Fyrstu vikurnar

Nú eru nokkrar vikur liðnar af þessari önn og hefur starfið farið vel af stað.  Nemendur eru glaðir og langflestir duglegir að stunda námið.

Skólinn átti stórafmæli núna 7.september þegar hann fagnaði 40 ára afmæli. Afmælishald var með frekar látlausum hætti út af aðstæðum í þjóðfélaginu.  Nemendum og starfsmönnum var boðið upp á afmælismúffur með merki skólans og mjólk með. Þær slógu í gegn og starfsmenn og nemendur skólans  borðuðu nærri 600 múffur.  Einn vinsælasti rappari landsins og fyrrum nemandi skólans, Herra Hnetusmjör tók síðan nokkur lög í sal skólans í hádeginu við góðar undirtektir nemenda og starfsmanna.  Ráðgert er að halda veglegri afmælisveislu síðar  þegar ástand mála í þjóðfélaginu skánar sökum Covid-veirunnar.

Lýðræðisvika var haldin í skólanum vikuna, 6.-9.september og fóru þá fram Skuggakosningar. Skuggakosningar eru kosningar þar sem framhaldsskólanemar kjósa sína fulltrúa á Alþingi og munu endurspegla vilja nemenda um allt land. Frambjóðendur 10 stjórnmálaflokka komu í heimsókn í skólann, kynntu málefni sín og sátu fyrir svörum.  Framboðsfundunum var streymt inn í stofur og fengu nemendur tækifæri til að koma með spurningar.  Skuggakosningarnar sjálfar fóru svo fram á Steypunni, fimmtudaginn 9.september, en nemendur sem voru fæddir 29. október 1999 og síðar voru á kjörskrá. Alls kusu 174 nemendur í kosningunum, en það er um 30% þeirra sem voru á kjörskrá. Vonandi verður kosningaþátttaka ungs fólks heldur meiri í Alþingiskosningunum síðar í mánuðinum. 

Þriðjudaginn 14.september fór fram Nýnemagleði hér í skólanum.  Í haust eru um 140 nýnemar í skólanum.  Nemendur byrjuðu á að fara í skemmtilegan ratleik um skólann þar sem þau leystu þrautir og söfnuðu stigum.  Síðan fengu allir pizzu og gos og  endað var á bíósýningu í fyrirlestrarsalnum þar sem horft var á Dumb and Dumber.