Vorútskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla

Laugardaginn 27. maí fór fram vorútskrift Fjölbrautaskólans við Ármúla og var það fríður flokkur sem nú lauk námi sínu í hinum ýmsu greinum. Brautskráðir voru 116 nemendur af 13 námsbrautum, þar af 10 nemendur af tveimur námsbrautum. Dúx skólans af bóknámsbrautum var Hilmar Snorri Rögnvaldsson nýstúdent af náttúrufræðibraut. Hann fékk jafnframt viðurkenningu fyrir mjög góðan námsárangur í raungreinum og þýsku. Í heilbrigðisskólanum fékk Þrúður Arna Briem Svavarsdóttir viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur en hún var dúx útskriftarnemenda í heilbrigðisgreinum. Á vorönn stunduðu rúmlega 1800 nemendur nám við skólann, en skólinn er með flesta fjarnámsnemendur á framhaldsskólastigi á Íslandi auk þess að vera kjarnaskóli í heilbrigðisgreinum.

Það voru kveðjuræður útskriftarnema sem mesta athygli vöktu meðal samkomugesta enda góðar og uppörvandi ræður. Giedre Rudzionyte flutti kveðjuávarp útskriftarkandídata í Heilbrigðisskólanum en í ávarpi hennar kom m.a. þetta fram: „það var besta ákvörðun sem ég hef tekið að skrá mig í sjúkraliðanám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hér kynntist ég fólki með ólíkan bakgrunn, mæðrum, ömmum, unglingum, fólki sem hætti í skóla og ákvað að koma aftur með það sameiginlega markmið að stunda nám við Heilbrigðisskóla FÁ. Við þurfum að vera þakklát fyrir tilveruna og tækifærin sem okkur eru gefin, verðlaunin eru í formi gleði, ástar, hamingju og frelsis.“

Magnús Friðrik Guðrúnarson

Ekki var kveðjuávarp Magnúsar Friðriks Guðrúnarsonar nýstúdents síðra: „FÁ gaf mér tækifæri til að vera ég sjálfur“ sagði  Magnús Friðrik Guðrúnarsonar nýstúdent sem flutti kveðjuávarp fyrir hönd nýstúdenta. „Ég er í FÁ í skóla þar sem mín saga er bara eitt dæmi af mörgum, skóla sem hvetur mig og sýnir mér það sem ég leitaði að fyrir mörgum árum, skilningi. FÁ gaf mér tækifæri til að vera ég sjálfur, tækifæri til að njóta námsins á mínum eigin forsendum.“