Skuggakosningar

Í þessari viku er lýðræðisvika og þá fara fram Skuggakosningar í framhaldsskólum landsins og að sjálfsögðu tökum við í FÁ þátt. Á morgun miðvikudaginn 20. nóvember verða umræður í fyrirlestrarsal með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til alþingiskosninga 30. nóv. Umræðurnar byrja kl. 11:30 og standa til kl. 12:30. Markmiðið er að skapa stemningu og fylla salinn. Spurningar frá nemendum velkomnar. Fimmtudaginn 21. nóvember verða Skuggakosningarnar sjálfar á Steypunni frá kl. 9:00 - 14:10. Á kjörskrá eru: „nemendur (í dagskóla) sem fæddir eru 26. september 2003 og síðar (þeir sem ekki höfðu náð kosningaaldri í alþingiskosningunum 25. september 2021).“ Með öðrum orðum elsti kjósandi á kjörskrá varð 21 árs 26. september sl. Hann og ALLIR yngri hafa kosningarétt. Öll eru hvött til að kjósa!

Fréttabréf FÁ - nóvember

Hér kemur nýjasta fréttabréf FÁ fyrir nóvember og desember. Fjölbreytt efni að vanda, farið er yfir það helsta sem er á döfinni og hvað við erum búin að gera í skólanum undanfarnar vikur. Næsta fréttabréf kemur út í byrjun næstu annar.

Nemendur í leikjahönnun heimsóttu CCP

Starfsfólk CCP tók vel á móti nemendum Fjölbrautaskólans við Ármúla í áfanganum Leikjahönnun (TÖHÖ2LH05). Nemendur fengu kynningu á fyrirtækinu, tölvuleikjum þess og starfsmöguleikum innan tölvuleikjageirans. CCP er stærsta tölvuleikjafyrirtækið á Íslandi með yfir 400 starfsmenn í fjölbreyttum störfum á Íslandi, Bretlandi og í Kína. Fjölspilunarleikurinn EVE Online er stærsti leikurinn þeirra en nýverið gaf fyrirtækið út símaleikinn EVE Galaxy Conquest og er með fleiri leiki í bígerð.

Vel heppnað fótboltamót FÁ á móti FB

Nemendur í FÁ tóku þátt í stórskemmtilegu fótboltamóti sem skipulagt var af nemendaráðum FB og FÁ. Skólarnir tveir kepptu í flokkunum strákar, stelpur og stjórnir nemendafélaga. FÁ sigraði einn af þremur leikjum og þykir afar líklegt að nemendaráðin endurtaki leika á næsta ári. Um 170 nemendur mættu frá skólanum upp í íþróttahús Fjölbrautaskólans í Breiðholti og hvöttu liðið sitt áfram. FB hlaut farandbikarinn að þessu sinni en markmið nemenda í FÁ er að sjálfsögðu að ná honum til sín að ári liðnu. Við skólann eru fjölmargir sem bera af í fótbolta og nemendur eru strax farnir að æfa sig fyrir næsta mót. Stjórnir nemendafélagana eiga sannarlega hrós skilið fyrir þetta frábæra framtak!

Tanntækninemar með fræðslu í FVA

Tanntækninemar í verknámi eru í áfanga sem heitir FOSA2FO04 sem gengur út á forvarnir og samskipti. Nemendur fjalla m.a. um hvernig skal huga að munnhirðu mismunandi hópa og kenna handbragð. Í þessum áfanga er mikið um þverfaglegt samstarf við sjúkraliðabrautir í okkar skóla ásamt öðrum skólum eins og FVA og FB, einnig er samstarf við öldrunarstofnanir, leikskóla og fleiri. Um daginn fóru tanntækninemarnir í heimsókn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og voru með fræðslu og kennslu fyrir nemendur þar.