Erindi skólasálfræðings

Þetta eru krefjandi tímar og ljóst að margir okkar nemenda finna sárt fyrir stöðunni. Skólasálfræðingur FÁ, Andri Oddsson, býður upp á nemendaviðtöl í gegnum Teams og hvetjum við okkar fólk til að nýta sér þessa þjónustu. Hægt er að bóka viðtal með tölvupósti í netfangið salfraedingur@fa.is.

HÉR má svo hlýða á gagnlegt erindi Andra í tveimur hlutum - um andlega líðan á tímum Covid.

Rafrænt jólabingó!

Á morgun, 26. nóv. kl. 18:00 heldur nemendafélag FÁ rafrænt aðventubingó í gegnum Teams. Þátttaka er frí fyrir alla nemendur skólans og hægt að panta allt frá einu upp í fimm bingóspjöld á mann. 

 

HÉR skal skrá sig til þátttöku. Fullt af flottum og fjölbreyttum vinningu

 

HÉR er hlekkur á bingóið!

Fjarkennsla út önnina

Ágætu nemendur og forráðamenn,

 

Ekki er útlit fyrir að Covid-19 veirunni verði komið fyrir kattarnef alveg á næstunni, því miður. Enn eru smit að greinast, en þeim fer þó fækkandi. Nýjar sóttvarnareglur voru kynntar í dag og gilda þær til 2. desember. Samkvæmt þeim er heimilt að allt að 25 nemendur á framhaldsskólastigi megi vera í sama rými, en þeir mega ekki fara á milli kennslustofa. Í áfangaskóla eins og FÁ fara nemendur á milli stofa eftir hverja kennslustund, þannig að skólayfirvöld sjá ekki möguleika á að staðkennsla hefjist að nýju.


Það verður því fjarkennsla út önnina í dagskólanum. Einstaka hópar nemenda hafa fengið að koma inn í skólann undanfarnar vikur í sérstökum tilfellum og verður svo áfram. Þá munu allir nemendur á sérnámsbraut mæta í skólann frá og með miðvikudeginum 18. nóvember.Öll próf í lok annar, önnur en verkleg próf, verða rafræn.
Á næstunni verður skoðað hvernig útskrift frá skólanum verður háttað.


Svo vona ég að nemendur standi sig vel í náminu þessar örfáu vikur sem eftir eru. Lykillinn að góðum árangri er að skila öllum verkefnum sem á að skila, þar sem hvert verkefni telur í lokin.

Góða helgi
Magnús Ingvason,

Skólameistari FÁ

Skólapeysur

Fyrr í haust var blásið til hönnunarsamkeppni meðal nemenda FÁ um logo á nýjar skólapeysur. Fjölmargar og fjölbreyttar hugmyndir bárust og eftir æsispennandi kosningu á Instagram bar Sara Lind Styrmisdóttir sigur úr býtum.


Nú er hægt að panta sér þessa glænýju skólapeysu á frábæru verði, og bæði verður hægt að sækja peysur niður í skóla og fá heimsent (innan höfuðborgarsvæðis). Peysurnar koma í þremur litum, mörgum stærðum og bjóðast bæði sem hettupeysur og háskólapeysur.


Pantið peysur HÉR !

Hertar sóttvarnaraðgerðir

Ágætu nemendur og forráðamenn

Eins og flestum er eflaust kunnugt hafa hertar sóttvarnarreglur tekið gildi í samfélaginu.

Það liggur því fyrir að fjarkennsla verður í dagskóla næstu vikur, en við vonumst auðvitað eftir því að smitum fari að fækka og í framhaldinu verði slakað nægilega mikið á samkomuhöftum til að við getum opnað skólann aftur fyrir nemendum.

Á meðan við bíðum átekta biðjum við okkar nemendur að halda áfram að sinna náminu eins vel og þeir hafa verið að gera.

Flestir nemendur eru að mæta vel í Teams-tímana sem skiptir höfuðmáli til að ná góðum árangri í náminu. Nú styttist óðum í annarlok og því mikilvægt að skipuleggja sig vel, fylgjast með kennsluáætlun og passa upp á að verkefnum og öðru sé skilað á réttum tíma.

Ég vil minna nemendur á stoðþjónustu skólans og hvet þá sem eiga í einhverjum erfiðleikum með námið að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa skólans. Netföng þeirra eru á heimasíðu skólans.

Kveðja,

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