Skuggakosningar

Í þessari viku er lýðræðisvika og þá fara fram Skuggakosningar í framhaldsskólum landsins og að sjálfsögðu tökum við í FÁ þátt. Á morgun miðvikudaginn 20. nóvember verða umræður í fyrirlestrarsal með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til alþingiskosninga 30. nóv. Umræðurnar byrja kl. 11:30 og standa til kl. 12:30. Markmiðið er að skapa stemningu og fylla salinn. Spurningar frá nemendum velkomnar. Fimmtudaginn 21. nóvember verða Skuggakosningarnar sjálfar á Steypunni frá kl. 9:00 - 14:10. Á kjörskrá eru: „nemendur (í dagskóla) sem fæddir eru 26. september 2003 og síðar (þeir sem ekki höfðu náð kosningaaldri í alþingiskosningunum 25. september 2021).“ Með öðrum orðum elsti kjósandi á kjörskrá varð 21 árs 26. september sl. Hann og ALLIR yngri hafa kosningarétt. Öll eru hvött til að kjósa!

Fréttabréf FÁ - nóvember

Hér kemur nýjasta fréttabréf FÁ fyrir nóvember og desember. Fjölbreytt efni að vanda, farið er yfir það helsta sem er á döfinni og hvað við erum búin að gera í skólanum undanfarnar vikur. Næsta fréttabréf kemur út í byrjun næstu annar.

Nemendur í leikjahönnun heimsóttu CCP

Starfsfólk CCP tók vel á móti nemendum Fjölbrautaskólans við Ármúla í áfanganum Leikjahönnun (TÖHÖ2LH05). Nemendur fengu kynningu á fyrirtækinu, tölvuleikjum þess og starfsmöguleikum innan tölvuleikjageirans. CCP er stærsta tölvuleikjafyrirtækið á Íslandi með yfir 400 starfsmenn í fjölbreyttum störfum á Íslandi, Bretlandi og í Kína. Fjölspilunarleikurinn EVE Online er stærsti leikurinn þeirra en nýverið gaf fyrirtækið út símaleikinn EVE Galaxy Conquest og er með fleiri leiki í bígerð.

Vel heppnað fótboltamót FÁ á móti FB

Nemendur í FÁ tóku þátt í stórskemmtilegu fótboltamóti sem skipulagt var af nemendaráðum FB og FÁ. Skólarnir tveir kepptu í flokkunum strákar, stelpur og stjórnir nemendafélaga. FÁ sigraði einn af þremur leikjum og þykir afar líklegt að nemendaráðin endurtaki leika á næsta ári. Um 170 nemendur mættu frá skólanum upp í íþróttahús Fjölbrautaskólans í Breiðholti og hvöttu liðið sitt áfram. FB hlaut farandbikarinn að þessu sinni en markmið nemenda í FÁ er að sjálfsögðu að ná honum til sín að ári liðnu. Við skólann eru fjölmargir sem bera af í fótbolta og nemendur eru strax farnir að æfa sig fyrir næsta mót. Stjórnir nemendafélagana eiga sannarlega hrós skilið fyrir þetta frábæra framtak!

Tanntækninemar með fræðslu í FVA

Tanntækninemar í verknámi eru í áfanga sem heitir FOSA2FO04 sem gengur út á forvarnir og samskipti. Nemendur fjalla m.a. um hvernig skal huga að munnhirðu mismunandi hópa og kenna handbragð. Í þessum áfanga er mikið um þverfaglegt samstarf við sjúkraliðabrautir í okkar skóla ásamt öðrum skólum eins og FVA og FB, einnig er samstarf við öldrunarstofnanir, leikskóla og fleiri. Um daginn fóru tanntækninemarnir í heimsókn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og voru með fræðslu og kennslu fyrir nemendur þar.

Heimsókn til Tékklands

Í byrjun árs 2022 fengum við í FÁ þrjá góða gesti frá Tékklandi. Þau komu frá skóla sem heitir því þjála nafni: Vyšší oborná škola zdravotnická, Střední zdravotnická škola a Obchodní akademie, Trutnov. Eftir heimsókn þeirra var ákveðið að sækja um Erasmus+ verkefni, sem var samþykkt. Verkefnið heitir Comparing Differences in Healthcare in Europe. Nýlega fóru tveir kennarar og fimm nemendur í heimsókn til Portúgal vegna verkefnisins. Núna í október fóru Kristrún aðstoðarskólameistari ásamt Eddu Láru umsjónarmanni erlendra samskipta að heimsækja tékkneska skólann, með langa nafninu. Það var tekið vel á móti þeim og íslenski fáninn blakti fyrir ofan aðalinnganginn. Í skólanum er stór heilbrigðisbraut alveg eins og hér í FÁ. Nýjasti partur skólans er aðeins tveggja ára gamall og sáu kennarar sjálfir um að hanna og standsetja allar skólastofurnar og þar sem hjúkrun er kennd eru þrjár skólastofur, hver þeirra er með sitt litaþema, bleikt, grátt og blágrænn. Í skólanum er líka nuddbraut og þar voru þau búin að útbúa mjög fínar kennslustofur fyrir nuddkennslu, ásamt æfingarnuddstofu þar sem tekið var á móti ‚viðskiptavinum‘. Skólameistarinn er áhugasamur um býflugur og eru fjögur býflugnabú í garði skólans sem framleiða hunang sem við fengum að smakka. Virkilega skemmtileg og áhugaverð heimsókn.

