Nýnemadagurinn 2019

Okkar yngstu og nýjustu nemendur voru formlega boðnir velkomnir í skólann í dag. Svarta liðið bar sigur úr býtum í þrautakeppni á milli nýnemabekkja og vann sér inn bikar og bíómiða. Pylsur voru grillaðar í dásamlega veðrinu, undir tónum Bjarna töframanns, og nýnemar svo loks ferjaðir út í Viðey í leiki, pizzu og köku.

Fjarnám - skráning í gangi...

Nú er skráning í fjarnám við FÁ á fullu skriði og stendur fram til 3. september. Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem ekki eiga auðveldlega heimangengt á daginn en geta notað kyrrð og ró heimilisins til þess að lesa og læra, hvort sem þeir halda heimili á jörðinni eða tunglinu. Vegurinn þekkingarinnar liggur úr myrkviðum til ljóssins. Allt að 80 áfangar í boði. Kannið möguleikana hér á síðunni og smellið á FJARNÁM -tengilinn hér að ofan.

Siglt út á þekkingarhafið

Nú er skólinn að komast í gang, hægt og sígandi en af krafti eins og gamall togari sem leysir landfestar og siglir út á opið haf og kastar þar út netum. Hver aflinn verður kemur seinna í ljós en vonandi verður trollið fullt. Um borð í togaranum eru 935 nemendur munstraðir í dagskólanum, þar af 123 nýnemar.

Á mánudaginn, 26. ágúst verður fundur með foreldrum nýnema en á föstudaginn kemur, þann 30. ágúst verður haldið upp í nýnemaferð jafnframt sem nemendum og starfsfólki verður boðið upp á grillaðar pylsur.

Haustönnin hefst þann 15. ágúst

Haustönnin hefst þann 15. ágúst en þá opnast stundatöflurnar í INNU. Til að komast inn í INNU þarf annað hvort rafræn skilríki eða Íslykil. Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast rafræn skilríki er á https://www.audkenni.is/ og allt um Íslykil er hér https://innskraning.island.is/order.aspx.

Töflubreytingar verða fimmtudag 15. ágúst kl. 13:00 – 16:00 og föstudag 16. ágúst kl. 10:00 – 15:00. Einnig er hægt að senda beiðni um töflubreytingu á netfangið toflubreytingar@fa.is

Þann 14. ágúst eru á dagskrá fundir nýnema og foreldra þeirra með umsjónarkennurum. Nánari tímasetningar þessara funda eru í bréfi sem foreldrar/forráðamenn nýnema hafa fengið frá skólameistara.

Starfsfólk FÁ hlakkar til haustannar og býður alla nýja og gamla nemendur velkomna til starfa.