Desember útskrift

Það var bæði létt yfir og hátíðlegt þegar Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði nemendur sína í dag. Alls útskrifuðust 88 nemendur og þar af 6 af tveimur brautum.

Stúdentar eru 74. Sjö útskrifuðust af félagsfræðibraut, af íþrótta- og heilbrigðisbraut einn, fjórir af náttúrufræðibraut, af opinni braut 43 og af viðskipta- og hagfræðibraut útskrifuðust fjórir.

17 nemendur útskrifuðust af heilbrigðissviði sem skiptast svo eftir námsbrautum: 6 sem sjúkraliðar, af lyfjatæknabraut 3, einn af námsbraut fyrir sótthreinsitækna og af heilsunuddbraut útskrifuðust 7.

Frá nýsköpunar og listabraut útskrifuðust 3 og með viðbótarnám að loknu starfsnámi 15.

Aþena Rán Stefánsdóttir var með bestan árangur á stúdentsprófi í dagskóla en hún útskrifaðist af félagsfræðabraut. Óskum við henni hjartanlega til hamingju.

Eftirfarandi útskriftarnemendur fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í einstökum námsgreinum eða brautum:

Halldóra Björk Smáradóttir - sérgreinar sjúkraliðabrautar.

Sólrún Birta  Ragnarsdóttir- lyfjatæknibraut og fyrir lokaritgerð á lyfjatæknibraut.

Guðrún Magnúsdóttir - íslenska.

Aþena Rán Stefánsdóttir - saga.

Rut Þorbjörnsdóttir - sálfræði.

Heorhii Tkachenko - kvikmyndagerð.

Sigrún Mjöll Halldórsdóttir - heilsunuddbraut.

Áróra Glóð Sverrisdóttir - enska.

Magnús Ingvason skólameistari og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari fluttu ávörp og fóru yfir liðna önn.

Í ræðu sinni nefndi Magnús Ingvason, skólameistari að störf framtíðarinnar verði mjög frábrugðin því sem við þekkjum í dag. Það verði nánast aukaatriði að geta munað og endurtekið upplýsingar. Verðmætustu starfsmenn framtíðarinnar verða þeir sem búa yfir góðri samskiptahæfni, frumkvæði, samkennd, gagnrýnni hugsun og skapandi hugsun. Að geta unnið með upplýsingar - í staðinn fyrir að muna þær.

Kristrún Birg­is­dótt­ir aðstoðarskóla­meist­ari endaði sitt ávarp með því að segja:

“Útskriftin er ekki endapunktur heldur nýtt upphaf. Munið að árangur er ekki einungis mældur í einkunnum eða prófskírteinum, heldur í því hvernig þið mótið ykkar eigin leið í lífinu, hvernig þið komið fram við samferðafólk ykkar og nýtið þá þekkingu og hæfni sem þið hafi aflað ykkur.

Ég hvet ykkur til að treysta eigin styrkleikum, halda áfram að læra, vera opin fyrir breytingum og láta gildi ykkar leiða ykkur áfram. Framtíðin kallar á hugrekki, samkennd og ábyrgð – eiginleika sem þið hafið sýnt að þið búið yfir”.

Helena Freyja M.S. Marísdóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftanema og Ellisif Kristinsdóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema heilbrigðisskólans.

Tónlistarflutningur við athöfnina var í höndum nemenda úr tónlistaráfanga skólans, þeirra Andreu, Katrínu Eddu, Maracuss, Róberts og Rafaels. Laus síðan athöfninni með hátíðlegum samsöng allra viðstaddra á Heims um ból.

Við óskum öllum útskriftarnemum til hamingju með áfangann og óskum þeim bjartrar framtíðar. Það er ósk okkar að þeir minnist skólans með hlýju.