 19:00. Hægt verður að horfa á leikina í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og Twitch-rás Rafíþróttasambands Íslands.
Viltu vita hvernig þessir tölvuleikir virka í einfölduðu máli eða kynnast rafíþróttaliði FÁ? Nemendur í áfanganum Yndisspilun (TÖLL2YS05) settu saman heimasíðu þar sem áhugasamir geta kynnt sér efnið betur: http://sites.google.com/view/fris25
03.03.2025
Á fimmtudaginn síðasta, 27. febrúar fór Söngkeppni FÁ fram á Árdegi skólans. Hinn frábæri og skemmtilegi Elvis eftirherma var kynnir í keppninni og tók eitt lag við góðar undirtektir. Hin sívinsæla starfsmannahljómsveit, ÚFF tók svo 3 lög, ekki margir skólar sem geta státað af svona flottri hljómsveit starfsmanna.
Sex flott atriði tóku þátt og það má sanni segja að það sé mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki í skólanum okkar. Öll atriðin voru frábær en úrslitin urðu þau að Katrín Edda lenti í þriðja sæti með lagið My way með Frank Sinatra. Rafael Róbert var í öðru sæti með lagið Thank you með Led Zeppelin. Í fyrsta sæti var svo hún Arney með lagið Bad Romance með Lady Gaga. Aldeilis frábær flutningur, bæði söngur og framkoma. Arney mun því taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna seinna á þessari önn.
Hjartanlega til hamingju Arney.
02.03.2025
Á fimmtudaginn 27. febrúar var Árdagur í FÁ, skemmtilegasti dagur ársins. Árdagar eiga sér langa sögu í FÁ en þá daga gera nemendur og starfsmenn sér dagamun og brjóta upp hefðbundinn skóladag.
Nemendur skiptu sér í rúmlega 20 lið, hvert lið merkt ákveðnum lit eða mynstri. Liðin kepptu síðan sín á milli í fjölbreyttum þrautum sem starfsfólk var búið að undirbúa. Þrautirnar spönnuðu allt frá íþróttum til lista, heilaleikfimi til handavinnu, karókísöngs til spurningakeppna. Þessum skemmtilega degi lauk svo á söngkeppni og pizzaveislu.
Það var Dökkbláa liðið sem vann keppnina eftir harða baráttu við það ljósbláa. Stóðu þau sig vel í þrautunum og voru þau dugleg að hvetja liðsfélaga sína og halda uppi góðri stemningu.
Árdagur er alltaf jafn skemmtilegur, fullur af gleði, samvinnu og mikilli hvatningu. Markmiðið er ekki bara að leysa verkefnin, heldur einnig að efla tengsl milli nemenda og skapa gott andrúmsloft í skólanum.
25.02.2025
Í síðustu viku fengum við góða heimsókn frá nágrönnum okkar í leikskólanum Múlaborg. Hópur leikskólabarna kíktu yfir og fengu fræðslu frá nemum í tanntækninámi um umhirðu tanna. Börnin unnu svo í hópum, lærðu m.a. að bursta tennurnar og fengu að æfa sig á risaeðlutönnum.
Þetta þverfaglega samstarf hefur verið í gangi í nokkur ár og frábært tækifæri fyrir tanntækninema að æfa sig og fyrir leikskólabörnin að fá fræðslu um tannumhirðu og heimsækja skólann sem þau horfa á alla daga.
24.02.2025
Eftir æsispennandi riðlakeppni er FÁ komið áfram í 8-liða úrslit FRÍS - rafíþróttakeppni íslenskra framhaldsskóla. Keppnin hófst 29. janúar á riðlakeppni þar sem FÁ mætti öðrum skólum í leikjunum Fortnite, Rocket League og Counter-Strike 2. FÁ var stigahæsti skólinn að lokinni riðlakeppni og fékk alls 23 stig.
Þeir sem er í liðum FÁ eru Stefán Máni, Karvel og Elvar sem leiða Rocket League liðið. Ísar Hólm, Aron Örn og Sigmar eru í Fortnite-liðinu og í CS2-liði skólans eru Birnir Orri, Ihor, Aline, Thanh og Quan. Varamenn eru Aron, Elínheiður, Jens, Logi, Milena og Sölvi.
Við óskum keppendum til hamingju og góðs gengis í 8-liða úrslitum.
21.02.2025
Í vikunni fóru nemendur í áfanganum Hönnun og gerð sjónvarpsþátta í vettvangsferð á Kvikmyndasafn Íslands. Gunnar Tómas Kristófersson starfsmaður kvikmyndasafnsins tók vel á móti hópnum og leiddi hann um filmu - og munageymslu safnsins. Auk þess að sýndi hann hópnum ýmis myndbrot úr kvikmyndaarfinum, sem safnið hefur skanna og hreinsa með nýjum 4K filmuskanna sínum.
20.02.2025
Á síðasta ári tók Fjölbrautaskólinn við Ármúla þátt í Erasmus verkefninu A Green Day í samstarfi við IES Tegueste frá Tenerife. Verkefnið byggði á samstarfi tveggja skóla þar sem markmiðið var að fræða hvorn annan um ýmis umhverfismál. FÁ hjálpaði IES Tegueste að undirbúa vinnu við umsókn um Grænfánann sem við höfum fengið afhentan í um 20 ár, fyrstir allra framhaldskóla. Í verkefninu fyrir hönd FÁ voru Andri Ingvason, Guðbjörg Eiríksdóttir og Tinna Eiríksdóttir en með þeim voru fimm nemendur sem stunda nám við skólann.
13.02.2025
Það var líf og fjör í Skautahöllinni í gær þegar nemendur FÁ skelltu sér á skauta. Sú hefð hefur skapast í skólanum að fara á skauta þegar Lífshlaupið stendur yfir við góðar undirtektir nemenda. Hátt í tvöhundruð nemendur mættu og skemmtu sér konunglega :)