Velkomin aftur

Nú er löngu páskafríi lokið og skólastarf hefst að nýju. Það er um að gera að nota þá fáu daga sem eftir eru til þess að undirbúa sig fyrir prófin sem hefjast þegar þann 13. maí, en síðasti kennsludagur er þann 10. Það eru því ekki margir dagar framundan til þess að reka smiðshöggið á önnina. Um að gera að nota þá daga vel. Á föstudaginn kemur verður dimission, einn árgangur að kveðja en nýr kemur í hans stað. Þannig er hringrás daganna, þeir koma og fara með ógnarhraða eins og borðtenniskúla í hörkuleik.

Gleðilega páska

Nú er kyrrð og nú er friður yfir skólanum enda komið páskafrí og allir vel að því komnir. Önnin hefur verið löng, en vonandi ekki of strembin. Eftir páska tekur svo við lokaleikurinn og vonandi endar hann vel hjá öllum.
Frá og með 15. apríl fram til 29. apríl verður skrifstofa FÁ lokuð. Gleðilega páska, öllsömul.

Nú er kátt í höllinni!

Í dag lýkur Alþjóðaviku FÁ og af því tilefni er blásið til heljarinnar veislu. Það verður söngur, gleði, dans og tónlist að ógleymdum mat frá ýmsum heimshornum sem nokkrir veitingastaðir ætla að elda handa okkur - ókeypis. 
Engin veisla án góðra gesta. Eliza forsetafrú ætlar að heiðra samkomuna og einnig okkar fyrrverandi nemandi Sanna borgarfulltrúi og Tanja frá deCODE, allt konur sem hafa náð langt á sínu sviði. Ekki má gleyma því að fjölmiðlar verða á staðnum og því um að gera að koma vel greiddur og sætur í skólann. 
Veislan byrjar á slaginu tólf og vonandi sjá allir sér fært að taka þátt í gleðinni. FÁ er skóli fjölbreytileikans!

Alþjóðavika í FÁ 8.-11. apríl

FÁ er kominn í alþjóðlegan búning fyrir Alþjóðavikuna sem hefst í dag en tilgangur vikunnar er að beina ljósinu á stöðu erlendra nema og hversu fallega fjölbreyttur skólinn er. Alþjóðlega nemendaráðið hvetur starfsfólk til að taka þátt í dagskránni sem er bæði fróðleg og skemmtileg. Í dag, mánudag - kl. 12:30 í fyrirlestrasal, ætlar Hildur Björgvinsdóttir, framkvæmdastýra SÍF að kynna stöðu erlendra nema á Íslandi.....sjá nánar hér.

Fyrirtækjasmiða ungra frumkvöðla

Á morgun föstudag 5. apríl og laugardaginn 6. apríl, munu um 550 ungir frumkvöðlar frá 13 framhaldsskólum kynna og selja vörur sínar á Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralindinni. Alls eru þarna á ferðinni 120 nýstofnuð fyrirtæki og þar af eru fjögur þeirra stofnuð í skólanum okkar. Það verður gaman að mæta í Smáralindina um helgina og sjá hverju nemendur okkar hafa fundið upp á í þessum málum. Frumkvæði, frumleiki, sköpun, ....