Öllu er afmörkuð stund...

Stundvísi er ein mikilvægasta dyggð sem fólk almennt tileinkar sér. Ljóst er að því fyrr sem einstaklingur venur sig á stundvísi þeim mun líklegra er að hún verði fastur þáttur í fari hans alla ævi.Stundvísi ber vott um hæfni og byggir upp gott mannorð. Þegar þú ert stundvís sýnirðu að þú reynir að hafa stjórn á lífi þínu í stað þess að láta tilviljun ráða því hvort þú náir að gera það sem þú ætlaðir þér. Við sýnum að við berum virðingu fyrir okkur og öðrum og tímanum þeirra þegar við erum stundvís. Stundvísi ber einnig vott um áreiðanleika. Það skiptir máli að standa við orð sín og flestir kunna að meta það. Þeir sem eru áreiðanlegir ávinna sér virðingu fjölskyldu sinnar og vina. Vinnuveitendur kunna að meta starfsmenn sem koma til vinnu á réttum tíma og skila verki sínu á tilsettum tíma. Það eru meiri líkur á að starfsmaður, sem er áreiðanlegur, fái aukna ábyrgð og launahækkun.Skóli miðar allt sitt starf við tímasetningar. Fyrsti tími morgunsins hefst kl. 08.15 og þá er gert ráð fyrir að nemendur séu mættir og að afloknu nafnakalli hefjist kennsla. Það er ljóst að nemendur sem ítrekað mæta of seint eiga á hættu að missa af skipulagi dagsins, þeir raska gjarnan námsfriði þeirra sem byrjaðir eru að vinna. Þá getur það verið nemendum mjög erfitt félagslega að koma of seint og aukið t.d. kvíða.Til að efla stundvísi er gott að skipuleggja sig fram í tímann og forgangsraða hlutunum eftir mikilvægi þeirra. Vera hógvær, gera sér grein fyrir takmörkum sínum og ekki lofa meiru en maður getur staðið við. 

„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1)