12.02.2025
Í dag, miðvikudaginn 12. febrúar, heimsóttu tveir líffræðingar skólann, þeir Rafn Sigurðsson og Andreas Guðmundsson Gahwiller.
Þeir mættu ekki einir, heldur komu þeir með samfélag maura með sér og kynntu nemendum fyrir öllu því helsta í heimi maura.
Hér koma nokkrir fróðlegir punktar:
🐜 Maurar lifa í sérhæfðum og skipulögðum samfélögum og innan þeirra ríkir mikil stéttaskipting
🐜 Yngstu maurarnir vinna almennt inn í búinu og elstu maurarnir veiða mat fyrir hina
🐜 Maurasystkini eru 75% skyld hvort öðru en ekki 50% eins og tíðkast í heimi manna
🐜 Maurar eiga helst samskipti við hvern annan með ferómónum
🐜 Maurar hafa fundist víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og berast t.d. hingað til til lands með pottaplöntum,
matvælum og farangri úr ferðalögum
🐜 Ef þið finnið maura heima hjá ykkur eða einhversstaðar á Íslandi þá hvetjum við ykkur til að tilkynna það á maurar.hi.is
Ef þið viljið fleiri fróðleikskorn um maura, þá má finna þau hér: maurar.hi.is
07.02.2025
Þau Halldór, Dagur og Iðunn voru skólanum sínum heldur betur til sóma í gærkvöldi þegar þau sigruðu lið Menntaskólans á Egilsstöðum 30-18 í 8 liða úrslitum Gettu betur. FÁ er þar með komið í undanúrslit keppninnar. Staðan var jöfn eftir hraðaspurningar 12-12 en svo juku þau forskotið jafnt og þétt. Tryggðu þau svo sigurinn með því að svara einni vísbendingaspurningu sem gaf þeim 5 stig.
Við eigum eftir að vita við hverja við keppum í undanúrslitum þar sem 3 keppnir eru eftir í 8 liða úrslitum. Liðið mun því án efa nýta tímann vel til að æfa sig til að koma sterk inn í undanúrslitin.
Fyrr í vikunni keppti lið FÁ á móti liði kennara í matsalnum. Í liði kennara var Þóra íslenskukennari, Unnar gæðastjóri og Magnús skólameistari. Var keppnin æsispennandi og endaði þannig að kennarar þurftu að lúta í lægra haldi fyrir firnasterku liði FÁ.
Hér má sjá upptöku af keppninni sem var í beinni útsendingu á RÚV:
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/gettu-betur/37029/b14bah
06.02.2025
Ágætu nemendur.
Skólahald fellur niður í allan dag, fimmtudaginn 6. febrúar vegna framlengingar á rauðri veðurviðvörun.
Dear students.
No school today, Thursday February 6th. due to red weather warnings.
Stay safe !
06.02.2025
FRÍS, rafíþróttakeppni íslenskra framhaldsskóla, hófst 29. janúar síðastliðinn en í henni keppa skólar sín á milli í leikjunum Fortnite, Rocket League og Counter-Strike 2. Lið FÁ byrjar keppnina mjög vel og hefur unnið sjö af níu leikjum. Um miðjan febrúar kemur svo í ljós hvaða skólar komast áfram í 8-liða úrslit.
Stefán Máni, Karvel og Elvar leiða Rocket League lið FÁ í ár, Ísar Hólm, Aron Örn og Sigmar eru í Fortnite-liðinu og í CS2-liði skólans eru Birnir Orri, Ihor, Aline, Thanh og Quan. Varamenn eru Aron, Elínheiður, Jens, Logi, Milena og Sölvi.
Þess má geta að skólinn býður upp á tvo áfanga í rafíþróttum: RAFÍ2FA03 (Rafíþróttir fyrir alla) sem er í boði á haustönn og RAFÍ2SM03 (Rafíþróttir: Störf og mót) á vorönn.
Áfram FÁ!
31.01.2025
Útskrifaðist þú frá FÁ ? Það er gaman að segja frá því að margar útskriftarmyndir frá árinu 1982 til dagsins í dag eru komnar á heimasíðuna. Eru þetta bæði myndir frá brautskráningu stúdenta sem og allra deilda Heilbrigðisskólans.
