Lýðheilsu- og forvarnarstefna

Lýðheilsu- og forvarnarstarf í FÁ

Lýðheilsa og forvarnir eru hluti af daglegu starfi Fjölbrautaskólans við Ármúla og hafa það að markmiði að stuðla að betri líðan og ástundun nemenda, ýta undir jákvæða lífssýn og heilbrigða lífshætti allra hlutaðeigandi.

Við skólann starfar forvarnarfulltrúi og lýðheilsu- og forvarnarteymi.

Lýðheilsu- og forvarnarstefna FÁ

Fjölbrautaskólinn við Ármúla tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Verkefnið beinist að öllu skólasamfélaginu og er meginmarkmið þess að stuðla að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði þeirra sem nema og starfa við skólann.

Í skólanum er unnið með heilsueflingu, forvarnir og félagslíf á heildrænan hátt þar sem áhersla er lögð á að styrkja verndandi þætti heilbrigðis en veikja áhættuþætti eða hegðun sem getur valdið vanlíðan eða heilsutjóni.

Heilsuefling og forvarnarstarf í FÁ er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemenda. Verkefnið miðar að því að bæta heilsu og líðan allra þeirra sem starfa og nema við skólann. Lögð er áhersla á heilbrigða lífshætti sem leiða til sjálfsvirðingar, sjálfsstjórnar og jákvæðrar lífssýnar og að hvetja nemendur og starfsfólk til virkrar þátttöku.

Lýðheilsu- og forvarnarstefnunni er ætlað að hafa heilsueflandi áhrif á daglegar venjur og starf í skólanum þar sem nemendur og starfsfólk er hvatt til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og líðan.

Markmið

Markmið heilsu- og forvarnarstefnunnar er að efla alhliða forvarnir og heilsuvernd og stuðla að meðvitund nemenda og starfsfólk um samhengið á milli hollrar næringar, hreyfingar, geðræktar, vellíðunar, góðra svefnvenja, náms, starfs og daglegs lífs og hvetja alla til að taka ábyrgð á eigin heilsu.

Í samræmi við lykilþætti Heilsueflandi framhaldsskóla nær stefnan yfir hreyfingu, mataræði, góðri andlegri heilsu, vímuefnavarnir, jafnrétti og kynheilbrigði og öryggi.

Leiðir skólans að þessum markmiðum felast einkum í starfi forvarnarfulltrúa og heilsu- og forvarnarteymis, almennri vitundavakningu og fræðslu og skýrari reglum.

  • Hreyfing

Hvetja til hreyfingar og heilsusamlegs lífernis og auka vitund um gildi hreyfingar fyrir heilsu, vellíðan og árangur.

  • Skólinn býður upp á fjölbreytta íþróttakennslu sem hvetur nemendur til heilbrigðari lífsstíls.
  • Hvetja nemendur og starfsfólk til markvissrar daglegrar hreyfingar
  • Skólinn standi reglulega fyrir hreyfiviðburðum og tekur þátt í verkefnum eins og Lífshlaupinu, Hjólað í skólann, Gengið í skólann osfrv.
  • Kennarar séu meðvitaðir um nýtingu nærumhverfis í kennslu
  • Standa fyrir fræðslu og viðburðum sem stuðla að aukinni hreyfingu og vellíðan meðal nemenda og starfsfólks. d. íþróttavika og heilsuvika.
  • Mataræði

Efla vitund um gildi góðrar næringar fyrir vellíðan og velgengni. Stuðla að aukinni neyslu á hollum mat og auknum skilningi á mikilvægi þess að nemendur og starfsfólk tileinki sér hollar matarvenjur.

  • Mötuneytið bjóði upp á hollan valkost í samræmi við Handbók um næringu í framhaldsskólum.
  • Tryggja gott aðgengi að drykkjarvatni.
  • Boðið er upp á hafragraut fyrir nemendur á morgnana.
  • Bjóða upp á fræðslu og viðburðum sem vekja nemendur, forráðamenn og starfsfólk til umhugsunar um heilbrigða lífshætti.
  • Næringarfræði er í boði sem valáfangi í skólanum.
  • Andleg heilsa

Hlúa að andlegri heilsu og nemenda og starfsfólk og ýta undir að allir leggi sitt að mörkum til að efla góðan starfsanda í skólanum. Öll samskipti einkennist af jákvæðni og gagnkvæmri virðingu og að hver einstaklingur fái tækifæri til að njóta sína á eigin forsendum.

