Umhverfisráð FÁ fær styrk úr Loftslagssjóði Reykjavíkurborgar

Borgarráð hefur samþykkt að veita 500.000 króna styrk fyrir verkefninu „Loftslagspartý framhaldsskólanna“. Verkefnið gengur út á að efla samvinnu framhaldsskóla í umhverfismálum og halda stóran loftslagsviðburð fyrir ungmenni í Reykjavíkurborg. Samstarfsskólar Fjölbrautaskólans við Ármúla í verkefninu eru Tækniskólinn og Menntaskólinn við Sund. Umhverfisráðin í skólunum þremur koma til með að skipuleggja loftslagsviðburðinn saman og verður hann haldinn fyrir lok árs. Loftslagssjóður ungs fólks í Reykjavík er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Bloomberg philanthropies. Markmið sjóðsins er að virkja ungt fólk í leit að lausnum á loftslagsvandanum en sjóðurinn veitir styrki til verkefna sem eru hönnuð og unnin af ungu fólki á aldrinum 15-24 ára og hafa beina skírskotun í loftslagsáætlun borgarinnar. Styrkurinn var afhentur við fallega athöfn í Höfða í dag og mættu fulltrúar frá umhverfisráði FÁ á afhendinguna, þær Thelma Rut Þorvaldsdóttir og Bríet Saga Kjartansdóttir. Við óskum þeim og umhverfisráðum skólanna innilega til hamingju með styrkinn.

Íþróttavika og skautaferð

Það var mikið um að vera í FÁ í síðustu viku þegar haldin var íþrótta- og forvarnarvika samhliða Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport). Boðið var upp á frábæra og fjölbreytta dagskrá eins og instagram leik, hoppukastala, boðið var upp á ávexti, bekkpressukeppni, treyjudagur ofl. Bryndís Lóa skólasálfræðingur var með áhugaverðan fyrirlestur fyrir alla nýnema og aðra áhugasama um áföll og mýtur. Hápunktur vikunnar að vanda var skautaferðin í Skautahöllina í Laugardalnum. Þar skemmtu um 200 nemendur sér á skautum, alltaf jafn gaman.

Nemendur í umhverfisfræði á Þingvöllum

Nemendur í umhverfisfræði fóru í heimsókn í þjóðgarðinn á Þingvöllum í gær í dásemdar haustveðri. Þar tók Torfi Stefán Jónsson, fyrrum sögukennari í FÁ og núverandi fræðslufulltrúi á Þingvöllum, á móti nemendum og fengu þau fræðandi og skemmtilega leiðsögn um svæðið. Alltaf jafn skemmtileg ferð hjá umhverfisfræðinni á Þingvelli.

Evrópski tungumáladagurinn 26. september

Evrópski tungumáladagurinn er haldinn í tuttugasta og þriðja sinn í dag, 26. september. Þemað í ár er „Languages for peace“. Markmið Evrópska tungumáladagsins, sem haldinn er 26. september um alla Evrópu, er að vekja athygli á ríkulegum tungumála- og menningarlegum fjölbreytileika álfunnar og hvetja til að bæta úrval tungumála sem fólk lærir á lífsleiðinni. Aukin tungumálakunnátta veitir okkur betri innsýn inn í ólíka menningarheima og bætir samfélagslega færni okkar. Evrópski tungumáladagurinn er tækifæri til að fagna öllum tungumálum Evrópu, bæði stórum og smáum. Í tilefni dagsins þá verður ýmislegt gert í FÁ. Við erum búin að skreyta skólann með fánum og veggspjöldum um tungumál Evrópu. Spiluð verða lög á ýmsum tungumálum í frímínútum og svo verður tússtafla á Steypunni þar sem að nemendur og starfsfólk eiga að skrifa 3 orð / orðasamsetningar á hinum ýmsu tungumálum. Þess má geta að í FÁ eru töluð 37 tungumál frá öllum heimshornum. Hér má sjá meiri upplýsingar um Evrópska tungumáladaginn: https://edl.ecml.at/Home/tabid/1455/language/is-IS/Default.aspx Au revoir, Adios, Auf Wiedersehen, Arrivederci, Adeus, Tot ziens, Hej da, Farvel, Do widzenia, Αντίο, Довиждане, Näkemiin, Viszontlátásra, До свидания

Fánadagur heimsmarkmiðanna í dag!

Árið 2024 eru níu ár liðin frá því að 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, settu sér sameiginleg markmið, alls 17 heimsmarkmið um betri heim. Stefnt er á að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt. Í dag tekur Fjölbrautaskólinn við Ármúla þátt í fánadegi heimsmarkmiðanna ásamt hundruðum fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga á heimsvísu. Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að sýna stuðning í verki. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030. Það er raunsætt að það náist árangur ef allar þjóðir setja sér framsækin markmið og standa við þau. Því er mikilvægt að við munum öll eftir heimsmarkmiðunum, þekkjum þau og hjálpum til við að framfylgja þeim eftir bestu getu 😊

Nýr skólasálfræðingur í FÁ

Nýr skólasálfræðingur FÁ er Bryndís Lóa Jóhannsdóttir. Hún er við alla virka daga fyrir hádegi. Hægt er að senda póst á hana til að panta tíma (bryndisloa@fa.is) eða koma við hjá henni á skrifstofu stoðþjónustu á N gangi. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.

Íþrótta- og forvarnarvika í FÁ

Í þessari viku verður haldin íþrótta- og forvarnarvika í FÁ en þá er einnig Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) sem er haldin formlega dagana 23. – 30. september. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Evrópubúar geta sameinast undir slagorðinu #BeActive.

Gleðilegan Dag íslenskrar náttúru

Í tilefni dagsins gróðursettu nemendur og starfsfólk við fjölbrautaskólann fimm rifsberjarunna við enda lóðarinnar, þar sem leikskólinn Múlaborg er staðsettur. Var þetta gert í samstarfi við leikskólann og leikskólabörnin hjálpuðu til við gróðursetninguna. Vonin er að bæði skólastigin njóti góðs af berjunum sem þar munu vaxa um ókomna tíð. Gróðursetningin er liður í því að efla samstarf skólanna tveggja sem hafa verið vinaskólar til margra ára.

Heimsókn á Gljúfrastein

Nemendur í íslensku fóru í vettvangsferð á Gljúfrastein en þau eru um þessar mundir að lesa Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Í heimsókninni fengu þau hljóðleiðsögn um húsið og sáu hvernig skáldið bjó. Áhugaverð og fróðleg heimsókn í alla staði.

Ný heimasíða komin í loftið

Okkur er sönn ánægja að tilkynna um nýja heimasíðu FÁ sem komin er í loftið. Á nýrri heimasíðu vonumst við til að efnið verði aðgengilegra og skiljanlegra en áður. Síðan er enn í vinnslu og á því eftir að bæta við nokkru efni. Ef upplýsingar eru ekki réttar eða síður/hlekkir virka ekki endilega hafið samband og látið okkur vita á kristinvald@fa.is. Hönnun síðunnar var unnin í samvinnu við Stefnu hugbúnaðarhús með það að markmiði að hún væri í senn notendavæn og aðgengileg. Er það von okkar að þessi nýja síða verði öllum sem heimsækja hana til gagns og upplýsinga