Sigur í frumkvöðlakeppni

Fyrirtækið “Styrkleiki” er mannað nemendum á nýsköpunarbraut FÁ og er eitt af 126 nemendafyrirtækjum frá 15 framhaldsskólum sem kepptu í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla í ár. Ungir frumkvöðlar eru samtök sem leitast við að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í skólum.

Í Styrkleika eru Valur Snær Gottskálksson, Wafika Jarrah og Milica Anna Milanovic, og tóku þessi frumkvöðlar úr FÁ nýlega við verðlaunum úr höndum mennta- og menningarmálaráðherra fyrir „Samfélagslega nýsköpun“. Fyrirtækið þeirra framleiðir og hannar æfingabúnað fyrir einstaklinga bundna í hjólastól og er langt komið með frumgerð á hinum svokallaða „styrktarþjálfa“. Liðið heimsótti borgarstjóra Reykjavíkur á dögunum og sýndi honum æfingatækið sitt, en hér er frétt um þá heimsókn:

Þess má geta að fjárfestar og hagsmunaaðilar hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og styrkt verkefnið beint um allt að 700.000 kr. Samhliða þessu hafa frumkvöðlarnir í Styrkleika vakið athygli fyrir armbönd sem þau hafa framleitt og selt, en ágóðinn af því verkefni rennur til tækjakaupa markhópsins og líklegast að Sjálfsbjörg taki við þeim fjármunum.

Hægt er að kynna sér öll fyrirtækin sem voru stofnuð í fyrirtækjasmiðjunni í ár og vörur þeirra á vefsíðu vörumessunnar.

Til hamingju með glæsilegan árangur Styrkleiki og önnur lið sem komust í úrslit!