Skólinn fær 1. Græna skrefið

Í gær fékk skólinn afhenta viðurkenningu fyrir að hafa lokið við 1. Græna skrefið, en skrefin sex eru fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Umhverfismálin eru ekki ný af nálinni í FÁ en skólinn var til að mynda fyrsti framhaldsskólinn til að hljóta Grænfánann og það árið 2006. Hugað er að umhverfinu í bæði rekstri og kennslu og hefur skólinn sett sér sjálfbærnistefnu og metnaðarfulla aðgerðaáætlun, umhverfisstefnu og samgöngustefnu. Sjálfbærninefnd og umhverfisráð skólans skipa fulltrúar starfsfólks og nemenda. Umhverfisfræði er kennd í vali en til stendur að gera hana að skyldufagi. Á hverju vori er umhverfisvika þar sem t.d. hafa verið fengnir fyrirlesarar eru til að fjalla um umhverfismál, markaður með umhverfisvænum vörum verið settur upp og notuð föt seld og ágóðinn gefinn til Votlendissjóðs.

Brautskráning vorið 2020

Í dag útskrifaðist 131 nemandi, þar af 12 af tveimur brautum, frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Vegna aðstæðna í samfélaginu var útskrifað í tveimur hlutum; af heilbrigðisgreinum, Lista- og nýsköpunardeild og viðbótarnámi til stúdentprófs fyrripart dags, og bóknámsgreinum seinnipartinn. 73 nemendur útskrifuðust af bóknámsbrautum, 35 af heilbrigðisbrautum, 23 úr viðbótarnámi til stúdentsprófs og 3 af Lista- og nýsköpunarbraut.

Salóme Pálsdóttir, nýstúdent af Íþrótta- og heilbrigðisbraut, varð þetta vorið dúx skólans á stúdentsprófi. Viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í verknámi tanntækna fengu þær Arna Katrín Kristinsdóttir og Ruth Rúnarsdóttir, og Eva Dögg Halldórsdóttir fyrir framúrskarandi árangur á Nýsköpunar- og listabraut. Íris Sævarsdóttir og Guðrún Telma Þorkelsdóttir fluttu falleg kveðjuávörp fyrir hönd útskriftarhópanna. Tveir starfsmenn skólans voru kvaddir eftir farsælt starf; Ingibjörg B. Haraldsdóttir, sérnámskennari, og Guðrún Hildur Ragnarsdóttir, kennslustjóri sjúkraliðabrautar.

Magnús Ingvason, skólameistari, og Kristrún Birgisdóttir, aðstoðarskólameistari, fluttu ávörp; Alex Ford og Guðmundur Elí Jóhannsson fluttu tónlistaratriði og Lilja Dögg, tónlistarkennari skólans, leiddi samsöng í lok athafna.

Til hamingju útskriftarnemar!

Brautskráningu streymt

Á morgun, 26. maí, fer fram brautskráning í tvennu lagi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Kl. 13:00 útskrifast nemendur af Nýsköpunar- og listabraut, og frá Heilbrigðisskólanum. Nýstúdentar af Hugvísindabraut, Félagsfræðabraut, Náttúrufræðibraut, Íþrótta- og heilbrigðisbraut og Viðskipta- og hagfræðibraut útskrifast svo kl. 15:00. Vegna aðstæðna í samfélaginu verður útskrifarnemum því miður ekki heimilt að bjóða með sér fleiri en tveimur gestum en báðum athöfnum verður streymt HÉR svo stoltir ástvinir þurfi ekki að missa af þessum merku tímamótum.

Útskrift af sérnámsbraut

Í dag útskrifuðust 7 nemendur af sérnámsbraut FÁ og hlaut einn þeirra, Arnar Ingi Gunnarsson, sérstaka viðurkenningu fyrir góða ástundun í námi. Pálmi Vilhjálmsson, kennslustjóri sérnámsdeildar, og Magnús Ingvason, skólameistari, afhentu prófskírteinin og leiddu svo fjöldasöng ásamt útskriftarnemanum Helenu Halldórsdóttur. Þá flutti Kristrún Birgisdóttir, aðstoðarskólameistari, ávarp og þau Hrafnhildur Magnea Ingólfsdóttir og Reynir Snær Magnússon, fyrrum starfsmaður sérnámsbrautar, fluttu tvö falleg lög. Loks var útskriftarnemunum og gestum þeirra boðið til kaffisamsætis í skólanum.

