Brautskráning haustönn 2021

Fjölbrautaskólinn við Ármúla útskrifaði í dag 71 nemanda af 12 brautum. Af heilbrigðissviði útskrifuðust 22 nemendur, 3 nemendur af nýsköpunar- og listabraut og svo 52 stúdentar af 5 brautum.

Dúx skólans er Ngan Hieu Nguyen Dang sem útskrifaðist af viðskiptabraut með meðaleinkunnina 9.0

Magnús Ingvason skólameistari og Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari fluttu ávörp og fóru yfir liðna önn.

Jasmín Ragnarsdóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftanema og Guðrún Edda Bjarnadóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema Heilbrigðisskólans.

Tónlistarflutningur við athöfnina var í höndum nemenda í tónlistaráfanga skólans undir stjórn Lilju Daggar Gunnarsdóttur og lauk athöfninni með hátíðlegum samsöng allra viðstaddra á jólasálminum Heims um ból.

Við óskum útskriftarnemum til hamingju með áfangann og bjarta framtíð.

Fleiri myndir má sjá hér á Facebook síðu skólans.

Gettu Betur 2022

Gettu betur lið Fjölbrautaskólans við Ármúla er á fullu að æfa fyrir komandi keppni sem hefst í byrjun janúar. Í Gettu betur liði FÁ þetta árið eru þau Aníta Harðardóttir, Pétur Bjarni Sigurðsson og Þráinn Ásbjarnarson sem hefur verið í liðinu undanfarin tvö ár. Varamaður er Árbjörg Sunna Markúsdóttir. Undanfarin ár hefur FÁ verið í mikilli sókn í Gettu betur og náði skólinn t.d. í undanúrslit árið 2020 og í 8 liða úrslit árið 2021. FÁ mætir Menntaskólanum á Ásbrú í fyrstu umferð keppninnar sem fer fram 11.janúar. 

Við óskum þeim góðs gengis í undirbúningnum og keppninni.

Útskrift 17.desember

 

Útskrift Fjölbrautskólans við Ármúla á haustönn 2021 mun fara fram í hátíðarsal skólans, föstudaginn 17.desember kl. 13.00.

Æfing fyrir útskrift verður fimmtudaginn 16.desember kl. 16.

Vegna sóttvarnartakmarkana þurfa allir nemendur og sem mæta til útskriftar og gestir þeirra að sýna neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi. Prófið má ekki vera eldra en 48 klst.

Við brýnum fyrir öllum að mæta tímanlega þar sem það getur tekið tíma að fara yfir niðurstöðu hraðprófa.

Sjáumst í hátíðarskapi á föstudaginn.

 

 

Annarlok

Senn líður að ann­ar­lokum og viljum við því minna ykkur á nokkur mik­ilvæg atriði.

Síðasti kennslu­dagur er 10. des­ember en nánari upp­lýs­ingar um skipulag hvers áfanga má finna á Innu.

15. desember – Einkunnir birtast í Innu

15. desember– Upptökupróf fyrir útskriftarefni kl. 9:00.

15.desember - Viðtöl vegna námsmats kl. 12:00 – 13:00.

15.desember - Dimission

16.desember - Æfing fyrir útskrift kl. 16:00

17. desember – Útskrift í hátíðarsal skólans kl. 13:00.

Nám á næstu önn - Allir nem­endur sem halda áfram námi á næstu önn eiga að vera búnir að velja. Greiðsluseðlar verða sendir út eftir útskrift.

Gangi ykkur sem allra best á loka­sprett­inum.

Jólapeysudagur

Í dag var jólapeysudagur í FÁ þar sem nemendur og starfsfólk klæddust litríkum og skemmtilegum jólapeysum. Fjölbreytnin var mikil og var þetta mjög skemmtilegt uppbrot á venjulegum degi. Í hádeginu gengu svo jólaálfar og jólasveinn um skólann og gáfu nemendum og starfsfólki nammi við góðar undirtektir.

Hægt er að sjá fleiri myndir á Facebook síðu skólans.