Varðandi lengt samkomubann

Ágætu nemendur og forráðamenn.

Nú hefur skólinn starfað í nýju og breyttu námsumhverfi í þrjár vikur og páskafrí er hafið. Á þessum vikum hafa komið fram ný viðfangsefni fyrir okkur öll. Starfsfólk skólans hefur unnið hörðum höndum að því að leysa þau mál sem upp hafa komið til þess að halda skólastarfinu gangandi. Það er okkar trú að skólastarfið hafi gengið eins vel og kostur er í þessum aðstæðum og eiga nemendur og forráðamenn ekki síst stóran þátt í þeim árangri.

Samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðisráðherra verður samkomubannið í það minnsta fram til 4. maí n.k. Í ljósi þess hefur verið tekin sú ákvörðun að lokapróf verði ekki með hefðbundnu sniði á þessari önn. Þetta þýðir m.a. að engin formleg próftafla verður í dagskólanum í vor, heldur meta kennarar nemendur í kennslutímum sínum. Í fjarnáminu verður hins vegar prófað eftir próftöflu sem finna má á heimasíðu skólans. Öll próf í skólanum verða í gegnum tölvu.

Kennarar hafa fengið þau tilmæli að í þeim áföngum sem þarf að leggja fyrir lokapróf skuli það gert síðustu vikurnar. Þess verður gætt að þau próf sem haldin verða séu ekki löng og allir nemendur eigi kost á að ljúka prófi, vægi prófa verði ekki umfram 30%, próftími verði allt að tvær klukkustundir (eftir umfangi prófa) og búast megi við því að nemendur hafi námsgögn hjá sér á meðan á prófi stendur. Einnig hefur verið óskað eftir því við kennara að þeir skoði hvort ekki sé hægt sé að auka vægi einstakra námsþátta. Í einhverjum tilvikum verður nemendum einnig gefinn kostur á að leysa verkefni og próf sem var ekki skilað fyrr á önninni.

Eftir páska má búast við því að nemendur fái nánari upplýsingar um námsmat sinna áfanga frá viðkomandi kennurum.

Kennarar mæta aftur til vinnu þann 15. apríl og þá hefst aftur kennsla á því formi sem hún var þessar þrjár vikur fram að páskafríi. Það er afar mikilvægt að halda áfram að vinna í náminu af fullum krafti. Ég hvet nemendur eindregið til þess að leggja sig fram því það skilar bestum árangri. Að lokum vil ég minna á að reglulegur svefn og hreyfing, í bland við krefjandi verkefni, eru góð leið til að halda einbeitingu.

Að lokum viljum við þakka nemendum og aðstandendum fyrir mjög gott samstarf á krefjandi tímum. Og muna að hlýða Víði.

Með góðri kveðju,
Magnús Ingvason, skólameistari FÁ