Umhverfisráð FÁ fær styrk úr Loftslagssjóði Reykjavíkurborgar

Borgarráð hefur samþykkt að veita 500.000 króna styrk fyrir verkefninu „Loftslagspartý framhaldsskólanna“. Verkefnið gengur út á að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda stóran loftslagsviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar Fjölbrautaskólans við Ármúla í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund. Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja loftslagsviðburðinn saman og verður hann haldinn fyrir lok árs.
Loftslagssjóður ungs fólks í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg philanthropies. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en sjóðurinn veitir styrki til verkefna sem eru hönnuð og unnin af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og hafa beina skírskotun í loftslagsáætlun borgarinnar.
Styrkurinn var afhentur við fallega athöfn í Höfða í dag og mættu fulltrúar frá umhverfisráði FÁ á afhendinguna, þær Thelma Rut Þorvaldsdóttir og Bríet Saga Kjartansdóttir. Við óskum þeim og umhverfisráðum skólanna innilega til hamingju með styrkinn.