Útskrift haustönn 2019
Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði í dag 106 nemendur og þar af útskrifuðust 8 nemendur af tveimur brautum. 13 nemendur útskrifuðust af heilbrigðissviði, sem skiptust svo eftir námsbrautum: Sjö útskrifuðust sem heilsunuddarar, einn sem læknaritari, einn sem lyfjatæknir og fjórir sem sjúkraliðar.
Frá nýsköpunar- og listabraut útskrifuðust sex nemendur og stúdentar voru 86 talsins. 43 útskrifuðust af félagsfræðibraut, af náttúrufræðibraut útskrifuðust 13, af hugvísinda- og málabraut sex, af viðskipta- og hagfræðibraut útskrifuðust einnig sex og með viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi útskrifuðust 19.
Dúx skólans er Stefaniya Ogurtsova sem útskrifaðist af náttúrufræðibraut með meðaleinkunnina 8,71. Eftirfarandi nemendur fengu einnig viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur: Ebba Egilsdóttir fyrir nám sitt á nýsköpunar- og listabraut, Harpa Rós Jónsdóttir fyrir lokaverkefni sitt á sjúkraliðabraut, Hólmfríður Hilmarsdóttir fyrir árangur sinn í nuddgreinum, Rannveig Schram fyrir bæði spænsku og félagsgreinar, Arnar Sigurðsson fyrir stærðfræði og Stefania Ogurtsova fyrir þýsku.
Í ræðu sinni fjallaði Magnús Ingvason, skólameistari FÁ, m.a. um nýlega PISA-könnun og nefndi að enn og aftur væru íslensk ungmenni töluð niður í fjölmiðlum og netheimum. Árangurinn mætti vissulega bæta og ýmis úrræði af hálfu menntamálayfirvalda hafi verið kynnt. Vonandi muni þau úrræði efla íslensk ungmenni, en árangurinn kæmi eflaust ekki í ljós fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Að lokum hvatti skólameistari nemendur til að lifa lífi sem veitti þeim vellíðan og gleði, en ekki lífi sem bara liti vel út.
Þrír útskriftarnemar fluttu kveðjuávörp; þær Najmo Fiyasko Finnbogadóttir, Saga Karítas Björnsdóttir og Margrét Guðlaug Jónsdóttir. Tónlistarflutningur við athöfnina var í höndum tveggja hæfileikraríka nemenda tónlistaráfanga skólans, og athöfninni lauk með hátíðlegum samsöng allra viðstaddra á jólasálminum Heims um ból.