Árið 2024 eru níu ár liðin frá því að 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, settu sér sameiginleg markmið, alls 17 heimsmarkmið um betri heim. Stefnt er á að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt.
Í dag tekur Fjölbrautaskólinn við Ármúla þátt í fánadegi heimsmarkmiðanna ásamt hundruðum fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga á heimsvísu. Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að sýna stuðning í verki.
Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.
Það er raunsætt að það náist árangur ef allar þjóðir setja sér framsækin markmið og standa við þau. Því er mikilvægt að við munum öll eftir heimsmarkmiðunum, þekkjum þau og hjálpum til við að framfylgja þeim eftir bestu getu 😊