  • Bjóða upp á fræðslu, þjálfun og vitundavakningu um gildi geðræktar. T.d. forvarnarvika
  • Miðla upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsfólks um hvert sé hægt að leita ef að vandi steðjar að.
  • Stefna og starfshættir skólans miða að því að skapa jákvætt og hvetjandi lærdómsumhverfi sem eflir vellíðan, áhuga og getu hvers og eins.
  • Við skólann er starfandi sálfræðingur sem nemendur geta leitað til.

  • Vímuefnavarnir

Stefna að því að skólinn sé vímuefnalaus ásamt öllum viðburðum og skemmtunum á vegum hans.

  • Bjóða upp á fræðslu um skaðsemi tóbaks, vímuefna og nikótíns, bæði í lífsleikni, fyrirlestra og vitundavakningu á samfélagsmiðlum.
  • Forvarnarfulltrúi veitir einstaklingum sem vilja hætta notkun tóbaks eða vímuefna leiðsögn/aðstoð.
  • Boðið er upp á edrúpott á dansleikjum skólans.
  • Skólinn er með viðbragðsáætlun ef að nemandi er staðinn að neyslu tóbaks, vímuefna eða nikótíns.

 

  • Jafnrétti og kynheilbrigði

Að stuðlað sé að jafnrétti þar sem hver einstaklingur fær tækifæri til að njóta sín á eigin fosendum og finni að velferð hans skipti máli. Skólabragurinn endurspegli virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og unnið sé gegn fordómum. Skólinn hefur jafnréttisfulltrúa og jafnréttisáætlun og kennarar hafi jafnrétti í huga í kennslu sinni, bæði í orðalagi og við val á efni.

  • Aukinni umræðu og fræðslu um jafnréttismál.
  • Bjóða upp á fræðslu og vitundavakningu eins og t.d. jafnréttisviku og forvarnarviku.
  • Taka þátt í Sjúkást sem er fræðslu- og forvarnarfverkefni fyrir ungt fólk um kynbundið ofbeldi og áreitni á vegum Stígamóta.
  • Jafnréttisfulltrúi er starfandi í nemendafélaginu.
  • Kynjafræði er í boði sem valáfangi í skólanum.

  • Öryggi

Unnið er markvisst að jákvæðum skólabrag og er komið í veg fyrir hverskyns ofbeldi og niðurlægjandi hegðun. Tryggja að nemendum líða vel í skólanum og er einelti og ofbeldi er ekki liðið í skólanum. Tryggja öryggi í skólahúsnæðinu og að öryggisáætlun skólans sé framfylgt.

  • Hafa rýmingaræfingu á hverju skólaári.
  • Öryggis- og áhættumati sé viðhaldið og leitað sé úrbóta hið fyrsta þegar þörf er á.
  • Bjóða reglulega upp á skyndihjálparnámskeið.
  • Vinna markvisst gegn einelti og að eineltisáætlun sé sýnileg öllum.
  • Skólinn er með viðbragðsáætlun gegn einelti/áreitni/ofbeldi og er hún sýnileg á heimasíðu skólans.

 

FÁ er Heilsueflandi framhaldsskóli.

Fjölbrautaskólinn við Ármúla er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli frá árinu 2011. Tengiliður í FÁ er Guðlaug Ragnarsdóttir, námsráðgjafi og forvarnarfulltrúi. gudlaug@fa.is

Heilsueflandi framhaldsskóli er verkefni á vegum embættis landlæknis og gengur út á að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmið að stuðla að vellíðan og auknum árangri nemenda og starfsfólks. Verkefnið gerir framhaldsskólum kleift að marka stefnu, skerpa á aðgerðaráætlunum og forvörnum og mynda þannig ramma um forvarnir og heilsueflingu.