Nemar í fjölmiðlafræði í heimsókn á RÚV

Nemendur í fjölmiðlafræði í FÁ kíktu í skemmtilega heimsókn á RÚV um daginn. Þar fræddust þau um starfsemina og fengu að skoða húsnæðið og meðal annars búningageymsluna. Þar fundu þau fullt af skrautlegum jökkum getur Magnús skólameistari getur sent jakkana sína þangað ef að hann þarf að létta á skápunum sínum. Takk fyrir okkur RÚV.

Fræddi nemendur um tölvuleikjagerð

Magnús Friðrik Guðrúnarson frá tölvuleikjafyrirtækinu Myrkur Games kom í heimsókn í Fjölbrautaskólann við Ármúla á dögunum og hitti nemendur í tölvuleikjaáföngum skólans. Undanfarin ár hefur Myrkur Games unnið að gerð Echoes of the End, sem er nýr hasar-ævintýraleikur sem gerist í nýjum fantasíuheimi. Hátækni hreyfirakningar- og ljósmyndaskönnunartækni er notuð við gerð leiksins þar sem hreyfingar leikara eru yfirfærðar á persónur í tölvuleiknum. Magnús fór um víðan völl í erindi sínu, kynnti fyrirtækið, ræddi um mikilvægi nýsköpunar og hugvits fyrir atvinnulífið og íslenskt samfélag, benti á fjölbreytta atvinnumöguleika innan tölvuleikjageirans ásamt því að svara fjölmörgum spurningum frá nemendum. Þess má geta að þá er Magnús Friðrik fyrrum nemandi FÁ. Árið 2017 flutti hann kveðjuávarp fyrir hönd nýstúdenta og hafði margt jákvætt að segja um skólann: „Ég er í FÁ í skóla þar sem mín saga er bara eitt dæmi af mörgum, skóla sem hvetur mig og sýnir mér það sem ég leitaði að fyrir mörgum árum, skilningi. FÁ gaf mér tækifæri til að vera ég sjálfur, tækifæri til að njóta námsins á mínum eigin forsendum.“ er meðal þess sem Magnús sagði í sinni góðu og uppörvandi ræðu. Hægt er að lesa nánar um Myrkur Games og Echoes of the End á Myrkur.is. Nemendur sem hafa áhuga á tölvuleikjum er bent á að kynna sér úrval tölvuleikjaáfanga sem í boði eru, meðal annars má nefna áfangana leikjahönnun, yndisspilun og rafíþróttir.

Ormhildur hin hugrakka

Um daginn fórum nemendur í heimsókn í hreyfimyndaver "Ormhildar hinnar hugrökku". Ormhildur þessi er skrímslabani og  aðalkarakter í nýrri teiknimyndaseríu sem gerist á Íslandi í framtíðinni eftir að bráðnun jökla og hnattræn hlýnun hefur leyst fjölmargar kynjaskepnur úr fjötrum. Höfundur og leikstjóri þáttanna er engin önnur en okkar eigin Þórey Mjallhvít, listgreinakennari við FÁ.

Rafrusladagurinn haldinn um allan heim

Rafrusladagurinn var haldinn um allan heim í vikunni og tók skólinn þátt í vitundarvakningunni. Áhersla rafrusladagsins í ár eru biluð, ónýt eða ónotuð raftæki sem fólk geymir á heimilum sínum. Mörg lítil raftæki er oft finna í skúffum heimila t.d. gamlir farsímar, snúrur, USB-lyklar, kortalesarar, leikjatölvur, smáheyrnartól og þess háttar. Raftæki eru allir hlutir sem eru með kló, snúru eða rafhlöðu. Til hvers að endurvinna raftæki? Raftækjaúrgangur inniheldur mikið af verðmætum; sjaldgæfum málmum (t.d. kopar og gull) og fleiri efnum sem mikilvægt er að koma í endurvinnslu. Mörg raftæki innihalda auk þess efni sem eru skaðleg umhverfinu, fari þau ekki í réttan farveg. Hver er skaðinn? Aðeins um 17 prósent af rafrusli heimsins ratar í fullnægjandi endurvinnslu. Gríðarlegt magn af raftækjaúrgangi verður til á hverju ári og er umfangið sífellt að aukast. 62 milljón tonn af raf- og rafeindatækjaúrgangi á heimsvísu árið 2022. Þetta magn jafngildir því að 1,55 milljón vörubílum, hlöðnum rafrusli, yrði stillt upp við miðbaug jarðar og næðu allan hringinn. Eftir hvern Íslending liggja um 24 kíló af rafrusli á ári. Samtals vegur árlegt rafrusl landsmanna um níu þúsund tonn. Hvað getum við gert? Við getum athugað hvort gömul raftæki liggi í skúffum og skápum og skilað þeim á næstu endurvinnslustöð. Elko tekur einnig á móti gömlum raftækjum og í sumum tilfellum er hægt að skila þeim og fá inneignarnótu í staðinn. Viltu finna milljón? Sumum raftækjum er hægt koma í viðgerð, gefa/selja og lengja þannig líftíma þeirra. Þá leynast oft raftæki í fullkomnu standi inná heimilum fólks sem safna ryki og bíða eftir nýjum áhugasömum eiganda. Hægt er að kynna sér málið enn betur á vefsíðu Saman gegn sóun https://samangegnsoun.is/raftaeki/ og á vefsíðu Úrvinnslusjóðs https://www.urvinnslusjodur.is/um-urvinnslusjod/utgafa/tilkynningar/althjodlegi-rafrusldagurinn.