Mikil gleði á árlegum Árdegi

Dökkbláa liðið - sigurliðið í ár.
Dökkbláa liðið - sigurliðið í ár.

Á fimmtudaginn 27. febrúar var Árdagur í FÁ, skemmtilegasti dagur ársins. Árdagar eiga sér langa sögu í FÁ en þá daga gera nemendur og starfsmenn sér dagamun og brjóta upp hefðbundinn skóladag.

Nemendur skiptu sér í rúmlega 20 lið, hvert lið merkt ákveðnum lit eða mynstri. Liðin kepptu síðan sín á milli í fjölbreyttum þrautum sem starfsfólk var búið að undirbúa. Þrautirnar spönnuðu allt frá íþróttum til lista, heilaleikfimi til handavinnu, karókísöngs til spurningakeppna. Þessum skemmtilega degi lauk svo á söngkeppni og pizzaveislu.

Það var Dökkbláa liðið sem vann keppnina eftir harða baráttu við það ljósbláa. Stóðu þau sig vel í þrautunum og voru þau dugleg að hvetja liðsfélaga sína og halda uppi góðri stemningu.

Árdagur er alltaf jafn skemmtilegur, fullur af gleði, samvinnu og mikilli hvatningu. Markmiðið er ekki bara að leysa verkefnin, heldur einnig að efla tengsl milli nemenda og skapa gott andrúmsloft í skólanum.