Aflétting takmarkana

Ágætu nemendur.

Eins og flest ykkar hafið eflaust tekið eftir, þá var öllum sóttvarnareglum aflétt í nótt, aðfararnótt föstudagsins 25. febrúar. Grímuskyldu verður aflétt svo og nándarreglu sem hefur verið í gildi. Með þessu lýkur vonandi tveggja ára tímabili sem covid 19 hefur herjað á okkur.

Við skulum þó samt sem áður fara varlega næstu daga og vikur og hver og einn þarf áfram að sinna sínum persónulegu sóttvörnum. Það síðasta sem við viljum er að veiran blossi upp með þeim afleiðingum að aftur yrðu settar einhvers konar takmarkanir.

Ég vil þakka nemendum skólans og starfsmönnum fyrir að taka virkan þátt í sóttvörnum undanfarin tvö ár. Þetta hefur sannarlega ekki verið auðveldur tími, en héðan í frá getum við aftur tekið upp eðlilegt líf og vonandi verður það gott líf.

Veiran hefur haft þau áhrif að fjölmargir kennslutímar hafa fallið niður auk þess sem mjög margir nemendur hafa verið frá vegna veikinda. Ég skora á alla nemendur til að sinna náminu af fullum krafti það sem eftir er annar.

Ég vonast sem sagt eftir eðlilegu og góðu skólastarfi frá og með næstu viku og vonandi verður hægt að efla félagslíf nemenda í kjölfarið.

Kveðja.
Magnús Ingvason
Skólameistari FÁ

FÁ sigraði Lífshlaupið

Lífshlaupið er þjóðarátak í hreyfingu þar sem skólar, vinnustaðir og einstaklingar etja kappi um sem mesta hreyfingu yfir ákveðið tímabil í febrúar. FÁ vann flokkinn "framhaldsskóli með 400-999 nemendur". Vel gert FÁ !
Þær Melkorka Rut Sigurðardóttir og Anna Zhu Ragnarsdóttir tóku á móti verðlaununum fyrir hönd skólans í dag.

Val fyrir haustönn 2022

 

Val fyrir haustönn 2022 stendur nú yfir og verður opið til 8.apríl. Með vali staðfestir þú umsókn þína um skólavist á næstu önn. Nánari upplýsingar hér.

 

Árleg skautaferð

Það var líf og fjör í Skautahöllinni í gær þegar nemendur FÁ skelltu sér á skauta. Sú hefð hefur skapast í skólanum að fara á skauta einu sinni á skólaári við góðar undirtektir nemenda. Hér er hægt að sjá fleiri myndir af skautaferðinni.

Umhverfisdagar FÁ 2022

 

Umhverfisdagar FÁ verða haldnir miðvikudaginn 23.febrúar og fimmtudaginn 24.febrúar. Við fáum skemmtilega fyrirlestra.

Á miðvikudaginn kemur Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og verður með fyrirlestur í fyrirlestrarsal kl. 12.00 - 12.30. Svo verður kahoot með umhverfisívafi í hádeginu.

Á fimmtudaginn kemur Vigdís frá Landvernd og verður með erindið „Tökum umhverfismálin í okkar hendur“ í fyrirlestrarsal klukkan 12-12:30.

Eingöngu veganréttir verða í boði í matsal þessa daga.

Nemendur í umhverfisráði standa fyrir umhverfisfróðleik á veggjum og vonandi sitthvað fleira í pokahorninu.

 

 

Flutningur á Microsoft skýjaþjónustu FÁ yfir í Menntaskýið

Föstudaginn 18. febrúar mun Fjölbrautaskólinn við Ármúla flytja Microsoft skýjaþjónustur sínar yfir í Menntaskýið.

Menntaskýið er verkefni á vegum íslenska ríkisins þar sem Microsoft hugbúnaður er sameinaður í eina miðlæga einingu.

Innleiðing á þessu verkefni hefst kl. 16:00 föstudaginn 18. febrúar og þá verður lokað á innskráningar í Microsoft skýjaþjónustu FÁ og Moodle. Innleiðingunni lýkur mánudaginn 21. febrúar.

Undir skýjaþjónustu fellur tölvupóstur, Teams, Stream o.s.frv.

Nánari upplýsingar um það sem starfsfólk og nemendur þurfa að hafa í huga er að finna hér: Upplýsingar

Námsmatsdagur miðvikudaginn 9.febrúar

Miðvikudaginn 9.febrúar er námsmatsdagur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Skólinn verður opinn en engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag. Skrifstofa skólans verður lokuð en mötuneytið verður opið.

Kennsla fellur niður mánudaginn 7.febrúar

Ágætu nemendur.

Vegna vonskuveðurs sem spáð er í nótt og á morgun, þá fellur öll kennsla við Fjölbrautaskólann við Ármúla niður á morgun, mánudaginn 7. febrúar. Hvorki verður staðkennsla í skólanum né kennt á Teams. Við vonumst til að sjá alla nemendur aftur í skólanum á þriðjudag.

Hægt er að ná sambandi við skrifstofu skólans á netfanginu skrifstofa@fa.is.

Kveðja.

Magnús Ingvason

Skólameistari FÁ

Heilsudagar FÁ 2.-15.febrúar

 2.-15.febrúar fara fram heilsudagar í FÁ samhliða Lífshlaupinu. Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ og er markmið þess að hvetja sem flesta til að hreyfa sig meira.

FÁ hefur gengið vel í Lífshlaupinu undanfarin ár og hefur sigrað sinn flokk, framhaldsskólar með 400-999 nemendur.

Nemendur eru hvattir til að skrá sig og auka við hreyfingu í sínu daglega lífi.

Dagskrá heilsudaga:

  • Daglegir heilsumolar verða á samfélagsmiðlum skólans á meðan átakinu stendur.  Fylgist með á instagramsíðu skólans.

  • Veglegir heilsuvinningar verða dregnir út á meðal þátttakenda.

  • Beggi Ólafs kemur og verður með fyrirlesturinn; Betri í dag en í gær, þriðjudaginn 8.febrúar kl. 11.30. Fyrirlestrinum verður streymt í stofur.

  • Skautaferð fyrir nemendur verður mánudaginn 14.febrúar. Fyrri hópur fer kl. 11:30 – 12:10 og seinni hópurinn kl. 12:15 – 12:55.

Skráning í Lífshlaupið:

https://lifshlaupid.is/

Veldu valkostinn Mínar síður og Nýskráningu til að skrá þig í fyrsta skipti.

Veldu Liðin mín og Ganga í lið.

Veldu Framhaldsskólakeppni, Fjölbrautaskólann við Ármúla og svo liðið okkar, Ármúlinn - nemendur, eða stofna nýtt lið :)

Núna ertu tilbúinn til að skrá ferðir þínar.

Skrá má alla miðlungs erfiða eða erfiða hreyfingu sem stunduð er utan vinnutíma. Til þess að fá einn dag skráðan þarf að hreyfa sig að lágmarki í 30 mínútur sem skipta má upp í nokkur skipti yfir daginn, t.d. 10 - 15 mínútur í senn. Mikilvægt að allir skrái sína hreyfingu svo skólinn safni sem flestum stigum.

Nú er einnig hægt að ná í Lífshlaups-appið, sem einfaldar skráningar á hreyfingu á meðan Lífshlaupið stendur yfir. Þar er einnig hægt að færa inn hreyfingu úr Strava. Hér kemur linkurinn:

https://lifshlaupid.is/lifshlaupid/frettir/frett/2022/01/07/Lifshlaupsapp-sem-einfaldar-skraningar-a-hreyfingu