Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Skrifstofa skólans er lokuð frá 24. – 26. desember. Fimmtudaginn 27. og föstudaginn 28. desember verður skrifstofan opin frá kl. 9 – 15.
Skrifstofan verður svo opin á nýju ári, miðvikudaginn 2. janúar, kl. 10.00

Gleðileg jól of farsælt komandi ár. Lifið í friði.

Brautskráning Fjölbrautaskólans við Ármúla

Brautskráning Fjölbrautaskólans við Ármúla fór fram í dag 21. desember við vetrarsólstöður, þegar sólin er lægst á lofti. Magnús Ingvason skólameistari stýrði athöfninni. Brautskráðir voru 102 nemendur: 71 stúdent, 19 með viðbótarnám til stúdentsprófs, 4 af læknaritarabraut, 5 af heilbrigðisritarabraut, 10 heilsunuddarar, 9 af námsbraut fyrir sótthreinsitækna. Af nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust 3 nemendur. Á Facebook skólans má sjá myndir frá athöfninni.

Dúx skólans á haustönn 2018 er Sigurður Arnór Sigurðsson stúdent af félagsfræðabraut með meðaleinkunnina 8,62. Hann fékk líka verðlaun fyrir góðan árangur í sálfræði, félagsfræði, þýsku og fyrir mætingu og ástundun.

Kveðjuávörp við útskriftina fluttu Þódís Ösp Cummings Benediktsdóttir fyrir hönd útskriftarnema heilbrigðisskólans og Agla Þóra Þórarinsdóttir félagsfræðabraut fyrir hönd nýstúdenta. Sönghópur Fjölbrautaskólans við Ármúla söng jólalög undir stjórn Jóns Svavars Jósefssonar söngstjóra og athöfninni lauk með samsöng þar sem sungin var sálmurinn Heims um ból.

Rúmlega 2000 manns stunduðu nám við skólann á haustönninni í dagskóla og fjarnámi.
Í ræðu sinni við slit skólans, lagði skólameistari, Magnús Ingvason út frá nauðsyn samskipta. Samskipti færu allt of mikið í gegnum netheima í stað raunheima. Samskipti og samverustundir væru ómetanlegar, hvort sem það er með fjölskyldu, vinum, vinnufélögum, gömlum eða nýjum skólafélögum og jafnvel með fólkinu í heitu pottunum í sundlaugunum. Það þurfi að rækta samskiptahæfnina og sýna fólkinu í kringum mann kærleika og virðingu, tala við það augliti til auglitis.

Útskrift frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla 21. desember 2018

Í dag, föstudaginn 21. desember klukkan 13 fer fram útskrift frá skólanum. Athöfnin hefst með ávarpi skólastjóra, Magnúsar Ingvasonar og síðan tekur við hvert atriðið af fætur öðru. Dagskrána í heild má lesa með því að smella hér. Við fögnum með útskriftarnemum sem nú eru að ná mikilsverðum áfanga í lífi sínu og standa á tímamótum rétt eins og sólin á himni sem nú fer að klifra upp hærra og hærra, framundan eru bjartir dagar.

Prófasýning í dag kl. 11-13

Í dag frá 11-13 er hægt að koma í skólann til að skoða prófin sín. Það er vel til fundið að sjá hvað fór vel og hvað fór úrskeiðis, þannig má alltént eitthvað læra af prófunum. Jafnframt prófasýningunni er unnt að ganga frá vali fyrir vortönnina.

Skráning á vorönn stendur enn yfir.

Í gær féll fyrsti snjórinn en á morgun, fimmtudaginn 6. desember er síðasti kennsludagur haustannar. Við tekur snörp prófatíð og vonandi komast allir í gegnum þá orrahríð óskaddaðir. Eftir éljagang prófanna kemur langþráð jólafrí og vonandi ná menn að safna orku fram á næstu önn en kennsla hefst þann 8. janúar á nýju ári. Það skal bent á að enn er hægt að skrá sig til náms á vorönn 2019, og stendur sá möguleiki opinn fram í miðjan þennan mánuð. En nú er það prófin, gangi ykkur öllum allt í haginn, nemendur góðir.

Dimission -

Í dag var gleði og glaumur í FÁ þegar hópur hvítklæddra útskriftarnema skrattaðist um skólann. Eftir glens og gaman í salnum var hópnum boðið að fá sér kaffi og rúnstykki og súkkulaðiköku. Í kvöld mun svo hópurinn hittast á góðum stað ofan í bæ og skemmta sér meir og vonandi fer allt vel fram. Við óskum þeim velfarnaðar í komandi prófum og svo verður útskrift frá FÁ 21. des. 

Skólar ganga um skólaganga

Undanfarinn mánuð hefur stundum mátt sjá herskara ungmenna skunda um ganga skólans, ungt fólk sem er að ljúka grunnskólagöngu og ætlar að hefja framhaldsskólagöngu. Þetta eru nemendur tíunda bekkjar sem koma í FÁ til að kynna sér skólann og ágæti hans, mestmegnis nemar úr nágrannaskólunum eins og til dæmis Háleitis- Austurbæjar-, Háteigs, Hlíðaskóla og Réttarholtsskóla en í dag voru það ungmenni úr Laugalækjarskóla sem gengu um ganga FÁ. Það er von okkar að flest þessara ungmenna eigi eftir að ganga um skólaganga FÁ á skólagöngu sinni.

Leikurinn er rétt að byrja...

Það er alltaf jafn gaman að sjá þessa auglýsingu birtast á vegg skólans. Skólaleikritið eða söngleikurinn er einn af hápunktum skólastarfsins og hingað til hefur engin orðið fyrir vonbrigðum með framlag nemenda til menningar og skemmtunar innan skólans. Það er hinn listvitri Sumarliði sem stjórnar sem áður og ekki hægt að hugsa sér betri mann til þess. Vonandi er ennþá pláss fyrir áhugasama nemendur að sækja um að fá að vera með í ævintýrinu.

Örplast er lævís skaðvaldur...

Á morgun, föstudaginn 16, sem er reyndar dagur íslenskrar tungu, kemur Rannveig Magnúsdóttir í heimsókn í FÁ til að segja okkur allt um örplast og plastmengun. Rannveig er líffræðingur og hefur verið ötul í að fræða almenning um mikilvægi náttúruverndar og áhrif manna á umhverfið. Allir sem hafa áhyggjur af velferð móður jarðar, ekki síst unga fólkið sem á mest undir að framtíðin verði sjálfbær, eru hvattir til að mæta í Salinn klukkan 13.00 og hlýða á fróðlegt erindi. Þekking er vald!

Lífið er ein fantasía...

Á morgun, fimmtudaginn 15. nóvember, mun rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen koma í heimsókn og tala um fantasíubækurnar sínar, hvernig hann vinnur þær með því að leita uppi gömul orð og endurglæða þau lífi og hvernig hann beitir orðaforðanum. Fyrirlesturinn verður í Salnum og hefst klukkan 12:00 - Allir sem unna skrifum eða lestri ættu að láta sjá sig. Hinir mega líka koma. Kannski kviknar þá áhuginn fyrir góðum sögum? Lífið er ein allsherjar fantasíusaga.