Áframhaldandi fjarkennsla og haustfrí

Ágætu nemendur og forráðamenn,


Nú er 5. vika fjarnáms senn á enda og framundan er vetrarfrí hjá nemendum. Föstudaginn 23. og mánudaginn 26. október er engin kennsla í skólanum. Ég hvet nemendur til þess að njóta frísins vel, hlaða batteríin (eins og stundum er sagt) og ekki sakar að huga eitthvað að verkefnum. Vinna upp ef eitthvað hefur setið á hakanum að undanförnu.


Sóttvarnayfirvöld hafa boðað hertar sóttvarnareglur og á meðan þær reglur eru í gildi verður fjarkennsla við skólann. Um leið og slakað verður á reglum um skólahald, verður okkar fyrsti kostur að hefja öflugt staðnám að nýju.


Það er ljóst að nemendum gengur misjafnlega að fóta sig í því breytta námsfyrirkomulagi sem fjarnámið felur í sér. Ég hvet nemendur sem eiga í einhverjum erfiðleikum á þessum tímum að nýta sér þá frábæru stoðþjónustu sem er að finna í skólanum. Netföng og símanúmer er að finna á heimasíðu skólans www.fa.is. 


Okkur er mjög umhugað um að allir nemendur okkar nái sem bestum árangri á þessari skrýtnu önn. Þar sem um símat er að ræða í flestum áföngum er svo mikilvægt að reyna að skila öllum verkefnum, þar sem hvert verkefni telur í lokin.


Enn og aftur biðjum við nemendur og forráðamenn um að fylgjast vel með fréttum á heimasíðu og Fésbókarsíðu skólans en þar verða settar inn upplýsingar um leið og eitthvað skýrist.


Með góðri kveðju,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