 

Skráning í sumarönn fjarnáms

Á morgun, 22. maí, hefst skráning í sumarönn fjarnáms við FÁ og stendur innritun til 4. júní. Skráðu þig hér. Önnin hefst svo 9. júní.

Hér má sjá alla áfanga sem bjóðast í fjarnámi, skrifaðu SUMAR undir flipann "í boði" til að sjá eingöngu þá 56 áfanga sem kenndir verða í sumar.

Lestu þér frekar til um fjarnámið við FÁ hér.

Verðlaunaafhending Landverndar

Í dag veitti Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri Landverndar, Ásdísi Rós Þórisdóttur viðurkenningarskjal og verðlaun fyrir 2. sætið í samkeppninni "Ungt umhverfisfréttafólk". Verðlaunin voru ekki af síðri endanum - gjafabréf í FlyOverIceland, Berserk axarkast, Vistveru, Rauða kross búðirnar og Pixel.

Seinna í maí verður rafræn sýning á öllum ljósmyndaverkefnum FÁ-nemenda sem tóku þátt í þessari glæsilegu samkeppni. Verðlaunamynd Ásdísar, Congratulations humanity, mun svo keppa í Alþjóðakeppninni "Young Reporters for the Environment".

Ungir frumkvöðlar

Tvö nemendalið frá Ármúla náðu í 25 liða úrslit (af þeim 109 sem kepptu) í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla í ár. Fyrirtækin unnu bæði með umhverfisverndarvinkil og ljóst að nemendur FÁ eru sannarlega umhverfismeðvitað fólk!

Þau Abraham, Berglind, Hlynur, Kim og Tristan skipa fyrirtækið Blika sem framleiðir regnkápur, töskur og fleira úr endurnýttu efni á borð við ónýta segla og sjómannafatnað.

Karpúl er forrit þar sem fólk getur safnast saman í bíla á ferðum til og frá skóla og vinnu, en fyrirtækið skipa þau Bryndís, Hildur, Íris, Viktor Ernir og Viktor Karl.

Congratulations humanity

FÁ-nemandinn Ásdís Rós Þórisdóttir hreppti í dag 2. sæti í samkeppni Landverndar, Ungt umhverfisfréttafólk!

Fjörutíu nemendaverkefni bárust keppninni en dómnefndin telur ljósmynd Ásdísar, „Congratulations humanity“, listaverk sem veki áhorfandann sannarlega til umhugsunar. Myndin segi meira en þúsund orð og hitti okkur neytendur, sem erum fastir í viðjum umbúðasamfélagsins, beint í hjartastað. Þá sé ljósmyndin sterk gagnrýni á stórfyrirtæki og hvernig þau standi fyrir umhverfisskaðandi iðnaði um allan heim.

Að auki var ljósmynd Ásdísar valin besta verkefnið af ungu fólki (Ungum umhverfissinnum, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtökum íslenskra stúdenta) sem hafði þetta að segja um myndina: „Kakan segir okkur með kalhæðni og húmor hvernig okkar hversdagslega neysluhegðun kemur verst niður á okkur sjálfum.“.

Til hamingju Ásdís með frábært verkefni og verðskuldaða viðurkenningu!

Rafræn heimapróf - Online exams

Varðandi vorprófin / regarding final exams - english below

Vorprófin ì ár verða með öðru sniði en venjulega vegna covid-19. Öll lokapróf verða rafræn heimapróf og haldin innan stundaskrár á dögunum 4.-15. maí. Prófað verður í tvöföldum tíma þess áfanga sem prófið er ì. Athugið þó að alls ekki allir áfangar munu hafa lokapróf.

Tímasetning og aðrar upplýsingar um lokapróf annarinnar er að finna á moodle og í skilaboðum frá kennurum. Einkunnir á Innu hafa nù verið lokaðar nemendum vegna námsmats yfir prófatímann.

Munið að tekið verður jafn hart á svindli ì þessum heimaprófum og öðrum prófum ì skólanum!

Sumarkveðja 2020

Starfsfólk FÁ óskar sínum kæru nemendum gleðilegs sumars og sendir þeim baràttukveðjur á lokaspretti annarinnar!