Flestar myndir eru komnar inn og er verið að vinna í að koma restinni inn og gerist það fljótlega.
27.01.2025
FRÍS
Í dag, 27. janúar hefst framhaldsskólakeppni rafíþróttasambandsins, FRÍS.
Keppt er í þremur tölvuleikjum, Counter Strike 2, Rocket League og Fortnite. FÁ tekur að sjálfsögðu þátt í öllum leikjunum eins og undanfarin ár.
Við óskum keppendum okkar velfarnaðar í keppninni og vonum að þeim gangi sem allra best.
Hann Stefán Máni er keppandi í liði FÁ og hann hefur verið að gera góða hluti í rafíþróttum og var meðal annars Íslandsmeistari í Rocket League.
23.01.2025
Samfélagslöggan kíkti í heimsókn í FÁ í gær og heimsótti nýnema í lífsleikni. Samfélagslöggan er forvarnaverkefni Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu og miðar að því að færa lögregluna nær samfélaginu og styrkja tengsl hennar við ungt fólk sérstaklega. Nemendur fengu fræðslu og spurðu mjög flottra spurninga. Einnig fengu þau sem vildu að máta skotheldu vestin eða að prófa að setja handjárn á félaga sína. Við þökkum Samfélagslöggunni fyrir komuna.
22.01.2025
Hér kemur nýjasta fréttabréf FÁ fyrir lok nóvember til janúar. Fjölbreytt efni að vanda, farið er yfir það helsta sem er á döfinni og hvað við erum búin að gera í skólanum undanfarnar vikur. Næsta fréttabréf kemur út í febrúar.
22.01.2025
FÁ tryggði sér sæti í 8 liða úrslitum í Gettu betur í gærkvöldi þegar lið skólans vann Fjölbrautaskóla Suðurlands með 30 stigum gegn 21. Frábær framistaða hjá þeim Iðunni, Degi og Halldóri.
Þetta þýðir að við keppum næst í 8 liða úrslitum í beinni útsendingu í sjónvarpssal. Nú bíðum við spennt hverjir næstu andstæðingar okkar verða og hvenær næsta keppni verður. Fylgist því með :)
17.01.2025
Dagana 6.-11. nóvember tók Fjölbrautarskólanum við Ármúla tók þátt í Erasmus verkefninu Second life í Lannion Frakklandi. Verkefnið er samstarfsverkefni, fjögurra skóla, en auk kennara og nemenda frá FÁ tóku þátt nemendur og kennarar frá Frakklandi, Þýskalandi og Portúgal. Þátttakendur frá FÁ voru kennararnir Þórhallur Halldórsson og Ásdís Þórðardóttir auk fimm úrvalsnemenda af Nýsköpunar- og Listabraut. Nemendur útbjuggu í sameiningu kynningu um sjálfbærni, skólann okkar og Reykjavík og útbjuggu hlut sem þau gáfu nýtt líf og kynntu.
Gestgjafinn, franski skólinn Lycée Félix Le Dantec, er staðsettur í bænum Lannion er tilheyrir héraðinu Bretagne, skaga sem teygir sig út í Atlandshafið. Strandlengja Bretagne er 1200 kílómetralöng og um hana fara gríðarlega miklar siglingar og mikið náttúrulíf sem er mikilvægt fyrir vistkerfi heimsins og er viðkvæmt fyrir umhverfisslysum og loftslagsbreytingum. Farið var í vettvangsferðir um fallegar strandlengjur og skilningur nemenda dýpkaður á viðkvæmni hringrásar vistkerfisins. Auk vettvangsferða og margvíslegra vinnusmiðja þar sem unnið var þvert á þjóðerni heimsóttum við öfluga endurvinnslu sem sinnir rúmlega 200.0000 manna samfélagi. Dagskráin var almennt mjög þétt alla daga. Vinnusmiðjur, málstofur og kynningar og nemendur settu upp stutta leikþætti fyrir hvern annan. Auk alls þessa gistu nemendur á heimilum franskra nemenda og kynntust í leiðinni fjölbreyttri franskri heimilismenningu. Nemendur voru á allan hátt til sóma í framkomu og þátttöku í verkefninu.