Gleðilegt nýjár

Nýtt ár - óskrifað blað - ný námsönn og nóg að gera fram í maí. Annasamur tími framundan en jafnframt spennandi svo engum ætti að leiðast - og vonandi ber starfið ríkulegan ávöxt - besta uppskeran fæst með góðri ástundun.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 8. janúar. Ef einhverjir vilja laga stundatöfluna sína er tækifæri til þess fimmtudaginn 4. janúar frá 10-16 og einnig föstudaginn 5. janúar frá 13 - 16.

Velkomin aftur, vonandi feit og pattaraleg eftir veisluríkt frí.

.

Gleðileg jól

Fjölbrautaskólinn við Ármúla óskar öllum gleðilegra jóla. Megi kærleikur og friður umlykja ykkur öll.

 

Brautskráning frá FÁ

Í dag, 21. desember voru 109 nemendur brautskráðir frá FÁ. Athöfnin fór hið besta fram samkvæmt dagskrá en kannski að börnin í Múlaskóla hafi sett mestan hátíðabrag á samkomuna með því að syngja fyrir viðstadda. Á Facebook-síðu skólans er að finna nokkrar svipmyndir frá athöfninni. FÁ óskar brautskráningarnemum sínum til hamingju og vonar að þeim gangi sem best í framtíðinni. Gleðileg jól

Brautskráning kl. 14 -fimmtudaginn 21.des.

Á morgun, á vetrarsólstöðum, þegar sólin er lægst á lofti, munu 108 nemendur verða brautskráðir frá FÁ. Athöfnin hefst klukkan 14.00
Lesið meir til að sjá alla dagskrána:

Prófasýning - þriðjudag frá 11:30 til 13:00

Prófasýning og frágangur á vali fyrir vorönn 2018 er á morgun 19. des. frá kl. 11:30 – 13:00. Jafnframt þarf að staðfesta val fyrir vorönn næsta árs. Það er um að gera að líta inn í skólann og skoða árangur sinn í prófunum og ganga um leið frá valinu fyrir vorönnina ef það er ekki þegar búið að gera. En stundum þarf að leiðrétta valið ef árangurinn var ekki eins og vonir stóðu til.  - Verið velkomin í skólann á morgun.

Frostkyrrð og kuldi

Nú eru prófin byrjuð, og standa fram í miðja næstu viku. Vonandi eru nemendur jafn svalir og rólegir eins og veðrið sem hefur dólað yfir landinu undanfarið; frostkaldir fagrir dagar. Vonandi gengur nemendum allt í haginn og námið gangi upp og áföngum náð. Við óskum þeim alls hins besta. Prófasýning verður svo að lokinni þessari prófalotu, eða 19. desember, frá klukkan 11:30 - 13:00. Þá er jafnframt unnt að ganga frá vali fyrir vorönn 2018. Á myndinni hér að neðan, má sjá skúlptúra eftir nemendur Sérdeildarinnar. Það eru þungt hugsandi höfuð sem endalaust geta bætt í þekkingarsarpinn. 

Víða ratar FÁ

Vits er þörf þeim er víða ratar segir í Hávamálum. Það fór ekki  hátt um ferðalag þýskunemenda til Stralsund í Þýskalandi dagana 19-25. nóvember, á vegum Erasmus+ verkefnisins, "Huga, Gera og Starfa á sjálfbæran máta". Frá Íslandi fóru kennararnir Steinunn Geirsdóttir og Svanhildur Pálmadóttir og í fylgd með þeim fimm nemendur. Þetta var strembin ferð og ströng dagskrá eins og vera ber en hápunktur ferðarinnar var að hitta sjálfan Þýskalandskanslara Frau Merkel. Hún tók ferðalöngum vel og spurði margs um tíðarfar á Íslandi og hvort gott væri undir sauðfé á landinu. Þetta var frábær för en fundurinn með kanslaranum kannski það Merkel-legasta. Höfundarréttur á mynd: Bundesregierung/ Jesco Denzel.