Fjarnám - skráning stendur yfir

Skráningu í fjarnám við FÁ stendur fram til þriðja september en sjálf önnin hefst þann tíuna.Fjarnám er góður kostur fyrir þá sem ekki eiga auðveldlega heimangengt á daginn en geta notað kyrrð og ró heimilisins til þess að lesa og læra, hvort sem þeir halda heimili á jörðinni eða tunglinu. Eins og áður eru fjölmargir áfangar í boði. Kannið möguleikana hér síðunnni og smellið á FJARNÁM -tengilinn hér að ofan.

Nýnemadagur - matur alfreskó

Í dag, 29. ágúst, er höfuðdagur. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn. Sú þjóðtrú hefur lifað lengi að veður breytist á höfuðdag og haldist þannig næstu þrjár vikur. Í dag er jafnframt NÝNEMADAGUR sem stendur okkur nær. Í öðrum tíma verða nemendur sóttir í kennslustund og þeir boðnir velkomnir í skólann, allt verður á glöðu nótunum, enginn magadans samt og enginn mun láta höfuðið heldur ætlar Nemendaráð að bjóða upp á hádegismat í góða veðrinu og að honum loknum mega nýnemar halda heim og bera vonandi höfuðið hátt.

Lestin brunar

Nú er skólastarfið að komast á fullt skrið eins og járnbrautarlest sem bifast hægt af stað frá brautarpalli 3 1/4 en bráðum verður hraðinn svo mikill að ekki er hægt að greina landslagið út um gluggann. Þeir sem vilja sjá hvernig landslagið lítur út fyrir utan lestargluggann gerðu vel í að drífa sig í áfangana ÍÞRÓ1FJO1 sem er fjallganga og útivist eða í ÍÞRÓ1HJO1 - hjólað í skólann...ekkert er betra en holl og góð hreyfing og ferskt útiloft.

Nýtt skólaár - velkomin í FÁ

Á morgun, fimmtudaginn, 16. ágúst, klukkan 13 er fundur með nýnemum sem eru að koma beint úr grunnskóla.

Fundur með eldri nemendum sem eru að hefja nám við skólann verður sama dag klukkan 14.

Töflubreytingar fara fram frá kl. 13-16 á morgun fimmtudag og frá kl. 9-14 á föstudag. Einnig er hægt að senda póst á netfangið toflubreytingar@fa.is.