Aflétting takmarkana
Ágætu nemendur.
Eins og flest ykkar hafið eflaust tekið eftir, þá var öllum sóttvarnareglum aflétt í nótt, aðfararnótt föstudagsins 25. febrúar. Grímuskyldu verður aflétt svo og nándarreglu sem hefur verið í gildi. Með þessu lýkur vonandi tveggja ára tímabili sem covid 19 hefur herjað á okkur.
Við skulum þó samt sem áður fara varlega næstu daga og vikur og hver og einn þarf áfram að sinna sínum persónulegu sóttvörnum. Það síðasta sem við viljum er að veiran blossi upp með þeim afleiðingum að aftur yrðu settar einhvers konar takmarkanir.
Ég vil þakka nemendum skólans og starfsmönnum fyrir að taka virkan þátt í sóttvörnum undanfarin tvö ár. Þetta hefur sannarlega ekki verið auðveldur tími, en héðan í frá getum við aftur tekið upp eðlilegt líf og vonandi verður það gott líf.
Veiran hefur haft þau áhrif að fjölmargir kennslutímar hafa fallið niður auk þess sem mjög margir nemendur hafa verið frá vegna veikinda. Ég skora á alla nemendur til að sinna náminu af fullum krafti það sem eftir er annar.
Ég vonast sem sagt eftir eðlilegu og góðu skólastarfi frá og með næstu viku og vonandi verður hægt að efla félagslíf nemenda í kjölfarið.
Kveðja.
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