Skólafundur og fyrirlestur

Í gær, fimmtudaginn 5. október var haldinn skólafundur í FÁ. En hér í FÁ er haldinn skólafundur einu sinni á ári. Þá er kennsla felld niður og nemendur og starfsfólk skólans ræða um mikilvæg mál er varða skólann. Þetta er mikilvægur lýðræðislegur vettvangur fyrir nemendur skólans til að koma sínum málefnum á framfæri.Í þetta skiptið settu nemendur sig í hlutverk skólameistara FÁ í einn dag og fengu þá tækifæri til að breyta og bæta skólann eins og þau vildu m.a. varðandi kennslu, námsmat, aðstöðu, félagslíf og fleira. Niðurstöðum var síðan skilað til stjórnenda og verður unnið úr þeim á næstu dögum. Það verður spennandi að sjá hvað nemendur vilja leggja áherslu á í skólastarfinu.

Að loknum skólafundi fóru nemendur í matsalinn þar sem Pálmar Ragnarsson fyrirlesari og körfuboltaþjálfari var með áhugavert erindi um jákvæð samskipti. Vel var mætt og var virkilega gaman að hlusta á hann Pálmar.