A Green Day verkefnið

  Hópur frá skólanum IES Tegueste á Spáni kom í heimsókn í FÁ dagana 15. – 19. apríl en skólinn er samstarfsskóli okkar í Erasmus+ verkefninu A Green Day sem er umhverfismiðað verkefni. Fimm nemendur og þrír kennarar sóttu FÁ heim og þessa viku sem þau voru í heimsókn hjá okkur hjálpuðu nemendur FÁ þeim að útbúa handbók um Grænfánann, alþjóðlega umhverfisviðurkenningu sem á ensku kallast Eco- Schools. FÁ er sá framhaldsskóli á Íslandi sem hefur lengst flaggað grænfánanum og nemendur okkar því vel í stakk búnir að aðstoða við gerð handbókarinnar. Ásamt því að vinna að handbókinni fóru gestirnir ásamt gestgjöfunum Gullna hringinn og á náttúrusýninguna í Perlunni. Spánverjarnir voru „heppnir“ með veður en eins og tíðkast í apríl á Íslandi var allra veðra von og þau fengu allt frá snjókomu yfir í glampandi sól og aðspurð sögðu þau að það hefði verið einn af hápunktunum, að geta farið í snjókast í apríl.   Í nóvember fer sami hópur og tók á móti gestunum hér heima út í heimsókn til IES Tegueste sem er staðsettur norðanmegin á eynni Tenerife. Þar munu nemendur okkar læra að reikna kolefnissporið sitt og halda áfram að styrkja tengslin við þennan frábæra vinaskóla.    

Gleðilegt sumar

 Sumardagurinn fyrsti er á morgun, fimmtudaginn 25.apríl og þá er að sjálfsögðu frí.

Föstudaginn 26. apríl er námsmatsdagur. Engin formleg starfsemi verður í skólanum þennan dag og verður skrifstofa skólans jafnframt lokuð.

Við óskum öllum gleðilegs sumars.

FÁ á Vörumessu

 Vörumessa á vegum JA Iceland var haldin í Smáralindinni núna um helgina þar sem nemendur frá framhaldsskólum landsins tóku þátt í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem er nýsköpunarkeppni framhaldsskólanna.

Nemendur í frumkvöðlafræði og nýsköpunaráfanga á viðskipta- og hagfræðibraut Fjölbrautaskólans við Ármúla undir leiðsögn Róberts Örvars Ferdinandssonar kennara tóku þátt í sýningunni og kynntu vörur sínar sem vakti athygli og áhuga gesta í Smáralindinni.

FÁ var með 5 nýsköpunarfyrirtæki að þessu sinni sem voru fjölbreytt og skemmtileg. BT þjónusta býður upp heimilis þjónustu fyrir aldurshópinn 50-60 ára. Fish Flakes þróuðu fiskisnakk úr uggum. Nóti ákvað að endurnýta nylon fiskinet og sauma margnota poka. Styrkur ákvað að styrkja björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík með því að selja áletraða bolla. Æskjur bjó til heimagerður brjóstsykur með mismunandi bragðtegundum til að vekja upp minningar um æskuárin á Íslandi.

 

Heimsóttu Kvikmyndasafn Íslands

Sérfræðingar Kvikmyndasafns Íslands tóku vel á móti nemendum í Sjónvarpsþáttagerð (KVMG2SJ05) og Kvikmyndafræði (KFRT2KF05). Í heimsókninni fræddust nemendur um hlutverk safnsins og mikilvægi þess að varðveita myndefni. Hópurinn fékk einnig leiðsögn um safnið þar sem græjur til kvikmyndagerðar voru skoðaðar, gamlar sýningarvélar, filmur, veggspjöld og vel kældar filmugeymslur.

Leiksýning í FÁ - Fólk er furðulegt

Í Fjölbrautaskólanum við Ármúla er boðið upp á leiklistaráfanga í vali, leiklist að hausti og leiksýning að vori. Það er öllum nemendum í skólanum frjálst að velja þess áfanga. Vikuna fyrir páskafrí sýndu nemendur í leiksýningaráfanganum afrakstur annarinnar en það var stórglæsileg leiksýning sem bar nafnið “Fólk er furðulegt”. Hópurinn sýndi verkið þrisvar sinnum í hátíðarsal skólans undir stjórn kennarans Sumarliða Snælands Ingimarssonar. Nemendur sáu um allt er kom að sýningunni. Nemendur af listabraut sáu um leikmynd og leikmuni, nemendur í fatahönnum sáu um búningana og nemendur í tónlistaráfanganum sáu um tónlistina í sýningunni. Algjörlega frábært samstarf á milli áfanga.

Fólk er furðulegt er samsett af þremur eftir verkum eftir leikskáldin David Ives (Time Flies, 1997 & Sure Thing, 1988) og Christopher Durang (DMV Tyrant, 1988). Öll eru þetta verk sem svipar til svokallaðra „sketcha“ eða stuttra gamanleikja þar sem viðfangsefnið í hverju þeirra er samskipti. Í því fyrsta veltir Ives fyrir sér tilveru dægurflugunnar en líkt og nafnið gefur til kynna lifir hún eingöngu í einn dag. Í því öðru fáum við að sjá hvernig tveir einstaklingar reyna að finna sálufélaga hvort í öðru í nokkurs konar Groundhog Day aðstæðum. Í því þriðja fáum við að kynnast stofnanaskrifræðinu sem oft getur tekið á taugarnar. Tónlistin í verkinu endurspeglar svo þema hvers verks fyrir sig og rammar það að lokum inn með lagi eftir bandarísku rokkhljómsveitina The Doors.

Til hamingju með frábæra sýningu!