Samstarf við Sjúkraliðafélag Íslands

Sjúkraliðafélag Íslands á í góðu samstarfi við Heilbrigðisskóla FÁ. Samstarfið felst meðal annars í því að fræðslustjóri félagsins kemur í reglulegar heimsóknir og kynnir starfsemi Sjúkraliðafélagsins. Nýverið kom Ragnhildur Bolladóttir fræðslustjóri félagsins í heimsókn í skólann og kynnti fyrir nemendum réttindi og skyldur þeirra að námi loknu í þeim tilgangi að undirbúa nemendur undir að fara út á vinnumarkaðinn sem sjúkraliðar. Hún fór m.a. yfir ábyrgð sjúkraliða í störfum sínum og hvernig hægt er að nýta þekkingu og færni að loknu námi með sem bestum hætti. Á fundinum sköpuðust líflegar umræður og nemendur nýttu vel tækifærið til að spyrja út í starfið og fengu góð og gagnleg svör sem vonandi nýtast þeim vel í starfi að námi loknu.

Námsmatsdagur fimmtudaginn 24.nóvember

Fimmtudaginn 24.nóvember er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag og skrifstofa skólans verður jafnframt lokuð.

Fyrirlestur Þorsteins og Sólborgar

Í hádeginu í dag fengu nemendur FÁ frábæran fyrirlestur frá Sólborgu Guðbrandsdóttur og Þorsteini V. Einarssyni. Sólborg heldur úti instagramreikningnum Fávitar og Þorsteinn heldur úti instagramreikningnum Karlmennskan.
Þau töluðu við nemendur um heilbrigð samskipti, mörk, muninn á jákvæðri og skaðlegri karlmennsku ofl. Markmiðið var að stuðla að uppbyggilegra jafnréttissamfélagi með því að hrista upp í viðteknum samfélagslegum normum og hugmyndum.
Vel var mætt á fyrirlesturinn og komu nemendur með áhugaverðar spurningar í lokin.
Við þökkum þeim Sólborgu og Þorsteini kærlega fyrir komuna.

Morðgáta í efnafræði !

Magnús skólameistari finnst myrtur í skólanum. Fimm starfsmenn liggja undir grun. Sara félagsfræðikennari, Þórhallur líffræðikennari, Monika stærðfræðikennari, Fannar kokkur og Kristrún aðstoðarskólameistari. Nemendur í EFNA2AM taka að sér að leysa málið með því að bregða sér í hlutverk réttarmeinafræðinga og beita efnafræðiþekkingu sinni á þeim vísbendingum sem finnast á vettvangi.

Tölvuleikjanemendur í heimsókn

Nemendur í áfanganum Tölvuleikir og leikjatölvur, saga, þróun og fræði í Fjölbrautaskólanum við Ármúla kíktu í heimsókn til Aldin Dynamics á dögunum og tóku meðal annars þátt í notendaprófunum í sýndarveruleika. Darri Arnarson hjá Aldin tók á móti hópnum og fræddi nemendur um þróun sýndarveruleika og fyrirtækið sem sérhæfir sig á því sviði. Að lokum fengu nemendur að taka þátt í notendaprófunum fyrir nýjustu uppfærsluna á Waltz of the Wizard, sem er sýndarveruleikaupplifun þar sem notendur fá að leika sér með galdra og töfra. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Waltz of the Wizard á heimasíðu Aldin Dynamics  

Hrönn námsráðgjafi fékk viðurkenningu

 

Hrönn Baldursdóttir náms- og starfsráðgjafi í FÁ hlaut í síðustu viku viðurkenningu frá Félagi náms- og starfsráðgjafa. Félagið veitir veitir árlega viðurkenningu til handa félagsmanni. Tilgangur slíkrar viðurkenningar er að vekja athygli á fagmennsku og nýsköpun í starfi náms- og starfsráðgjafa og framlagi einstakra félagsmanna til fags og stéttar. Framlag viðkomandi er metið mikils og eftir því tekið á meðal félagsfólks enda taka þeir þátt í að tilnefna til viðurkenningarinnar.

 

Hrönn Baldursdóttir náms- og starfsráðgjafi útskrifaðist árið 1999 frá Háskóla Íslands og hefur starfað í FÁ frá árinu 2008. Hrönn er frábær fyrirmynd á sínu fagsviði og mikill frumkvöðull í hagnýtingu þekkingar sem náms- og starfsráðgjafar búa yfir. Við erum heppin að hafa hana hér í FÁ og óskum við henni hjartanlega til hamingju.

 

 

Innritun á vorönn stendur yfir

 

Innritun vegna náms á vorönn 2023 stendur yfir til 30. nóvember. Á heimasíðu  skólans má finna allar upplýsingar um námið s.s. áfanga og brautir.

Innritun fer fram á Menntagátt.

 

2000s ball 16.nóvember

2000s ball FÁ verður haldið í Gamla bíó í sam­vinnu við nem­enda­félög Borg­ar­holts­skóla og Tækniskólans miðvikudaginn 16.nóvember næst­kom­andi.

Húsið opnar kl. 22:00 og verður gestum ekki hleypt inn eftir kl. 23:00. Ballinu lýkur svo kl. 01:00.

Fram koma

DJ Dóra Júlía

Daniil

Gugusar

Club Dub

Selma Björns

Páll Óskar

 

Miðasala

Miðasala er hafin fyrir nemendur í FÁ, Tækniskólanum og Borgarholtsskóla.

Fyrsta sól­ar­hringinn geta ein­göngu nemendur í skólunum þremur keypt miða.

Miðasala fyrir gesti utan skólanna sem halda ballið opnar svo kl. 10:00 þriðjudaginn 8.nóvember.

Miðaverð er 4.000 kr. fyrir innanskólanema (nem­endur í Tæknó, Borgó eða FÁ) en 5.000 kr. fyrir aðra gesti.

 

Opið hús hjá sérnámsbrautinni

Það var heldur betur fjör þegar sérnámsbrautin var með opið hús á miðvikudaginn síðasta, 2.nóvember. Þar var öllu tjaldað til, frábærar veitingar, pizza og popp, söngur, dans og gleði. Gamlir nemendur kíktu í heimsókn og fengu góðar viðtökur.

Heimsókn nemenda í hagfræði í Nasdaq kauphöllina

Nemendur FÁ hringdu jólunum inn snemma í ár með heimsókn sinni í íslensku kauphöllina, Nasdaq Nordic. Magnús Harðarson, forstjóri kauphallarinnar tók vel á móti nemendum og kynnti starf kauphallarinnar og fór yfir hvernig verðbréfamarkaðurinn á Íslandi gengur fyrir sig. Fyrir utan að segja nemendum frá hvernig hlutirnir gerast á eyrinni, var boðið upp á ljúffengar veitingar. Í lok heimsóknarinnar var nemendum boðið upp á að hringja hinni frægu bjöllu kauphallarinnar, eins og sést á meðfylgjandi mynd.