Ágætu nemendur og forráðamenn,
Ekki er útlit fyrir að Covid-19 veirunni verði komið fyrir kattarnef alveg á næstunni, því miður. Enn eru smit að greinast, en þeim fer þó fækkandi. Nýjar sóttvarnareglur voru kynntar í dag og gilda þær til 2. desember. Samkvæmt þeim er heimilt að allt að 25 nemendur á framhaldsskólastigi megi vera í sama rými, en þeir mega ekki fara á milli kennslustofa. Í áfangaskóla eins og FÁ fara nemendur á milli stofa eftir hverja kennslustund, þannig að skólayfirvöld sjá ekki möguleika á að staðkennsla hefjist að nýju.
Það verður því fjarkennsla út önnina í dagskólanum. Einstaka hópar nemenda hafa fengið að koma inn í skólann undanfarnar vikur í sérstökum tilfellum og verður svo áfram. Þá munu allir nemendur á sérnámsbraut mæta í skólann frá og með miðvikudeginum 18. nóvember.Öll próf í lok annar, önnur en verkleg próf, verða rafræn.
Á næstunni verður skoðað hvernig útskrift frá skólanum verður háttað.
Svo vona ég að nemendur standi sig vel í náminu þessar örfáu vikur sem eftir eru. Lykillinn að góðum árangri er að skila öllum verkefnum sem á að skila, þar sem hvert verkefni telur í lokin.
Góða helgi
Magnús Ingvason,
Skólameistari FÁ