Verðlaunahafi í þýskuþraut

Nemandi í FÁ, Vladyslav Kolpakov tók þátt í þýskuþraut sem Félag þýskukennara á Íslandi heldur árlega. Tæplega 100 nemendur úr átta framhaldsskólum tóku þátt í ár. Keppt var í tveimur erfiðleikaflokkum. Vladyslav var í fimmta sæti í erfiðari flokknum. Hann tók við verðlaunum frá sendiráði Þýskalands í Húsi KÍ föstudaginn 28. mars. Innilegar hamingjuóskir Valdyslav.

Nemendafélag FÁ styrkir Barnaspítala Hringsins um hálfa milljón

Nemendafélag Fjölbrautaskólans við Ármúla afhenti Barnaspítala Hringsins ávísun uppá hálfa milljón í hádeginu. Barnaspítalinn tók fagnandi á móti fjárhæðinni og bar nemendafélaginu bestu þakkir.

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna var haldin dagana 15.-16. mars í Bíó paradís. Að venju var skipulagning hátíðarinnar í höndum nemenda FÁ en þau Ana, Arngrímur, Auðunn, Hafþór, Iðunn, Klara og Steinn Torfi sem og kvikmyndakennarinn þeirra Atli, eiga hrós skilið fyrir flotta skipulagningu og glæsilega hátíð.

Kynnisferð til Belgíu

ÍSAN kennararnir Sigrún Eiríks, Kristjana og Sigrún Gunnars fóru í mjög fræðandi og skemmtilega ferð til Belgíu í gegnum Erasmus+ þann 10.-14.mars sl. Megin tilgangur ferðarinnar var að kynna sér móttöku á innflytjendum í framhaldsskólum. Farið var í sérstakan móttökuskóla sem heitir OKAN þar sem nemendur dvelja í 1-2 ár og læra hollensku í bland við nokkur önnur fög eins og stærðfræði og frönsku en franska er annað opinbert mál Belgíu. Að honum loknum er þeim fylgt eftir í eitt ár en þá fara nemendur gjarnan í systurskóla OKAN sem er hefðbundinn framhaldsskóli. Mikið er lagt upp úr félagslega þættinum og reynt að finna íþróttir og tómstundir fyrir alla. Fundað var með ýmsum kennurum og námsráðgjöfum og ÍSAN kennarar fræddir um allt milli himins og jarðar. Þær sátu líka í ólíkum kennslustundum, fóru í göngu um Antwerpen þar sem OKAN nemendur sáu um leiðsögn og fræddu þær um borgina. Einnig fóru þær í súkkulaði verksmiðju sem er auðvitað stolt þeirra Belga og ómissandi þáttur í menningu þeirra. Vonast þær til að ferðin geti nýst til að miðla fróðleik og þekkingu Belgíu til okkar á Íslandi.

Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina?

Í FÁ er starfandi frábært umhverfisráð sem vinnur að umhverfismálum í skólanum. Þau Matthildur Þóra og Guðmundur Ingi sem eru í umhverfisráði skrifuðu smá frétt sem birtist á visir.is í vikunni: Hvað geta ungmenni gert fyrir jörðina. Við hvetjum ykkur til að lesa þessa flottu frétt.

Takk fyrir komuna á opið hús

Í gær var opið hús í FÁ fyrir 9. og 10.bekkinga, forráðamenn og aðra áhugasama. Það var mjög góð mæting og frábær stemning. Við þökkum öllum fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta á næstu önn.

Hönnuður Landnámu svarar spurningum

Á dögunum ræddi leikjahönnuðurinn og tölvuleikjaframleiðandinn Mathias Tournier við nemendur í Leikjahönnunum reynslu sína við gerð og þróun tölvuleikja. Mathias sem er búsettur í Berlín kom meðal annars að gerð og útgáfu tölvuleiksins Landnámu en í honum feta spilarar í fótspor landnámsmanna á Íslandi og þurfa að kanna landið og stækka byggð sína. Nemendur fengu svör við öllum spurningum sínum og Mathias hvatti áhugasama nemendur til að halda áfram að spila og stúdera tölvuleiki.

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna verður haldin með pompi og prakt núna um helgina 15-16 mars í Bíó paradís, kl. 12-17 báða dagana. Sýndar verða stórskemmtilegar stuttmyndir eftir framhaldsskólanema frá öllu landinu auk kynninga frá kvikmyndaskólum og kvikmyndahátíðum. Góðir gestir úr kvikmyndabransanum mæta og mikið stuð alla helgina. Það er frítt inn og allir velkomnir! Þess má geta að framkvæmd hátíðarinnar er í höndum nemenda skólans sem eru í áfanganum VIBS sem Atli Sigurjónsson kennir, en undirbúningur hátíðarinnar hófst snemma á síðustu önn.

Vilja vernda jökla á Íslandi

Nemendur í umhverfisráði skólans fóru í heimsókn í Mannréttindahúsið og kynntust þeirri starfsemi sem þar er. Mannréttindahúsið sameinar fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum. Þar er að finna t.d. KVAN, ÖBÍ réttindasamtök, UN Women á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna. Með í ferðinni voru nemendur frá nágrannaskólanum okkar, Menntaskólanum við Sund. Mikið og gott samstarf hefur verið á milli skólanna tveggja í starfi umhverfisráðanna. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um Mannréttindahúsið og eiga gott samtal við Pétur Hjörvar, tengilið UNESCO skólanna á Íslandi á vegum Félags Sameinuðu þjóðanna. Hópurinn ræddi um mikilvægi jökla á Íslandi og sótti um styrk á vegum loftslagssjóðs Reykjavíkurborgar sem styður við vitundavakningu á loftslagsbreytingum meðal ungs fólks. Styrkumsóknin ber heitið „Draumurinn um jökul“ og ef styrkurinn fæst verður farið í jöklaferð með það fyrir augum að taka upp og miðla fræðslumyndbandi um jökla meðal ungmenna á Íslandi.

FÁ úr leik í Gettu betur

FÁ tók þátt í æsispennandi undanúrslitum í spurningakeppninni Gettu betur í gærkvöldi. Liðið stóð sig mjög vel en varð því miður að sætta sig við tap gegn liði MA, 28-16. Við óskum MA-ingum hjartanlega til hamingju og góðs gengis í úrslitunum. Þrátt fyrir tap erum við óendanlega stolt af frammistöðu Iðunnar, Halldórs og Dags, þið voruð frábær - takk takk :)