Hugsaðu þér draum

Félag enskukennara efnir til smásögukeppni og er þemað DREAMS (draumar) - Hver skóli má aðeins skila þremur sögum svo að samkeppnin er hörð, nemendur FÁ eiga eflaust létt með að skrifa sögu um drauma sína?

Skilafrestur er til og með 5. desember. Smásögurnar skal senda á enskukennarar@gmail.com. (14 – 16 punkta letur í pdf skjali merkt þátttakanda). Þeir sem hafa áhuga á því að spreyta sig í sagnagerð, geta ráðfært sig við enskukennara sinn ef einhverjar spurningar vakna. Munum að draumar eru nauðsynlegur þáttur lífins enda "er allt sem við sjáum eða skynjun aðeins draumur innan draums" eins og smásagnameistarinn Edgar Allan Poe sagði.

Haustjafndægur - frítt í strætó

Í dag eru haustjafndægur og nóttin og dagurinn búa við jafnræði en upp úr þessu fer degi að halla. Í dag er líka bíllausi dagurinn og af því tilefni er frítt með strætó. Það er því spurning hvort hjólreiðakappar skólans mæti á hjólunum eða nýti sér þægindi strætisvagnanna. September er líka helgaður minni plastnotkun. Vonandi er enginn að drekka svaladrykk úr plastíláti þessa dagana. Plast er óvinur jarðarinnar.
Í tilefni bíllausa dagsins er að minnsta kosti rétt að minna á átakið "Hjólum í skólann" sem nú stendur yfir. Sjá nánar á http://hjolumiskolann.is/

Reykur er reykur

Það ætti ekki að fara fram hjá neinum að reykingar eru algerlega bannaðar í húsnæði skólans og einnig á skólalóðinni. Skiptir þá engu máli hvort reykurinn kemur úr sígarettu eða rafrettu.
Einhver brögð hafa verið að því að sumir haldi að gufustrókur úr rafréttu sé ekki reykur. Það er misskilningur. Allur útblástur nema bifreiða er bannaður við skólann.

Gettu betur - ef þú getur

Nú er að fara í gang liðssöfnun fyrir Gettu betur - lið skólans. Leitað er eftir mannlegum tölvuheilum sem hafa límheila og muna allar merkar og ómerkar staðreyndir í alheimi og helst sem ómerkilegastar - hvað vegur býfluga mörg míkrógrömm? Af hverju er himinninn blár? Þeir sem eru með góðan límheila ættu að skrá sig í þetta einvalalið og láta ljós sitt skína í spurningakeppninni. Skráning er á skrifstofunni.

Erasmus+ styrkur til FÁ

Rannís var að úthluta rúmlega 2,6 milljónum evra til fjölþjóðlegra samstarfsverkefna úr menntahluta Erasmus+. Að þessu sinni voru styrkt 26 skólaverkefni þar sem megináhersla er á samstarf skóla, starfsmanna þeirra og nemenda og veitir þetta skólum einstakt tækifæri til að efla alþjóðlegt samstarf og nýsköpun. FÁ var einn þeirra skóla sem fékk styrk. Verkefnið sem byrjar núna á haustönn er 2 ára verkefni. Það heitir  "Sustainable Europe 2030 - There are solutions everywhere”.Verkefnið er unnið í samstarfi við fjóra skóla í  Þýskaland, Frakkland, Tékkland og Portúgal. Í lok vikunnar verður auglýst (á skjánum) eftir nemendum til að taka þátt í þessu verkefni.

Fjarnám - skráningu lýkur á morgun, 5. september

Enn er tími til þess að skrá sig í fjarnám við FÁ - skráningu lýkur á morgun, 5. september en önnin hefst þann 7. september. Fjöldi áfanga er í boði - ekki láta tækifærið úr greipum ganga.
Sjá nánar á heimasíðu skólans: Fjarnám

Námskeið: Gagnlegar venjur

Það tekur skamma stund að koma sér upp ósiðum eða ljótum óvana. En betra er samt að tileinka sér góða siði og GAGNLEGAR venjur. Það er haft fyrir satt að leiðin til Heljar sé lögð góðum áformum en nú er okkur borgið. Námskeiðið GAGNLEGAR VENJUR verður haldið mánudaginn 4. sept. og miðvikudaginn 6. sept. frá klukkan 12:35 til 13:00 og því ættu allir sem þurfa að geta sótt sér fræðslu um gagnlegar venjur. Fræðslan fer fram í stofu M201 - sannkallað tækifæri til farsældar og frama í lífinu.