Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla er boðið upp á nám á glæsilegri nýsköpunar- og listabraut. FÁ var brautryðjandi þeirrar hugmyndafræði að byggja upp slíka braut og hefur hún verið starfrækt í um 11 ár. Það var að frumkvæði Grétu Mjallar Bjarnadóttur og Þórs Elís Pálssonar að móta brautina og fengu þau styrk frá Sprotasjóði til að gera það. Brautin varð tveggja ára starfsnámsbraut með það að markmiði að nemendur kæmust í bein tengsl við atvinnulífið. Tilgangur hennar hefur greinilega sannað sig þar sem nemendafjöldi brautarinnar er um 50 nemendur á önn.
Nemendur hafa lengi kallað eftir fleiri listáfangum og að því að nýsköpunar- og listabrautin bjóði upp á fullt nám til stúdentsprófs. Með tilkomu styrks frá Sprotasjóði 2022 var kennurum við brautina gert kleift að þróa það nám. Gréta Mjöll og Þór Elís héldu því áfram þeirri vinnu og fengu til liðs við sig þau Jeannette Castioni og Bjarka Þór Jónsson, kennara við brautina.
Sterk umræða er um aukið nemendalýðræði í skólum og úr varð sú hugmynd að vinna beint að þróuninni með nemendum í venjulegu skólastarfi og var því boðið upp á valáfanga á haustönn 2022 fyrir nemendur um þróun brautarinnar.
Meginverkefni nýsköpunar áfangans var að vinna sameiginlega að þróunarverkefninu, bæði nemendur og kennarar. Viðfangið er umbreyting tveggja ára starfsnáms í listum til þriggja ára listnáms til stúdentsprófs með sameiginlegri iðjutengdri skapandi rannsókn.
Áfanginn hefur gengið mjög vel og eru nemendur áhugsamir um framhaldið. Það er von okkar að það takist mögulega að hefja nám á þriggja ára nýsköpunar- og listabraut næsta haust.