Heilsuefling er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemenda skólans. Markmiðið er að bæta heilsu og líðan starfsmanna og nemenda skólans. Allir eru hvattir til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og líðanar. Heilsustefnunni er ætlað að hafa áhrif á daglegt líf í skólanum og stuðla þannig að betri líðan, bættri heilbrigðisvitund og auknum árangri í námi og starfi.

Forvarnarfulltrúi FÁ

Hlutverk forvarnarfulltrúa er að:

  • Vera í forsvari fyrir forvarnarmál og heilbrigðs lífsstíls innan skólans, halda uppi umræðu og fræðslu um heilbrigðan lífsstíl og forvarnir og koma á framfæri hugmyndum til að efla þann þátt skólastarfsins.
  • Stuðla að því að forvarnir í víðum skilningi séu hluti af daglegu starfi skólans í samvinnu við starfsmenn skólans, nemendur og forráðamenn þeirra.
  • Vinna að stefnumörkum skólans í forvarnar- og heilsumálum.
  • Gæta trúnaðar gagnvart skjólstæðingum sínum.
  • Taka á málum sem tengjast brotum á tóbaks- og vímuefnareglum skólans.
  • Aðstoðar við samþættingu forvarna heilsueflandi lífsstíls við annað skólastarf þar á meðal kennslu, sérstaklega lífsleikni.
  • Er tengiliður við Landlæknisembættið í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli og Heilsueflandi vinnustaður.
  • Forvarnarfulltrúi skal stuðla að góðri ímynd FÁ og koma fram með hagsmuni nemenda, skólans og vinnustaðar að leiðarljósi.

 

Helstu verkefni forvarnarfulltrúa:

  • Miðla upplýsingum til nemenda og forráðamanna þeirra með því að vera með viðtalstíma og vera með fræðslu.
  • Vera til viðtals og ráðgjafar fyrir nemendur skólans hvað varðar fræðslu, forvarnir og inngrip við fíkn og fíknivandamálum.
  • Sækir fundi forvarnarfulltrúa á landsvísu.
  • Sækir fundi og námskeið sem tengjast forvörnum.
  • Situr í og leiðir heilsu- og forvarnarteymi skólans.
  • Heldur utan um verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli og Heilsueflandi vinnustaður.
  • Er tengiliður skólans við verkefni sem lúta að lýðheilsu t.d. Hjólað í vinnuna, Lífshlaupið og önnur sambærileg verkefni.
  • Skipuleggur íþrótta-, forvarnar-, jafnréttisviku og heilsuviku í samvinnu við nemendafélagið.
  • Endurskoðar heilsu- og forvarnarstefnu skólans í samvinnu við .
  • Hafa eftirlit með að heilsu- og forvarnarstefnu skólans sé fylgt eftir.
  • Fylgist með umræðu um forvarnir og heilsueflandi lífsstíl og er í sambandi við aðra aðila sem vinna að sama markmiði.
  • Halda utan um fræðslu um heilbrigðan lífsstíl og forvarnir fyrir nemendur, starfsfólk og forráðamenn nemenda.
  • Skrifar ársskýrslu sem tekur til helstu verkefna forvarnarfulltrúa og skilar til skólameistara í lok skólaárs.

Forvarnarfulltrúi FÁ er Guðlaug Ragnarsdóttir, gudlaug@fa.is

Lýðheilsu- og forvarnarteymi FÁ

Í Lýðheilsu- og forvarnarteymi FÁ eiga sæti auk forvarnarfulltrúa, skólahjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi, sálfræðingur, íþróttakennari og fulltrúi kennara.

Hlutverk lýðheilsu- og forvarnarteymis FÁ er m.a. að:

  • halda uppi umræðu og fræðslu um heilbrigðan lífsstíl og forvarnir og koma á framfæri hugmyndum til að efla þann þátt skólastarfsins.
  • endurskoða forvarnar- og heilsustefnu skólans reglulega.
  • fylgjast með umræðu um forvarnir og heilsueflandi lífsstíl og vera í sambandi við aðra aðila sem vinna að sama markmiði
  • standa að fræðslu um heilbrigðan lífsstíl og forvarnir fyrir nemendur, starfsfólk og forráðamenn nemenda.
  • halda uppi umræðu og fræðslu um heilbrigðan lífsstíl og forvarnir og koma á framfæri hugmyndum til að efla þann þátt skólastarfsins.

