Stjörnu-Sævar í heimsókn

Umsjónamaður sjónvarpsþáttanna “Hvað höfum við gert?”, Sævar Helgi Bragason (Stjörnu-Sævar), hélt fyrirlestur um umhverfismál í FÁ í dag. Nemendur létu sig ekki vanta heldur fylltu salinn.

Forvarnavika í FÁ

Liðin vika var helguð fjölbreyttum forvörnum í FÁ - enda margir ólíkir þættir sem koma að heilbrigðu lífi framhaldsskólanema.

Við fengum til okkar frábæra fyrirlesara sem fjölluðu um misnotkun á vímuefnum, of lítinn svefn Íslendinga, forvarnir gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, og tengsl sjálfsmyndar og kynheilsu. 

Þá stóð alla vikuna uppi bás þar sem meðlimir nemendaráðs tóku að sér sölu á varningi til styrktar nokkrum forvarnaverkefnum. Salan gekk vonum framar og nemendaráðið hlakkar til að afhenda Stígamótum, "Á allra vörum" og "Eitt líf" ágóða upp á 81.000 kr. 

Dagur íslenskrar náttúru

Mánudagurinn 16. september var helgaður íslenskri náttúru og fagnaði Umhverfisráð FÁ þeim degi með nemendum og starfsfólki. Fólk var hvatt til að mæta í grænum fötum þann dag og skilja einkabílinn eftir heima. Þá komu Eyþór Eðvaldsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins, og Einar Bárðason, framkvæmdastjóri hans, í heimsókn í skólann. Eyþór hélt fyrirlestur um endurheimt votlendis og var dúndurmæting á erindið. Loks afhentu nemendur í Umhverfisráðinu sjóðnum peningagjöf en hluta hennar söfnuðu nemendur sjálfir með því að halda fatamarkað á Umhverfisdögum síðasta vor.

Við hvetjum áhugasama til að kynna sér Votlendissjóðinn og störf hans á https://votlendi.is/