Loksins Árdagur

Síðastliðin fimmtudag hélt FÁ sinn árlega Árdag. Árdagur er þemadagur þar sem skóladagurinn er brotinn upp og í stað hefðbundinnar kennslu skemmta nemendur og starfsfólk sér saman.

Nemendur skiptu sér í 18 lið, hvert lið merkt ákveðnum lit eða mynstri. Liðin kepptu síðan sín á milli í fjölbreyttum þrautum sem starfsfólk var búið að undirbúa. Meðal annars var keppt í karókí, boccia, golfi, spurningakeppnum, heilaleikfimi, leiklist og ýmsu öðru.

Eftir þrautirnar var nemendum boðið upp á pizzur og gos og síðan fór tónlistar- og söngkeppni FÁ fram í matsal skólans.

Það var Gula liðið sem vann keppnina eftir harða baráttu við Dökkgræna liðið. Hlutu þau farandsbikar og bíómiða í verðlaun.

Þátttaka var góð og mikil stemning myndaðist hjá nemendum sem loksins fengu að taka þátt í Árdegi eftir þriggja ára pásu.

Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu skólans .