 

Tóbaks-, vímuefna- og nikótínvarnir

Stefna Fjölbrautaskólans við Ármúla er að nemendur séu ekki í heilsuspillandi umhverfi meðan á námi þeirra stendur og hefur því verið tekin skýr afstaða til þess að leyfa ekki notkun á tóbaki, vímuefnum eða nikótínvörum af neinu tagi í skólanum, lóð hans eða á viðburðum á vegum skólans. Þetta er meðal annars liður í að sporna við almennri tóbaks- og rafrettunotkun ungs fólks, en vitað er að fíknin myndast mjög fljótt og að ungt fólk gerir sér ekki alltaf fulla grein fyrir því hversu ávanabindandi þessi efni eru. Mikilvægt er því að grípa sem fyrst inn í eftir að notkun hefst.

Markmið starfsfólks og skólayfirvalda í FÁ er að hafa góða samvinnu við nemendur og foreldra þeirra svo spyrna megi gegn almennri tóbaks- og nikótín notkun unglinga. Við teljum það okkar hlutverk að láta foreldra vita ef börn undir 18 ára aldri nota slík efni í skólanum.

Samkvæmt skólareglum (linkur) er nemendum, starfsfólki skólans og öðrum ekki heimilt að nota tóbak, vímuefni eða nikótínvörur á skólalóðinni eða þar sem viðburðir á vegum skólans fara fram.

  • Öll meðferð og neysla tóbaks, nikótíns og vímuefna (t.d. sígarettur, rafrettur, nikótínpúðar (með og án nikótíns), áfengi og eiturlyf) í skólanum og á lóð hans er óheimil.
  • Rafrettur, nikótínpúðar og tóbak verður gert upptækt og fargað í skólanum og á viðburðum á vegum hans.
  • Á skemmtunum gilda sömu umgengnis- og hegðunarreglur og í skólanum. Einnig eru sömu viðurlög við brotum á reglum skólans.
  • Sé nemandi grunaður um ölvun á skemmtun á vegum skólans getur hann afsannað það með því að blása í áfengismæli. Ef ölvun mælist eða nemandinn neitar að blása er honum meinaður aðgangur og foreldrar/forráðamenn beðnir um að sækja viðkomandi sé hann undir 18 ára aldri.

Viðbragðsáætlun vegna brota á tóbaksvarnarreglum Fjölbrautaskólans við Ármúla

Skólinn fylgir ákveðinni viðbragðsáætlun sem tekur til brota á tóbaks-, vímuefna og nikótínreglum í skólanum sem byggð er á tillögum frá Landlæknisembættinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Þá munu nemendur sem staðnir verða á brotum á þessum reglum verða skráðir niður og þeim upplýsingum komið til forvarnarfulltrúa. Litið er á fyrstu skráningu sem viðvörun og fá nemandi og forráðamenn hans (sé hann undir 18 ára) bréf í tölvupósti þar að lútandi. Við annað brot eru nemandi boðaðir á fund til forvarnarfulltrúa og hafi nemandi ekki bætt ráð sitt og haldi áfram á sömu braut eftir það fer málið í hendur á skólameistara.

Fyrsta brot: Nafn nemanda er sent til forvarnarfulltrúa og tilvik skráð. Sé nemandi undir 18 ára aldri er haft skriflegt samband við forráðamenn nemandans.

Annað brot: Tilvik skráð. Nemandinn er boðaður á fund hjá forvarnarfulltrúa og hjúkrunarfræðingi skólans og honum vísað á úrræði til að hætta tóbaksnotkun, í skólanum eða utan hans. Skriflegur samningur er síðan gerður við nemandann á fundinum.

Þriðja brot: Ef nemandinn stendur ekki við samninginn þarf hann að koma til viðtals hjá skólameistara.

Síðast uppfært: 15. október 2024